08.04.1924
Neðri deild: 45. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1842 í B-deild Alþingistíðinda. (1320)

56. mál, atkvæðagreiðsla utan kjörstaðar við alþingiskosningar

Forseti (BSv):

Samkv. 20. gr. þingskapa skulu umræður við 1. umr. hljóða um málið alment. Við 2. umræðu skal ræða einstakar greinir og brtt. við þær, og loks við 3. umr. frv. sjálft alment ásamt brtt., er þá hafa fram komið. Nú er hinsvegar sú venja á komin, að ræða mál alment við 2. umr. eins og hún væri áframhald af 1. umr., og stafar þetta af því, að skjóta má máli til nefndar á hverju stigi sem er. Ef fast væri haldið við þingsköp, væru almennar umræður um mál við 2. umr. vitanlega ekki leyfilegar, en þá þyrfti að vísa málum til nefndar við 1. umræðu og halda þeirri umræðu svo áfram, þegar málið kæmi úr nefnd. Síðan kæmi málið til 2. umr., og þá væri auðgert að ræða aðeins einstakar greinir og breytingartillögur, svo sem þingsköp segja fyrir. En meðan þingsköp leyfa á hinn bóginn, að málum sje fyrst vísað til 2. umr. þá er fyrstu umr. er lokið, þá verður örðugt að beita fast þessum fyrirmælum við 2. umr.