18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 987 í B-deild Alþingistíðinda. (766)

1. mál, fjárlög 1924

Eiríkur Einarsson:

Jeg verð aftur að leyfa mjer að mæla með styrknum til Þórdísar Símonardóttur ljósmóður á Eyrarbakka, sem jeg og hv. samþm. minn (ÞorlG) flytjum. Þessi heiðurskona á það skilið, og auk þess er það ekki undantekning frá almennri reglu, eins og jeg hefi fyr tekið fram. Þá get jeg ekki heldur leitt hjá mjer að minnast lítið eitt á styrkinn til að stofna ullarverksmiðju. Hv. frsm. fjvn. (MP) bygði mótmæli gegn tillögu minni á því, að málið væri ekki nógu formlega tekið upp og vantaði upplýsingar, þótt hann virtist hlyntur stórri klæðaverksmiðju. En þetta er ekki rjett. Þingmenn hefðu getað kynt sjer mál þetta, ef þeir hefðu viljað. Stjórnskipuð nefnd hefir unnið að þessu máli og hún hefir samið ítarlegt nál. um málið, sem jeg gat um við 2. umr. En samhliða nál. ryðjast hjer inn á þingið tillögur um smáverksmiðjur til og frá um landið, og finst mjer ekki gerlegt að ljá þeim málaleitunum liðsyrði á þessu stigi málsins. Virðist það helsti kákkent. Nefndarálitið þarf að ræðast, þingið mynda sjer heildarskoðun og síðan að takast afstaða til málaleitana frá einstökum hjeruðum. Jeg vil nú skjóta því til hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), hvort hann vilji ekki taka sína tillögu aftur að svo vöxnu máli.

Jeg þarf ekki miklu að svara hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) út af Geysishúsinu. Helsti ágreiningurinn er um það, hvort húsið hafi verið hæft til gistingar eða ekki. Jeg staðhæfi, að menn hafi verið hættir að gista þar 1921 og það hafi verið mesta örtröð á bæjunum í kring, af því að húsið var orðið ónothæft til gistingar. Annars get jeg verið þakklátur háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ). Hann hefir með máli sínu staðfest, að það er þörf á gistihúsum á ferðamannastöðvunum eystra, og allir kunnugir vita, að Gnúpverjahreppur er þar öðrum sveitum fremur áfangastaður. Um það þarf ekki að deila.

Að síðustu vil jeg, til þess að fyrirbyggja allan vafa, geta þess, hvern þátt jeg átti í því, að húsið við Geysi var rifið. Jeg átti, í fám orðum sagt, engan þátt í því á nokkurn hátt, en hitt játa jeg, að úr því húsið var rifið, taldi jeg það að öllu leyti sanngjarnt, að læknissetrið nyti öðrum fremur góðs af röftunum úr því. Þetta endurtek jeg hjer. Jeg mótmæli því, er hv. 3. þm. Reykv. sagði, að jeg væri eigi óviðriðinn mál þetta. Hann leiddi það af því, að jeg var stuðningsmaður fyrverandi fjármálaráðherra (MagnJ). Það er satt, að jeg studdi hann í stjórnina, og er hann nú er farinn, þá vil jeg bera blak af honum, af því að mjer finst of mikið gert úr ávirðingum hans. En hvorki hann nje aðra ráðherra vil jeg styðja lengra en sæmilegur málstaður leyfir.