16.04.1924
Neðri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2236 í B-deild Alþingistíðinda. (1640)

109. mál, skattgreiðslu hf Eimskipafélags Íslands

Björn Líndal:

Það, sem hv. 2. þm. Reykv. (JBald) sagði í minn garð, voru mest dylgjur, sem ekki er hægt að svara og enda ekki svaraverðar.

Að öðru leyti fór hann með vísvitandi rangfærslur. Jeg hefi aldrei sagt, að jeg vildi gera Eimskipafjelagið að mjólkurkú Akureyrar, en hitt hefi jeg sagt, að ef á að gera það að mjólkurkú fyrir Reykjavík, þá eigi mitt kjördæmi rjettmæta kröfu til hluta af mjólkinni. — Annars nenni jeg ekki að eyða fleiri orðum við hann. En eins og það er víst, að þjóðin lifir ekki af einu saman brauði, jafnvel þótt það sje úr hans brauðgerðarhúsi, þá tel jeg hitt ekki síður víst, að þessari þjóð mundi ekki verða langra lífdaga auðið, ef hún ætti stjórnarfarslega að lifa á því pólitíska brauði, sem þessi hv. þm. hefir að bjóða.