18.03.1924
Neðri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1693 í B-deild Alþingistíðinda. (1136)

59. mál, friðun rjúpna

Tryggvi Þórhallsson:

Oft veltir lítil þúfa stóru hlassi, má segja um það, er hálf deildin er komin af stað út af því, sem jeg og hv. þm. Borgf. (PO) ljetum okkur um munn fara um rjúpurnar, sem sagt er að bornar hafi verið á borð í skilnaðarsamsæti hr. Böggilds.

Það hafa nú 3 hv. þm. veist að mjer út af þessu, svo mjer mun ekki síður en hv. 1. þm. Reykv. (JÞ) veita af því að bera af mjer sakir.

Jeg vil þá fyrst snúa mjer að þeim hv. þm., er síðast talaði. Mjer var satt að segja ekki annað kunnugt en að hann hefði verið í konsúlsveislunni, og er jeg þá fús að biðja hann að afsaka það misminni. En í málshættinum, sem jeg kom með í fyrri ræðu minni, fólst auðvitað engin aðdróttun um það, að veislugestum hefði verið ljóst, að rjúpurnar hefðu ekki verið fengnar á lögmætan hátt. Jeg átti aðeins við það, að veislugestunum myndi ef til vill hafa orðið ilt í maganum, er þeir frjettu að rjúpurnar, sem þeir höfðu neytt, væru ef til vill íslenskar, og vildu því sem minst láta á þessu bera.

Út af orðum hv. 3. þm. Reykv. (JakM) skal jeg geta þess, að orð mín náðu aðeins til margnefndrar veislu. Hitt, hvort einstakir menn hafa haft rjúpur sjer til viðurværis í heimahúsum, get jeg ekki borið um og segi ekkert um. Skrítin þótti mjer líka sú röksemdaleiðsla hv. þm., að þar sem jeg hafi aðeins sjeð mjög fáar rjúpur í kosningaleiðangri mínum í sumar, þá væri ekki líklegt, að rjúpur hefðu verið skotnar. Jeg hjelt satt að segja, að þá væri orðið lítið um rjúpur, ef ekki mætti finna það margar, að nægði í 50–60 manna veislu.

Get jeg svo að lokum tekið undir það með hv. þm. V.-Sk. og hv. 1. þm. Reykv., að jeg teldi æskilegt, að opinber rannsókn yrði hið fyrsta látin fara fram í þessu máli.