26.03.1924
Neðri deild: 33. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í B-deild Alþingistíðinda. (130)

1. mál, fjárlög 1925

Jón Kjartansson:

Jeg veit ekki, hvort það hefir verið tilætlun hv. fjvn. að skifta með sjer störfum hjer í deildinni, þannig, að einn eigi að ræða þau mál, sem til umræðu eru, en annar að vekja pólitískar deilur, en eitt er víst, að það verður ekki til að stytta umræður. Háttv. þm. Str. hefir gefið tilefni til að lengja þær, en ekki mun jeg þó fara að elta ólar við hann. Jeg býst við, að hann hafi verið orðinn svo útblásinn, að óvart hafi gusast úr honum. Vona jeg, að langt verði komið umr., uns hann fyllist aftur og næsta gusa kemur.

Mun jeg nú snúa mjer að þeim till. fjvn., sem jeg vildi athuga. Jeg á að vísu enga brtt. hjer, en verð þó að gera nokkrar athugasemdir. Jeg vildi fyrst minnast á niðurfellingu á launum dr. Alexanders Jóhannessonar. Jeg er að vísu ekki á móti henni og er þar í samræmi við álit mentamálanefndar. En það er ein aths. í áliti háttv. fjvn., sem jeg get ekki gengið fram hjá. Þar stendur: „jafnvel þótt eitthvert gagn kunni að hafa leitt af kenslu hans.“ Þetta orðalag kann jeg ekki við, og finn ekki betur en að hjer sje hann kvaddur með vanþakklæti um leið og hann fer frá háskólanum. Jeg sje enga ástæðu til að vanþakka honum starf hans. Hann hefir, síðan hann kom að háskólanum, sífelt unnið að samningu vísindalegra málfræðirita. Má þar nefna „Frumnorræn málfræði“ og „íslensk tunga í fornöld“ sem nú er að koma síðara bindið af. Auk þess hefir hann ritað greinar í erlend tímarit, sem frægir málfræðingar hafa lokið lofsorði á. Jeg álít því, að betur ætti við að kveðja hann með þakklæti. Það er þó það minsta, sem þeir starfsmenn ríkisins, sem nú vegna fjárhagsörðugleika verða að fara, eiga kröfu til, að þeir fái ekki vanþakklæti fyrir starfa sinn. Jeg þori að fullyrða, að þingmenn gera það ekki með gleði að skerða óskabarn íslensku þjóðarinnar, sem háskóli vor er vissulega.

Þá vildi jeg drepa lítið eitt á kvennaskólann. Hann er nú einasti sjerskólinn hjer á landi fyrir kvenfólk og hefir starfað í rúm 50 ár, og frá honum hafa nemendur dreifst út um land alt. Það má ekki koma fyrir, að skólinn verði sviftur þeim styrk, er hann hefir notið, og mjer finst það bein móðgun við eina kvenfulltrúann á þingi, sem einmitt er forstöðukona þessa skóla, ef svo verður gert. Allir tala um skólann og stjórn hans með ánægju og lofa hvorttveggja mjög, og það mundi áreiðanlega verða illa þokkað úti um land, ef skólinn yrði annaðhvort takmarkaður mjög eða lagður niður, sem vel gæti orðið, þar sem það er gert að skilyrði til fjárveitingar samkvæmt till. fjvn., að bæjarsjóður Reykjavíkur leggi fram ákveðið fje. Þetta er eini skólinn, sem í senn veitir sjermentun og gagnfræðamentun, og tel jeg lítið samræmi í því að klípa af honum, en ekki t. d. af Eiðaskólanum, jafnvel þótt Eiðaskólinn sje ríkisskóli, enda mun hann ekki vera fullkominn gagnfræðaskóli. Sjerstaklega er jeg á móti því að binda fjárframlag til kvennaskólans við fjárframlag úr bæjarsjóði Reykjavíkur.

Þá vil jeg mæla með styrk til frjettastofu blaðamannafjelagsins, eins og nefndin gerir ráð fyrir. Nú sem stendur eru ýms mikilsverð atriði í undirbúningi, og er því áríðandi, að frjettastofan geti komist vel á fót, en með tímanum ætti sú stofnun að bera sig.

Þá vildi jeg mæla með styrknum til björgunarskipsins Þórs í Vestmannaeyjum. Nefndin hefir ekki sjeð sjer fært að mæla með allri þeirri upphæð, sem farið var fram á, en jeg vona, að allir háttv. deildarmenn viðurkenni gagnsemi þessa skips. Það er í senn björgunar- og strandvarnaskip. Vestmannaeyingar mundu fljótt sakna Þórs, ef þeir mistu hans. Mörgum mannslífum hefir hann bjargað. Eignir þeirra, sem eru margra miljóna króna virði, verndar hann.

Þá er eitt atriði, sem jeg vildi drepa á. Það er lánsheimildin, sem á hverju ári er hnýtt aftan í fjárlögin. (PO; Hjer er um enga lánsheimild að ræða). Nei, ekki frá hv. fjvn., en tillögur hafa þó komið fram í þá átt. Mjer hefir verið sagt, að þetta ylli miklum töfum í stjórnarráðinu við það, að menn eru að reyna að færa sjer þessa heimild í nyt. Og þar sem ekkert fje er til til þess að lána, get jeg ekki sjeð, til hvers þingið er að samþykkja þessar lánsheimildir.

Mjer þykir leiðinlegt, að hv. þm. Str. skuli ekki vera viðstaddur, en verð þó að fara nokkrum orðum um athugasemd hans um styrk þann til dýralæknis, sem um var rætt. Hann gaf í skyn, að ríkið þyrfti að hafa tryggingu fyrir framhaldsstarfsemi slíkra manna og benti um leið til Valtýs Stefánssonar, sem væri nú að hverfa frá starfi sínu, eftir að ríkið hefði styrkt hann til mentunar. Veit jeg það, að ríkinu er skaði í að missa slíkan mann úr þjónustu sinni sem Valtý Stefánsson, en jeg veit, að hann muni vinna að áhugamálum sínum sem áður, þótt hann takist annað starf á hendur. Og jeg efast ekki um, að hann verði þarfari í því sæti, er hann á að skipa, heldur en hv. þm. Str. hefir verið í sínu. Jeg veit, að menn munu vera mjer sammála um það, að ekki þurfi síður að vanda til þeirra manna, er fást við blaðamensku, en annara starfsmanna, enda þótt reynslan sýni, að stundum hafi orðið misfellur á því. Jeg tel einmitt brýna nauðsyn á því, að sem mest sje vandað til blaðamanna. Ríkinu er það áríðandi, að til þeirra starfa veljist vandaðir menn, góðir og rjettsýnir, bæði vegna starfs þeirra inn á við og út á við. Hygg jeg, að afskifti hv. þm. Str. af blaðamensku hafi varla verið til bóta, síst út á við, að minsta kosti hefi jeg alveg nýlega sjeð í erlendum blöðum ummæli um framkomu hans í einu stórmáli voru, sem jeg hygg, að lítið muni gagna oss.