14.03.1923
Neðri deild: 20. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1201 í B-deild Alþingistíðinda. (956)

44. mál, vélgæsla á íslenskum mótorskipum

Jón Baldvinsson:

Við hv. þm. Borgf. (PO) höfum ekki getað komið okkur saman um breytingartillögurnar. Aftur á móti erum við báðir sammála um það, að æskilegt sje, að vjelgæslunni verði komið í sem best horf og góð, raunveruleg þekking á þeim sviðum sje nauðsynleg til þess, en sje á hinn bóginn ekki, að mínar brtt. dragi úr tryggingunni fyrir því eða breyti þessu. Jeg tel nauðsynlegt, að menn hafi sem mesta æfingu og reynslu í meðferð vjela, og erum við einnig sammála um það atriði. Hitt leggur hann meiri áherslu á en jeg, að sú æfing sje fengin á námsskeiðum Fiskifjelags Íslands, sem raunar flestir vjelstjórar hafa sótt. Jeg geri ráð fyrir, að útgerðarmenn sakist mest eftir þeim mönnum, sem fram úr skara, og er þá hart að mega ekki njóta krafa þeirra fyrir þær sakir einar, að þá vantar prófstimpilinn frá námskeiði eða mótorskóla.

Við erum báðir ásáttir um, að fyrst og fremst beri að gæta hagsmuna heildarinnar, þó einhverjir einstaklingar kunni með því að verða fyrir skakkaföllum. En nú getur svo staðið á, að menn komist í gegnum bóklegt nám, þó þeir annars hafi engin skilyrði til að verða góðir vjelstjórar, þegar til framkvæmda kemur. Var um þetta kvartað við samningu laganna um atvinnu við siglingar í fyrra og tekið t. d., að hart væri að svifta gamla og þrautreynda mótorbátaformenn rjettinum til að halda því starfi áfram, þó þeir fyrir aldurs sakir eða aðrar kringumstæður ættu erfitt með að setjast að námi. Enda munu útgerðarmenn sjá sinn hag í því að taka þá menn eina til þessa starfs, sem raunverulega (praktiska) þekkingu hafa.

Háttv. þm. Borgf. (PO) mintist sömuleiðis á 5. gr. Tók hann til dæmis skip með 150 hestafla vjel og fór mörgum orðum um háska þann, sem af því gæti leitt, að vjelin bilaði og mótormennirnir kynnu ekki neitt til smíða. Jeg geri nú ráð fyrir, að til þessa starfa sjeu ekki valdir aðrir menn en þeir, sem til þess kunna nægilega mikið. Og hvað viðvíkur þeirri hættu, að vátryggingafjelög gætu í vissum tilfellum neitað að greiða orðinn skaða við slíka bilun, þá er það eitt að segja, að frv. útilokar hana ekki. Hefir og stundum orðið sú raunin á, að reyndir menn og vanir starfinu væru því eins vel vaxnir og þeir, sem prófskírteini hefðu.

Eftir því, sem nú lítur út fyrir, er þess langt að bíða, að mótorskóli komist á fót, og því óeðlilegt að binda rjettindin, enn sem komið er, við próf þaðan. Frv. gerir þeim mönnum órjett, sem lagt hafa stund á þessi störf og sýnt þar gætni og dugnað, þó þeir sjeu t. d. of gamlir til þess að ganga undir próf. Býst jeg því fastlega við, að brtt. mínar nái fram að ganga.