26.03.1924
Neðri deild: 33. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í B-deild Alþingistíðinda. (150)

1. mál, fjárlög 1925

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg vil byrja á því að þakka hv. þm. Str. (TrÞ) og hv. 2. þm. Reykv. (JBald) fyrir það, hvað þeir bera mig fyrir brjóstinu og vilja báðir verja mig fyrir árásum hæstv. fjrh. Auðvitað hefi jeg ekki fundið til þessara árása hæstv. fjrh. á mig, en jeg gleðst nú samt yfir þessari hugulsemi, og jeg verð að segja það, ekki síst hvað snertir hv. þm. Str., að það er meira en jeg gat vænst og hefi átt að venjast úr þeirri átt. Annars hefir hæstv. fjrh. svarað því, sem svara þarf, og lýst því yfir, að hann hafi engum hnútum til mín kastað. Umhyggja þessara þingmanna fyrir mjer er því í þetta skifti óþörf. Jeg skal ekki neita því, að hæstv. fjrh. var allharðorður í garð búnaðarmálastjóra og get jeg ekki gert þau orð að mínum orðum. Jeg man það vel, að þegar jeg og búnaðarmálastjóri vorum að undirbúa saman jarðræktarlögin, þá vissi hann vel og lagði áherslu á, að ræsa þyrfti fram mýrar áður en þær yrðu gerðar að túni. Annars hefir Búnaðarfjelagið verið dregið fullmikið inn í umræðurnar. Jeg veit ekki til þess, að fjelagið skuldi neitt nú sem stendur, en það á aftur talsverðar eignir. Því er áreiðanlega vel borgið, ef þeirri stefnu verður haldið, sem nú er upp tekin, og jeg vona, að það geri og hafi gert mikið gagn.

Háttv. þm. Barð. (HK) vildi láta fella styrkinn til búnaðarfjelaganna. Jeg held, að till. fjvn. sje rjettari. Í jarðræktarlögunum er ekki gert ráð fyrir styrk nema til sumra jarðabóta, og því ekki rjett að fella þennan styrk til búnaðarfjelaganna fyrri en löggjöf hefir verið sett um þær jarðabætur, sem jarðræktarlögin ná ekki til, enda er ætlast til, að það verði gert bráðlega.

Þá hefir það hneykslað ýmsa hv. þdm., að nefndin hefir lagt til, að hækkuð yrði fjárveiting til ljóss og hita við ýmsa skóla og stofnanir. Þessi kostnaður hefir jafnan verið of lágt áætlaður, nema árið 1922, af því að þegar fjárlögin fyrir það ár voru samin, var verðlag hátt á þessum vörum, en lækkaði síðan. En það er alveg ástæðulaust að óttast það, að meiru verði eytt, þó hækkuð sje fjárveitingin. Landsreikningurinn 1922 sýnir, að það ár var minna notað en áætlað var og fje veitt til. Nú er útlit fyrir, að þessar vörur hækki, en lækki ekki. Annars gildir alveg einu, hver áætlun samþykt er. Að því leyti stendur mjer á sama um brtt. háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Jeg held bara, að hún stafi af ókunnugleika hans og misskilningi. En það, sem máli skiftir, er það, að áætlanirnar sjeu ekki svo lágar, að þær svíki.

Þá vil jeg geta þess, að mjer virðist rjett að hækka styrk Þórðar Flóventssonar úr því, sem áætlað er í frv. stjórnarinnar. Það er kunnugt, að hann hefir unnið að þessu starfi sínu með hinum mesta áhuga og góðum árangri. Hann hefir blásið lífsanda í margar miljónir hrogna. Hjer er aukin framleiðsla, sem mikið gagn gæti af orðið. Og jeg hygg einmitt, að þessi maður hafi hjer unnið alveg eins gott verk eða betra en annar maður, sem veittur er hærri styrkur í sama skyni.