26.03.1924
Neðri deild: 33. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í B-deild Alþingistíðinda. (135)

1. mál, fjárlög 1925

Björn Líndal:

Jeg sakna hjer vinar í stað, þar sem er háttv. þm. Str. (TrÞ), en hann er enn ekki kominn; hafði jeg sjerstaklega ætlað að beina orðum mínum til hans, en á meðan get jeg þá vikið nokkrum orðum að háttv. 1. þm. N.-M. (HStef). Hann virðist vera þeirrar skoðunar, að bændum sje meiri sómi að því að rækta jarðir sínar fyrir annara fje en sitt eigið, einkum ef þessa fjár er aflað úr sjónum, og öfunda jeg hann ekki af slíkri sómatilfinningu. Þessi háttv. þm. þykist vilja bæta hag ríkissjóðs, en legst þó mjög ákveðið á móti nýjum sköttum, og hefir ekki komið með nokkrar framkvæmanlegar till. til sparnaðar. Tillögur hans ganga miklu frekar í gagnstæða átt. En eins og þjóðarhagnum er nú komið, sje jeg ekki, hvernig gerlegt sje að auka tekjur ríkissjóðs að nokkrum verulegum mun. En einhversstaðar frá verða þó auknar tekjur að koma, ef sömu eyðslu er haldið áfram, hvað þá heldur ef enn er aukið við hana. Þessi hv. þm. vill hvorki sparnað nje auknar álögur, en hann virðist ætla að bæta hag ríkissjóðs með aukinni eyðslu, og öfunda jeg hann ekki af þeirri fjármálaspeki. Mjer fanst kenna nokkurrar sjálfhælni hjá háttv. þm., þar sem hann brá mjer um skilningsskort og þröngsýni í samanburði við sig. Jeg efast ekki um, að hann geti með rjettu hrósað sjer af mörgum góðum kostum. En hann ætti sjálfs sín vegna ekki að rýra álit sitt í augum góðra manna, með því að hrósa sjer af víðsýni og skilningi á þessu máli, því að alt, sem hann hefir uni það sagt, ber grátlegan vott um svo megna þröngsýni, að naumast verður lengra komist, þröngsýni þess manns, sem ekki sjer út fyrir hundaþúfuna í sínum eigin hlaðvarpa.

Eitt var það í ræðu hans, sem jeg vil sjerstaklega taka til athugunar. Hann tók sjer í munn þessi margtuggnu slagorð þeirra manna, sem áfjáðastir eru í það að sníkja fje úr ríkissjóði til þess að rækta sína eigin jörð. Það er þetta gamla viðkvæði, að jarðræktin miði að því að gera landið byggilegra fyrir niðja vora, og komi því miklu fremur þeim að notum en þeim, sem verkið vinnur. Því er með öðrum orðum haldið fram, að hjer sje verið að vinna fyrir aðra, en ekki sjálfan sig. Þetta er auðvitað að miklu leyti satt, sjeu peningar metnir miklu meira en alt annað í þessum heimi. En þetta veit hvert mannsbarn, og þarf því ekki að margendurtaka það. En þarna greip hann á kýli, sem því miður hefir verið alvarlegasta alþjóðarmein okkar Íslendinga. Þessi þjóð hefir því miður átt sorglega fáa sonu, sem hafa lagt fram krafta sína til þess að vinna landi sínu og þjóð gagn, án þess að ætlast til fullra launa fyrir. Þetta hefir háð okkur mjög og tafið fyrir öllum framförum. Æðsta skyldan er að gera eitthvað, sem aðrir hafi hag af, — leggja eitthvað í sölurnar fyrir aðra menn, og þá einkum sonu sína og dætur. Ef menn hefðu ávalt hugsað þannig, liti öðruvísi út hjá okkur nú. En þessum hugsunarhætti verður ekki breytt með fje. Jeg hefi ekki meiri trú á keyptri ættjarðarást en keyptri konuást. Menn eru að klifa á ættjarðarást, en vita ekki, hvað ættjarðarást er. Ættjörðin er löngum nefnd móðir okkar, en ást okkar til hennar er líkust ást óvitabarnsins til móður sinnar, sem heimtar alt og sýgur hana til blóðs, þegar því nægir ekki mjólkin. Að ætla að lækna þennan hugsunarhátt með fje, er sama sem að kaupa glingur handa óþekkum krakka, í stað þess að refsa honum. Þetta uppeldismeðal dugir ekki einstaklingnum og dugir því síður heilli þjóð. Þetta þykir máske ekki snerta málið, sem hjer er til umræðu, en það er þó ekki óþarflegt að benda á þetta. Háttv. þm. hafa gott af því að heyra það, að ættjarðarástin er ekki innifalin í því að heimta, heldur í því að gefa. Jeg bið háttv. þm. að taka vel eftir þessum orðum mínum. Veraldarsagan bendir ótvírætt til þess, að allar aðrar þjóðir hafi skilið ættjarðarástina á þennan veg, enda hafa synir þeirra flestra eða allra látið lífið tugum þúsunda saman, fyrir ættjörðu sína, en fáir eða jafnvel engir fyrir þessa þjóð.

Þá skal jeg nú snúa mjer að háttv. þm. Str. (TrÞ). Jeg þakka honum innilega þau lofsamlegu ummæli, sem hann viðhafði um mig. Mjer þótti sjerstaklega vænt um það, að hann, bændaforinginn og bændablaðsritstjórinn, skyldi sýna mjer þann virðingarvott að kalla mig nú í fyrsta sinn bónda. Það hefir hann aldrei gert fyr; „síldarspekúlant“ hefir oftast verið það nafnið, sem hann hefir valið mjer að þessu, og þótt það nafn sje að vísu gott, og betra en heimskuspekúlant, veit jeg, að hann hefir ekki valið mjer það í virðingarskyni. Bóndanafnið þykir mjer hið virðulegasta.

Jeg hefi varið ágóðanum af síldarútgerð minni og síldarverslun til umbóta á jörðum mínum, og gleður það mig sjerstaklega, ef þetta er að einhverju metið. En þetta er ekkert einsdæmi, því það hafa margir fleiri varið þeim peningum, sem þeir hafa aflað úr sjónum, á þennan hátt. Mjer er sagt, að á Mjóafirði sje höfuðból eitt, sem mjög hafi verið endurbætt á þennan hátt. Þá veit jeg og af nokkrum stórum útgerðarmönnum í Reykjavík, sem hafa gert hið sama.

En það er alveg ný bóla að fá þakklæti hv. þm. Str. fyrir þetta, þar eð hann hefir stundum minst þessara manna á annan hátt í blaði sínu, — blaði bændanna.

Háttv. þm. Str. hjelt því fram, að jeg hefði eigi getað gert umbætur í búskap mínum nema með því að sækja mjer fje til þess úr annari átt. Þetta sannar aðeins, að slíkar umbætur eru erfiðar, en rjettmætir eigi að sótt sje fjeð til þess í vasa annara. En hjer er ávalt seilst í annara vasa. Nú þykir það jafnvel sæma best að þiggja án þess að gefa, þiggja án þess að þakka, þiggja og vanþakka, og þeir, sem svo langt komast, þykjast jafnvel manna mestir. Þetta er aldarhátturinn, og á honum er verið að ala með endalausum kröfum til annara, án þess að krefjast nokkurs annars af sjálfum sjer en þess, að geta gleypt það, sem gefið er.

Jeg sje ekki ástæðu til þess að svara háttv. frsm. fjvn. (ÞórJ) sjerstaklega miklu. Orð hans voru kurteis og vægileg í minn garð, eins og vænta mátti úr þeirri átt. Mjer skildist sem hann þættist hafa orðið var hjá mjer einhvers óholls metnaðar. En jeg vil spyrja: Er það óhollur metnaður að vilja fremur vinna verk fyrir sitt eigið fje en annara? Jeg geri ekki ráð fyrir, að þess verði auðið að breyta hugsunarhætti manna í þessu efni á svipstundu. Til þess fer langur tími. Svo lengi er búið að kynda undir þessum potti smásálarskaparins og löðurmenskunnar á þessu landi.