26.03.1924
Neðri deild: 33. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í B-deild Alþingistíðinda. (144)

1. mál, fjárlög 1925

Hákon Kristófersson:

Jeg skal reyna að vera stuttorður. Bæði till. mínar og ummæli í dag hafa valdið nokkrum andmælum, sjerstaklega frá hv. frsm. (ÞórJ). En ummæli hans þykja mjer mest verð. Þó jeg geti vart vegið manngildi hans á sömu vog og hæstv. fjrh. (JÞ), þá er mjer samt ljúft að játa, að jeg met hann mikils. Þótti mjer því leitt, að hann virtist færa hugsun mína dálítið úr lagi.

Hv. frsm. kvað fleiri en mig hvorki þekkja nje skilja framkvæmdir Búnaðarfjelagsins. Aldrei hefi jeg neitað því, að það hafi komið góðu til leiðar, en jeg benti aðeins á, að mjer virtist ekki ósanngjarnt, að dregið væri af fjárframlögum til þess eins og alls annars. Og mjer og fleirum virðist svo, sem gæta mætti dálítið meiri sparnaðar í því fjelagi en gert er. Því þrátt fyrir alla ráðunautana, orkar mikils tvímælis um ýmsar framkvæmdirnar, eins og t. d. þegar 1922 var varið 18 þús. kr. til ræktunar Víðisins í Mosfellssveit, og þar af 9 þús. kr., sem verða víst að teljast sjerstakur aukastyrkur og stjórnin hefir lagt fram án nokkurrar heimildar.

Þó jeg taki þetta fram, má það ekki skoðast sem andmæli gegn þessu fjelagi, eins og orð mín voru skilin í dag. Mjer hefir aldrei dottið í hug, að ráðunautarnir gerðu ekkert gagn, en hinsvegar hefi jeg litið svo á, að óhætt myndi að fækka þeim, og að jafnvel myndi einn komast yfir þau störf, sem tveir inna nú af hendi. Um Fiskifjelagið get jeg vitnað til fyrri orða minna. En það gladdi mig að heyra, að hæstv. fjrh. (JÞ) er á sömu villigötunum í því efni og háttv. frsm. (ÞórJ) kveður mig vera.

Hv. frsm. sagði, að það væri hart, að gerðar væru tilraunir til að draga úr framkvæmdum eins og Búnaðarfjelagsins. En jeg vil segja það, að það er hart að heyra það, að líkur sjeu til, að ræktun landsins falli niður, ef teknir væru af bændum þessir 10–20 aurar, sem þeir fá á dagsverkið. En sú virtist vera skoðun hv. frsm. og hv. sessunauts míns (JS). Hv. frsm. sagði, að mig brysti þekking á þessum málum. Kann svo að vera, en ekki hefir honum tekist að leiða mig í nýjan eða betri skilning með hinni skörulegu framsöguræðu sinni. Annars mun það jafnaðarlega talin ljeleg röksemdafærsla, að styðja ekki orð sín með verulegri rökum en þeim, að andstæðingarnir hafi ekki vit á málinu. Því vil jeg ekki halda fram gagnvart háttv. frsm. Annað mál er það, að um ummæli hans í þessu máli mætti ef til vill segja: Skýst þó skýrir sjeu. Jeg verð að halda því fram, að um leið og hv. Alþingi veitir styrk til einhvers, beri því skylda til að líta eftir, að styrk þeim sje varið sem best. Sagt er, að 10 menn geti lifað á því, sem einn sóar, og hitt mun og vera rjett, að einn maður getur afkastað því, sem 10 dunda við. Þekki jeg ekki þann verkshátt á Vesturlandi, en jeg hefi oft sjeð hann hjer á Suðurlandi.

Ef áhugi bænda á ræktun landsins er ekki meiri en það, að þeir þurfa að fá 10–20 aura á dagsverkið, þá er framþróunarstefnan minni en ýmsir gera sjer í hugarlund og hún er þar, sem jeg er best kunnugur.

Hart þykir mjer, að því sje slegið framan í mig, sem hefi þann heiður að tilheyra þessari ágætu stjett, að jeg vilji með tillögum mínum gera menn að nokkurskonar villimönnum hvað framkvæmdir snertir.

Jeg hefi aldrei neitað því um sumar af áveitum ráðunautanna, að þær gætu borgað sig á fám árum, en jeg þekki aðrar áveitur, sem framkvæmdar hafa verið af öðrum, eins og hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) benti á, og borið hafa, ef ekki þúsundfaldan, þá hundraðfaldan ávöxt.

Þá mintist hv. frsm. á þessa örlitlu brtt. mína viðvíkjandi þessum gamla, uppgefna, úrræðalausa kennara, og sagði, að jeg mæti hann ekki mikils, fyrst jeg vildi, að hann lyti að svo litlu. Jeg hefi í dag fært rök að till. og ætla ekki að endurtaka þau. En dálítið finst mjer það hart, að jafnmerkur maður og hv. frsm. er skuli nota þessi vopn á móti þessari sanngjörnu og hógværu till. Því eigi að fara að leggja þennan kennara á metaskálarnar þannig, þá má segja, að hv. frsm. metur ekki mikið virðingu okkar bændanna með styrknum til búnaðarfjelaganna, að við fáum 10–20 aura á dagsverkið. Það var ekki upphæðin, sem fyrir mjer vakti, heldur að hv. Alþingi með því að samþykkja till. sýndi samhug sinn með manninum og að það áliti slíkan starfsmann góðs maklegan.

Hv. 1. þm. N.-M. (HStef) sagði, að jeg færi ekki rjett með stjórnarkostnað Búnaðarfjelagsins. Má vera, að hvorugur okkar geri það. En eftir upplýsingum frá kunnugum manni, sem jeg hefi aflað mjer í hasti, sje jeg ekki betur en að 60–70 þús. kr. fari í eiginlegan stjórnarkostnað 1922. Og jeg verð að halda því fram, að þegar svo er komið, að hv. Alþingi sjer sjer ekki fært að tryggja öryggi, líf og heilsu landsmanna, þá megi ekki spyrja að því, þó kipt sje hendinni af ýmsum fjárveitingum til framkvæmda. Fjárhagurinn er ekki svo nú, að það dugi að taka á hlutunum með silkihönskum, enda virðist hv. fjvn. ekki gera það hvað snertir fjárveitingar til kjördæmis míns. Og á jeg þar við undirtektir hennar viðkomandi byggingu á læknisbústað og sjúkraskýli í Flatey.

Framorðið er orðið, og vil jeg ekki lengja umræðumar, en verði á mig ráðist, mun jeg minnast þess við 3. umr.