18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 980 í B-deild Alþingistíðinda. (762)

1. mál, fjárlög 1924

Bjarni Jónsson:

Jeg hefi hlustað með undrun á umræður þær, sem orðið hafa út af till. hv. samgmn. Veit jeg eigi til, að sú nefnd hafi nokkurt það erindisbrjef í höndum, sem heimili henni að fara á bak við okkur með till. um eimskipaferðir og segja fyrir, hvernig skipaferðum skuli háttað. Jeg vil víta þetta og tel ósæmilegt, hvernig nefndin hefir farið með sitt umboð. Jeg vissi ekki fyrri en nú, að nefndin væri búin að gera nokkrar tillögur í þessa átt, en nú eru þær sendar í önnur lönd. Mætti þetta verða áminning til nefndarinnar um að fara ekki oftar á bak við þingið.

Þá kem jeg að fjárlögunum. Skal jeg fyrst minnast á brtt. frá hv. 1. þm. Rang. (GunnS), um að lækka styrkinn til Dansk- islandsk Samfund niður í 300 kr. Jeg tel þessa till. í alla staði rjettmæta, en þó furðar mig á því, að háttv. þm. skuli ekki hafa fundið hagkvæmustu leiðina, þá, að strika út aftasta núllið. Skal jeg geta þess, að jeg veit eigi betur en það fjelag hafi veitt styrk undanfarið til Dansk Kunstflidsforening, þessa fjelags, er haldið hefir uppi sumarskóla fyrir „ubemidlede Piger fra Færöerne, Grönland, Island og Sönderjylland“ og í ávarpi sínu sagði, að skömm væri, hvað litið væri niður á stúlkur frá löndurn þeim, sem áhangandi væru móðurlandinu. Mjer er óskiljanlegt, að hv. þm. skuli ekki sjá, hvar fiskur liggur undir steini, að hjer er hafinn undirróður þess, sem gerast á árið 1940. Og ekki verður það talið hyggilegt af Íslendingum að veita fjárstyrk til slíkra starfa.

Jeg skal vera fáorður um styrkinn til Bjarna yfirkennara Sæmundssonar, en vil annars geta þess, að það getur ekki orðið neitt lausnarorð, hvort stofnað er nýtt starf eða ekki, ef á starfinu þarf að halda. Og sje starfið nauðsynlegt fyrir þjóðina, þá er það aukaatriði, hvort það er borgað með 7 þús. eða 70 þús. Kemur hjer hvort sem er víst aldrei sú gullöld yfir þjóðina, að menn þurfi ekkert til síns viðurværis. Nú er þess að gæta, sem enginn hefir minst nógsamlega á, að Bjarni hefir um mörg ár unnið að fiskirannsóknum með stökum dugnaði og haft til þess styrk, sem numið hefir aðeins 600–1200 kr. á ári, og er það sýnilega ekki meira en lítil hlutdeild í ferðakostnaði hans. Þá mætti og taka tillit til þess, að af tveim aðalatvinnuvegum landsins er sjávarútvegurinn sá, sem miklu meira greiðir í ríkissjóð, og er því naumast teljandi eftir, þó honum bætist þessi vinnukraftur.

Háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) er fyndinn maður. Sást það á því, er hann var að tala um hannyrðakensluna í Dalasýslu. Hjelt hann, að Dansk Kunstflidsforening hefði flust þangað, og vildi ekki, að Dalasýsla þyrfti að búa við þá óhæfu. En þó það fjelag sje duglegt, þá hefir það þó aldrei átt beykistöð þar. Honum er því alveg óhætt að sýna sig svo góðviljaðan að greiða atkvæði með þessari litlu fjárveitingu, eins og hann gerði á síðasta þingi. Þessi stúlka hefir haft skóla á heimili föður síns, með mjög vægum kjörum fyrir nemendurna, og tel jeg vafalaust, að hv. þm. muni vilja stuðla að þessari viðleitni framvegis.

Þá hefi jeg, ásamt hv. þm. V.-Sk. (LH), leyft mjer að bera fram brtt. um, að veittar verði 200 kr. til viðbótar við eftirlaun Bjarna prófasts Einarssonar. Við síðustu umræðu munaði minstu, að samþykt væri að veita þessum manni 1000 kr. Ætti hv. deild því að vera ljúft að verða við þessari litlu beiðni.

Þá var feld af einhverjum óskiljanlegum ástæðum tillaga um smálán til Sigurðar Lýðssonar, bónda á Hvoli, til að endurreisa Svínadalssel. Svo hagar þar til, að dalurinn liggur milli bygða og standa oft um hann strokur miklar á móti mönnum á vetrum. Er þá oft gott, bæði pósti og öðrum, að þurfa ekki að fara alla leið, hvernig sem veður er, og geta haft athvarf í dalnum. Veit jeg, að öllum, sem þekkja til á þessum slóðum, er ljós nauðsynin á að fá þarna skýli fyrir ferðamenn. En felt var að veita til þessa 8 þús. kr. lán, samtímis því, að hv. deild samþykti 50000 kr. lánsheimild til tunnuverksmiðju og 120 þús. kr. til sútunarverksmiðju. Er þó ólíku saman að jafna. Hjer er boðinn 1. veðrjettur í fasteign, svo áhættan fyrir ríkissjóðinn ætti ekki að vaxa mönnum í augum. Kemur nefndin nú með till. aftur, og til samkomulags lækkar hún upphæðina um 1000 kr., í þeirri von, að hún finni því náð fyrir augum hv. deildar. Bæði er það, að nauðsyn er, að þarna sje bygð, auk þess sem það er í samræmi við hugmyndir sumra þingmanna um nýbýli.

Þá tel jeg víst, að samþykkja megi án atkvæða brtt. hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) um að „rafmagnsveita“ komi í stað orðsins „rafveita“, svo sjálfsögð er hún. (BH: Er ekki vissara að hafa nafnakall?). Það má vel vera. Rafið kann að vera rennandi að sumra áliti, en á hitt vildi jeg minna, að lögmál tungunnar lætur ekki að sjer hæða, og aðallögmál hennar er, að rjett hugsun hvíli að baki orðanna. Það var ekki síður forfeðra vorra að láta fossana sigla um sjóinn og fljóta á öldunum, nje heldur að láta Esjuna kljúfa þær. Það getur vel verið, að nú sje þetta sjálfsagt, að fara að dæmi annara óhugsaðra og ógöfugra tungna.

Háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) lagði mikið kapp á klæðaverksmiðju sína og vill fá lánaðar 100 þús. kr. handa því geróþarfa fyrirtæki, sem mundi aðeins verða til að eyðileggja eða skemma fyrir öðrum samskonar fyrirtækjum, sem þegar eru komin á fót hjá okkur. Það mundi drepa þær vonir, sem landsmenn hafa á því að geta unnið ull sína sjálfir. Í stað þess að senda hana óunna út úr landinu. Það er líkur sparnaður í þessu hjá hv. þm. eins og er hann talaði um kostnað landssjóðs sem afleiðing af barnaskólabyggingum. Hingað til hefir ekki verið veittur styrkur til annara barnaskólahúsa en þeirra, sem reist eru utan kaupstaða. En nú koma aðrir á eftir og heimta sömu rjettindi, Reykjavík með 100 þús., Ísafjörður með 15 þús. o. s. frv. Það verður um hálf önnur miljón, eins og jeg spáði, á næstu árum, ef enginn bjargar málinu við á þessu þingi.

Þá vil jeg minnast fáum orðum á mínar eigin tillögur, og er mjer þá fyrst skylt að þakka hv. þm. N.-Ísf. (SSt) hin góðu ummæli hans um Sveinbjörn tónskáld Sveinbjörnsson og um hækkunina á styrknum til hans. Meðmæli þessa hv. þm. eru nægileg til að færa hv. þm. heim sanninn um, að till. mín er sanngjörn, þar sem hann er svo sparsamur maður, sem allir vita, en mælti þó svo ríkt með henni. Ef menn eiga að geta fengið 3 sæmileg herbergi hjer í bænum, verður húsaleigan sjálfsagt 2000 kr. á ári. Nú hefir þessi tónsnillingur aðeins tvö herbergi og aðgang að eldhúsi, og fyrir það þarf hann að borga 1800 kr. Svo á hann að lifa af 2200 kr. að öllu öðru leyti, og þetta er gestur, sem þjóðin hefir boðið heim.

Jeg get ekki verið að mæla frekara með þessu; jeg geri ekki ráð fyrir, að nokkur hv. þm. verði á móti till. minni. Yfirleitt vona jeg, að till. mínum sje svo í hóf stilt í þetta sinn, að óþarfi sje fyrir mig að tala mikið með þeim, svo sem þessari litlu viðbót við Einar Jónsson, sem jeg hefi farið fram á. Jeg vil aðeins þakka þeim, sem taka till. mínum vel. Viðvíkjandi þeim sjerstöku mönnum, sem jeg hefi farið fram á, að veitt yrði viðbót við launin, þá tel jeg það vel til fallið, ef þingmenn halda áfram í kvöld, að þeim verði gefin sú viðbót í sumargjöf.