05.03.1924
Neðri deild: 15. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1751 í B-deild Alþingistíðinda. (1185)

33. mál, friðun á laxi

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson):

Allar frekari umræður um þetta mál fara að verða orðastælur, og skal jeg hjer eftir ekki leggja mikinn skerf til þeirra. — En jeg get þó ekki að því gert að furða mig á þessu þrálæti með fordæmið hjá sumum háttv. þm. Það er þó svo ofurljóst þetta, að alveg eins og sú undanþága, sem hjer er um að ræða, hefir orðið til án fordæmis, eins geta vitanlega aðrar orðið það, þótt þessi sje ekki fyrir. Auk þess er hjer svo ramlega um hnútana búið, sem frekast er unt, til þess að girða fyrir, að á þetta yrði litið sem fordæmi. Í fyrsta lagi kom þá á þinginu frv. þess efnis að láta heimildina ná til Ölfusár og kvísla þeirra, sem í hana falla, og var það felt. Var þar með sýnt, að þingið vildi ekki ganga lengra en það, að undanþiggjá Ölfusá eina. Í öðru lagi kom þá fram brtt. frá þáverandi 1. þm. Árn. (Eiríki Einarssyni) um að gera þessa heimild víðtækari, og hún var einnig feld. Þar með var þessu slegið alveg föstu. Og i þriðja lagi var svo skýrt lýst yfir því af frsm., að þetta ætti ekki að skoðast sem fordæmi. Það virðist því lítil ástæða til þess að hafa slíkan ógnarbeyg af þessari heimild sem fordæmi.

Það er annars eitt atriði, sem jeg gat ekki um áðan viðvíkjandi þessu, hve lítið hefði verið um laxveiðina í sumar í efri hluta árinnar, atriði, sem er þó talsvert mikilsvert í þessu tilliti. Það er, að óvenju þurviðrasamt var á þessum slóðinn í sumar, og kom því aldrei svo mikið flóð í ána, að menn yrðu neyddir til að taka netin upp. Þetta hefir hjerumbil undantekningarlaust komið einhverntíma fyrir á hverju sumri, og hefir laxinn þann tíma getað gengið óhindraður upp ána. (JBald: Þetta sýnir, hvers virði það er að fella burt undanþáguna). Þetta sýnir, að þótt þessi undanþága standi, þá gerir forsjónin sjálf undanþágu frá henni, og hvað þessa á snertir margar undanþágur, sem greiða götu laxins.

Að því er snertir þær tvær dagskrár, sem fram hafa komið, þá vil jeg, að gefnu tilefni, taka það fram, að jeg hefi hvoruga pantað.