30.04.1923
Efri deild: 51. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1024 í B-deild Alþingistíðinda. (796)

1. mál, fjárlög 1924

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg vildi leyfa mjer að gera nokkrar athugasemdir út af ummælum háttv. þm. Snæf. (HSt) um yfirsetukvennanemendur. Þegar þetta mál var til meðferðar í fjárveitinganefnd, átti jeg tal við eina yfirsetukonu hjer í bæ, sem hefir verið kennari við yfirsetukvennaskólann og haft flesta nemendur með sjer í „praksis“. Hún gaf mjer ýmsar upplýsingar, og ætla jeg hjer að rekja þær lauslega. Hún sagði, að í ár hefðu verið 17 nemendur á skólanum, og námstíminn er 6 mánuðir, talið frá 1. október. Nú er í ráði að auka 1 mánuði við skólaárið, og hefir það vitanlega aukin útgjöld í för með sjer. Jeg spurði hana, hvað hver stúlka fengi háan styrk mánaðarlega, og svaraði hún á þá leið, að þegar hæsti styrkur hefði verið veittur, hefði hann numið 150 kr. á mánuði, en nú í ár hefði hann ekki verið nema 120 kr. Þá spurði jeg hana, hvort hún áliti, að 16–18 nemendur þyrftu árlega að sækja skólann, til þess að fullnægja eftirspurninni. Hún kvað 10–12 nemendur kappnóg, því að af öllum þeim fjölda, sem útskrifaðist frá skólanum, væru tiltölulega margar, sem aldrei tækju hjerað. Annars áleit þessi yfirsetukona, að besta fyrirkomulagið væri það, að nemendurnir væru styrktir að einhverju leyti af hjeruðunum og væru um leið skyldaðir til að fara í hjeruðin síðar, að afloknu námi. En þetta skilyrði og fleiri, sem hún benti mjer á, eru í raun og veru ekki til umræðu nú, en þó eru þau fullkomlega þess verð, að þeim sje gaumur gefinn.

Það sæti illa á mjer að amast við því, að veittur sje styrkur til mentunar kvenna, því vissulega er ekki of mikið til þess lagt af almannafje, en hjer stendur svo sjerstaklega á, að aðsókn að þessum skóla hefir verið of mikil, samanborið við eftirspurnina, og þær stúlkur, sem þaðan hafa komið, hafa ekki horfið að þeim starfa, sem þær hafa verið styrktar til. Ljósmóðir sú, sem jeg talaði um áðan, og sem jeg get nafngreint, ef þess er krafist, sagði mjer, að hún vissi um 10–20 nemendur, sem hefðu útskrifast, en aldrei tekið hjerað. Þegar alt þetta er athugað, virðist óþarfi að eyða fje landsins um of í þessa fræðslu, þegar nóg er til af konum, sem mentaðar eru í þessari grein. Þetta vil jeg taka fram vegna þess, að dregið var í efa, að till. nefndarinnar væru rjettmætar í þessu efni.

Áður en jeg sest niður vil jeg geta þess, þó að það komi ekki fjárhagsatriðinu við, að þessi sama kona áleit, að aldurstakmarkið yrði að vera hærra, því að þetta nám hafa stundað 18–19 ára gamlar stúlkur, en það eru of ungir nemendur. Hún gat þess líka, að ekki virtist vera ekla á yfirsetukonum eins og nú stæðu sakir.