24.03.1924
Neðri deild: 31. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1643 í B-deild Alþingistíðinda. (1032)

60. mál, ríkisskuldabréf

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Háttv. 2. þm. Skagf. (JS) sagði, að það gæti skeð, að stöðvun framkvæmda riði á lífi og fjármunum margra manna. En ef svo stendur á, væri reynandi að koma fjárveitingu til þess háttar hluta í fjárlögin; það ætti ekki að vera frágangssök. Nefndin heldur fast við það, að stjórnin ráðist alls ekki í neinar verklegar framkvæmdir utan fjárlaga. Á undanförnum árum hefir það átt sjer stað, að utan fjárlaga hefir verið greitt á ári hverju samkvæmt heimildum í öðrum sjerstökum lögum um milj. króna. Verði áframhald af slíku, verður ekki unt að gera fjárlögin tekjuhallalaus fyrir næsta eða næstu ár. Jeg skal ekki þrátta um nauðsynina á sumum þessum framkvæmdum, sem gerðar hafa verið, en hitt er óumdeilanlega augljóst, að margt af þessu hefði mátt bíða. Samkvæmt landsreikningnum fyrir 1922 hefir verið greitt samkv. sjerstökum lagaheimildum um 1800000 kr., og auðvitað var margt af því þannig vaxið, að ekki var hægt að komast hjá þessum greiðslum, en sumt hefði eflaust getað beðið, eins og jeg hefi áður sagt. Jeg er sammála hv. 3. þm. Reykv. (JakM), að ef brjefin eru útdráttarbrjef, er engin ástæða til þess að láta þau hjeruð, sem leggja lánin fram, fá þau greidd á 15 árum. Jeg tel víst, að menn mundu fremur vilja kaupa útdráttarbrjef, þótt gefin væru út til lengri tíma, en brjef, sem ekki væru dregin út, jafnvel þótt þau væru gefin út til styttri tíma. Ef Skagfirðingar vilja leggja út í þetta, hygg jeg, að þeir mundu eins gera það, þó að brjefin væru gefin út til 25 ára, af þau aðeins væru útdráttarbrjef. Það er mitt álit, að ríkið gæti gefið út slík brjef með lægri vöxtum, væru þau útdráttarbrjef. Það mundu fleiri verða til þess að kaupa þau, þótt þau væru með lægri vöxtum, ef þau væru dregin út, en ef þeir yrðu að bíða eftir borgun þeirra í 25 ár, þótt hærri væru vextirnir. Þessi breyting ætti því bæði að vera til hagsbóta ríkinu og landsmönnum sjálfum.

Svar hæstv. atvrh. (MG) get jeg vel látið mjer lynda og beðið eftir því til 3. umr., að hann fyrir hönd stjórnarinnar svari áskorun nefndarinnar. Það getur vel verið, að einhverjar sjeu t. d. brýr, sem skjótra aðgerða þurfi við, en jeg vona, að það sjeu ekki margar verklegar framkvæmdir, sem þannig er ástatt með.