07.05.1923
Neðri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1126 í B-deild Alþingistíðinda. (840)

1. mál, fjárlög 1924

Þorleifur Guðmundsson:

Jeg stend upp til þess að láta óánægju mína í ljós á meðferð hv. Ed. á fjárlögunum yfirleitt, þar sem hún hefir leyft sjer að fella niður fjárveitingar til nauðsynlegra fyrirtækja, sem gefið gætu þjóðinni beinlínis eða óbeinlínis arð, en tekið upp í þeirra stað ýmsa bitlinga og aðrar fjárveitingar, er síður virðast nauðsynlegar. Ein af þeim fjárveitingum, sem háttv. Ed. hefir látið sjer sæma að fella í burtu, var styrkur og lánveiting til sútunarverksmiðju, er Sláturfjelag Suðurlands hefir ráðgert að koma á fót, sem hlýtur að skoðast bráðnauðsynlegt fyrirtæki, sem miðar til eflingar framleiðslu þjóðarinnar. En þó þótti mjer taka út yfir með símana, þar sem fjvn. þeirrar hv. deildar lagði til, að þeir væru allir feldir niður, að undanskildum einum, sem búið var að flytja efnið til á staðinn. En þó var það verra, að hæstv. atvrh. (KIJ) skyldi trufla svo háttv. deild, að hann gat komið henni til, eftir áeggjan landssímastjóra, að setja inn aftur alla þá síma, er honum einum hafði þóknast að yrðu lagðir öðrum fremur, og var því valdur að því að koma hv. deild gersamlega út af þeirri samræmisbraut, sem hún virtist vera komin á, enda þótt jeg sje ekki að hrósa því samræmi, er hún virtist vilja halda, en var þó öllu skárra en endalokin. Mjer finst, að þessi háttv. deild geti ekki gert sig ánægða með það, að háttv. Ed. sýni henni þá lítilsvirðingu að fella niður fjárveitingar eins og t. d. til Selvogssímans, sem samþyktur var hjer með 19 atkvæðum. Að minsta kosti get jeg ekki þolað þá kúgun af þeirri háttv. deild fyrir hönd háttv. Nd. Jeg get ekki skilið í því, að það geti verið rjett, sem mjer hafði borist til eyrna, að sumir af þeim háttv. þm., sem höfðu samþykt þessa fjárveitingu, væru nú að hugsa um að beygja sig undir ofurvald háttv. Ed., þar sem jeg hafði lýst svo greinilega þeirri þörf og því gagni, sem þessi símalína mundi gera, þar sem hún gæti beinlínis orðið til að bjarga lífi íbúa sveitarinnar, ef um veikindi er að ræða og leita þarf læknis til Eyrarbakka, og þar sem hún gæti orðið til þess að efla sjávarútveginn austan fjalls og bjarga lífi sjómanna þeirra, er stunda þangað sjó frá Stokkseyri og Eyrarbakka, og þá einnig til að reisa við sjávarútveginn þar í sveit, svo sem í Herdísarvík og Nesi. Og sem loks gæti orðið til þess að efla landbúnaðinn þar drjúglega og auka íbúatölu sveitarinnar að miklum mun, ef um nýbýlarækt væri að ræða. En sárast tók mig þó, að hæstv. atvrh. (KIJ), sem á að hafa vakandi auga á því með hverju best megi hjálpa við atvinnuvegum þjóðarinnar, að hann skyldi láta svo að vilja landssímastjórans, að hann skyldi drýgja þá ósanngirni að ráða hv. deild til þess að fella niður þessa fjárveitingu, þrátt fyrir það þótt hann hljóti að hafa sannfærst með ræðu minni er jeg hjelt um þetta efni við 3. umr. fjárlaganna hjer í háttv. deild. eingöngu til þess að þóknast þeim aflmeiri og kröfuharðari, án þess að líta á það, sem er rjettmætt og sjálfsagt. Og vil jeg láta háttv. deildarmenn skilja það, að þjóðin, hún mun ekki verða þeim þakklát að fella niður fjárveitingu sem þessa, þar sem hún er bygð á fullkominni sanngirni og rjettmætum kröfum afskektrar sveitar, sem aldrei hefir notið neins styrks til nokkurs hlutar, en ávalt greitt það, sem henni bar.

Og hæstv. stjórn vil jeg segja það, að sú stjórn, sem á slíkan ráðherra, sem gengur á móti rjettmætum kröfum lítilmagnans, eingöngu til þess að þóknast þeim, sem eru meiri máttar, að hún er ekki á framtíðarvegi.