25.04.1924
Efri deild: 54. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1920 í B-deild Alþingistíðinda. (1389)

61. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Jónas Jónsson:

Af því jeg er einn af þremur í allshn., vildi jeg gera grein fyrir mínu atkvæði eins og fjelagar mínir. Jeg held ekki, að hv. deild þurfi að verða hissa, þó þetta frv. sje komið fram. Málið er búið að veltast í bæjarstjórn í 6–7 ár, og það hefir svo mikið fylgi bak við sig, að aðeins einn eða tveir bæjarfulltrúar greiddu atkvæði á móti því við síðustu umr. þar. Í bæjarstjórn eru þrír flokkar, en voru þó samhuga um þetta mál. Vitanlega er einn flokkur til í bænum, sem er frv. mótfallinn, og þarf engan að undra. Það eru mennirnir, sem eiga dýrar lóðir, en borga lítið af. Ríkur maður mótmælir eignaskatti, og sá, sem hefir tekjur, vill ógjarnan láta hækka tekjuskattinn.

Borgarstjóri kom á nefndarfund í allshn. Mun hann vera forustumaður Íhaldsflokksins í bæjarstjórn. Lagði hann mikla áherslu á, að frv. næði fram að ganga vegna þess, að fjárhagur bæjarins væri í voða, ef hann fengi ekki þessar tekjur. Það er t. d. mjög óviðkunnanlegt — jeg veit, að menn utan af landi skilja það —, að menn flytji sig út á Seltjarnarnes eða inn að Skerjafirði í þeim tilgangi að komast undan útsvari í Reykjavík, en reki síðan atvinnu hjer eftir sem áður.

Jeg get vel trúað því, að maður, sem borgar 10 kr. útsvar í Rangárvallasýslu, en kemur hingað á togara, þurfi að borga hjer 60–70 kr. Honum er ekkert rangt gert með því, borið saman við það, að hann ætti heimili hjer. Reykjavík er nú orðin dýr bær í rekstri, og verður því að leggja á alla, sem búa hjer, þung gjöld. Þykist jeg vita, að hv. þm. hafi lesið brjefið frá borgarstjóra, þar sem hann skýrir frá, að ýmsir tekjustofnar bæjarins hafi horfið á síðustu árum. Og nú liggur fyrir að ljetta skatti af Eimskipafjelaginu, til að gera því hægra fyrir að standast samkepni við útlend fjelög.

Að ljetta verður af Eimskipafjelaginu nær öllum opinberum gjöldum, af því að það þolir ekki samkepnina við hin erlendu fjelög, er hjer sigla, og þá sjerstaklega Bergenska fjelagið, er gott dæmi upp á dýrtíðina hjer í Reykjavík. Aðalástæðan, sem liggur til grundvallar fyrir því, er sú, að alt kaupgjald hjer er hærra en í Noregi. Eimskipafjelagið verður að greiða fólki sínu, bæði því, er vinnur í skrifstofum og skipum, hærra kaup en norska fjelagið. Þessa geldur svo bærinn aftur. Hann verður líka að borga starfsfólki sínu hærra kaup, það kaup, sem er í hlutfalli við dýrtíðina. Það liggur því í hlutarins eðli, að bærinn verður einnig að fá tekjuauka í hlutfalli við dýrtíðina. Þessi lóðarskattur, 80 au. af hverjum 100 kr., getur alls ekki talist voðalegur, þegar þess er ennfremur gætt, að sumir aðrir kaupstaðir landsins hafa þegar fengið leyfi til að leggja skatt þennan á; þannig fjekk Seyðisfjörður í fyrra leyfi til að taka 2% af verði lóðanna, og Akureyri og Húsavík hafði fengið slíkt leyfi áður, og það til að taka hærri skatt.

Þegar nú litið er á það, að nær því öll bæjarstjórnin hefir óskað að fá skatt þennan, að undanteknum sárlitlum minni hluta, sem hagsmuna sinna vegna hefir ekki getað fylgst með meiri hlutanum, og annarsvegar á þörf bæjarins fyrir skattinn, getur tæplega verið álitamál að veita bæjarstjórninni leyfi til þess að leggja skattinn á. Að hefta framgang hans er því ekkert annað en sjúkt móthald gegn bæjarfjelaginu.