12.04.1924
Neðri deild: 49. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1714 í B-deild Alþingistíðinda. (1156)

59. mál, friðun rjúpna

Jón Sigurðsson:

Það eru örfá orð. Hv. þm. Borgf. (PO) taldi hættulaust, að friðunarárin fjellu niður, ef tíminn yrði styttur. Mjer virtist hann þó bæði við 1. umr. og þessa vera að leitast við að sanna hið gagnstæða. Hann var sem sje að leitast við að sanna, að menn skytu engu að síður á friðunarárunum (PO: Já, í grend við Reykjavík) en hin árin, og með því hefir hann ósannað alt, sem hann sagði nú síðast. En hvað myndu menn þá ekki skjóta rjett á undan og eftir friðunartímanum? Það virðist liggja í augum uppi.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. fjrh. (JÞ) stingur upp á, að farin sje sú leið að fela stjórninni friðunarákvæðin, þá játa jeg, að þetta er möguleiki. En jeg vil benda á, að það mun undantekning, að rjúpurnar falli eins og 1920 um alt land. Hitt kemur iðulega fyrir, að þær falli í einum landshluta gersamlega, og eftir þeim upplýsingum, sem gefnar hafa verið, sýnast þær ekki flögra mikið á milli. Á einum stað er nóg af þeim, á öðrum ekkert. Það gæti því orðið álitamál fyrir stjórnina, hvort hún ætti að friða þær, nema þegar þær fjellu um alt land, eða hvort hún ætti að friða þær, þegar þær gerfjellu á Norðurlandi, þó nóg væri um þær á Suðurlandi. Mjer sýnist stjórnin aðeins vera að skapa sjer vafninga með þessu, og vil því halda fast við, að þær sjeu friðaðar sjöunda hvert ár, eins og verið hefir.