24.03.1924
Neðri deild: 31. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1641 í B-deild Alþingistíðinda. (1030)

60. mál, ríkisskuldabréf

Jón Sigurðsson:

Jeg ætla að byrja mál mitt með því að þakka hv. nefnd fyrir góðar undirtektir að því er þetta frv. snertir. Það var fram borið sem heimild fyrir stjórnina, en nefndin hefir fært það í það horf, að breyta lögunum í þátt átt, sem heimildin benti til. En það var ekki út af brtt. nefndarinnar, sem jeg kvaddi mjer hljóðs, heldur var það niðurlag nál., sem jeg ætlaði að minnast á. Nefndin beinir því til stjórnarinnar að fresta öllum verklegum framkvæmdum samkvæmt brúa- og símalögum, húsabyggingum o. fl., sem lántökur þurfi til, og er þetta bæði eðlileg og sjálfsögð krafa Er nú svo komið hag ríkissjóðs, að skuldirnar eru orðnar það miklar, að nú verður að nema staðar, og því fyr, því betur. Jeg hlýt því að taka undir þetta með hv. nefnd, en jeg vil þó benda hæstv. stjórn á það, að það geta komið fyrir þau atvik, að frá þessari reglu verði að víkja. Ef einhversstaðar er svo brýn þörf á aðgerðum, að almenningur gerist fús til þess að taka sjer stórkostlegar byrðar á herðar á þessum krepputímum samkvæmt þessum lögum, þá sýnir það svo augljósa og knýjandi þörf á þeim mannvirkjum eða umbótum, að undir þeim kringumstæðum getur verið varhugavert að fresta þeim. Því verður ekki neitað, að þeir, sem við þetta eiga að búa, vita gerst, hvar skórinn kreppir. Það getur svo á staðið, að bæði líf og fjármunir margra manna sjeu í hættu staddir, ef ekki er aðhafst. Jeg vil aðeins benda á þetta, að það geti verið varhugavert að slá þessu föstu sem ófrávíkjanlegri reglu. Mjer þykir sennilegast, að engar slíkar kröfur komi fram, enda eru þessháttar tilboð ekki á hverju strái. En færi svo, að þessháttar tilboð kæmi fram, þætti mjer hart, ef stjórnin neitaði því. En viðvíkjandi því, að hv. 3. þm. Reykv. (JakM) taldi ekki vera rjett, að ríkið afborgaði slík lán til verklegra framkvæmda á 15 árum, þá má nefna mörg hjeruð í landinu, þar sem ríkissjóður hefir lagt alt fje fram til slíkra framkvæmda, og jafnvel tekið lán til styttri tíma.