25.04.1924
Efri deild: 54. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1769 í B-deild Alþingistíðinda. (1201)

33. mál, friðun á laxi

Forsætisráðherra (JM):

Það er rjett, að jeg var í þeirri nefnd í fyrra, sem fjallaði um þetta mál og lagði þá til, að þessi undanþága yrði veitt. Vel má vera, að þá hafi verið fullfljótt að samþykkja lög um þetta efni, en eftir þeim gögnum, sem fyrir lágu, sýndist ekkert því til fyrrstöðu, svo að jeg gat þá verið með því að samþykkja lög þau, sem nú á að nema úr gildi, enda er jeg ekki enn alveg viss um, að ástæða sje til þess.

En það er ómögulegt fyrir Alþingi, þegar málið liggur svo fyrir, að svo að segja öll sýslunefndin — það mun einn sýslunefndarmaður hafa verið á móti — biður um að afnema undanþáguna, að daufheyrast við þeim óskum, enda þótt málið heyri í raun og veru ekki undir valdsvið sýslunefndar.

Mikill meiri hl. sýslubúa, svo að segja öll sýslunefndin og báðir þingmenn kjördæmisins óska breytingarinnar, og þá get jeg ekki betur sjeð en að rjett sje að gera hana. En ef til kæmi, að laxafriðunarlögin yrðu endurskoðuð í heild, þá er sjálfsagt að taka þetta atriði til sjerstakrar yfirvegunar.