26.04.1924
Neðri deild: 56. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2060 í B-deild Alþingistíðinda. (1485)

29. mál, hæstiréttur

Sigurjón Jónsson:

Út af þeim umr. sem nú hefir verið stofnað til, þá vildi jeg aðeins spyrja hv. 3. þm. Reykv. (JakM), hvernig hann, sem góður flokksbróðir fyrverandi forsætisráðherra, hjelt uppi heiðri hæstarjettar, þegar rjetturinn í tíð þeirrar stjórnar var opinberlega svívirtur í einu málgagni hjer í Reykjavík. Jeg álít ekki rjett, að hv. 3. þm. Reykv. beri ábyrgð á vanrækslu fyrv. forsætisráðherra, flokksbróður síns, en með því væri sanngjarnara að brýna hann en að hann nú er að brýna okkur Íhaldsmenn yfirleitt með þessu máli. Hjer er alls ekki um það að ræða að svívirða að nokkru leyti rjettinn, og er því ólíku saman að jafna, en þá var líka ólíkt meiri ástæða til þess að láta til sín taka. (JakM: Háttv. þm fylgist auðsjáanlega ekki sem best með því, sem á þingi gerist, er hann veit ekki, að jeg var alls ekki neinn stuðningsmaður fyrverandi stjórnar).