01.04.1924
Neðri deild: 39. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í B-deild Alþingistíðinda. (172)

1. mál, fjárlög 1925

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg á nokkrar brtt. á þskj. 261, ýmist einn eða með öðrum, og ætla jeg að fara nokkrum orðum um þær, en skal leitast við að vera stuttorður.

1. brtt. er um innlendar sóttvarnir, og gerum við flm.till. okkar, að þessi fjárhæð verði lækkuð úr 15 þús. kr. niður í 8 þús. Þessi sóttvarnarfjáreyðsla hófst hjer eftir að spanska veikin gekk yfir landið, og hefir ávalt síðan verið talsvert miklu fje varið á hverju ári í þessu skyni, og er enginn efi á, að sumt af því hefði betur verið sparað. Þó sóttvarnir hafi verið vanræktar á tímum spönsku veikinnar, verður síst úr því bætt á þann veg að halda eyðslunni áfram. Það er að byrgja brunninn eftir að barnið er dottið ofan í. Till. fer því fram á það, að stjórnin haldi fremur í fje við heilbrigðisstjórnina og láti hana ekki eyða meira en skynsamlegar ástæður liggja til.

Sömuleiðis hefi jeg ásamt hv. 2. þm. Eyf. borið fram till. um að lækka fjárveitinguna til fjárkláðalækninga niður í 2500 kr., og hefir hann talað svo rækilega fyrir því máli, að jeg sje ekki ástæðu til að bæta miklu við það. Jeg hygg, að það þurfi ekki frekari árjettingar við, og hlýtur að liggja í augum uppi, að þar eð ekki fóru nema 300 kr. til þessa á síðastliðnu ári, ættu 2500 kr. að duga á næsta ári. Viðvíkjandi kláðalækningum er ekki nema um tvent að velja — að reyna að halda kláðanum í skefjum með lækningum þar, sem hans verður vart, eða að taka til róttækra ráðstafana um land alt og eyða honum alveg. Mundu þá hvorki 2500, 25000 eða jafnvel 250000 kr. hrökkva til. Við álitum því óþarft að áætla þennan styrk of ríflegan, og þó þessi kostnaður kunni máske eitthvað að fara fram úr þessum 2500 kr. næsta ár, hygg jeg, að þessi áætlun okkar sje rjettari en hv. fjvn.

Um brtt. um að veita 25 þús. kr. lán til tóvinnuvjela ætla jeg ekki að tala frekar en jeg hefi þegar gert við 2. umr. fjárlagafrv. Jeg ætla aðeins að benda hv. fjvn. á það, að þetta er engu síður nauðsynlegt en að veita 40 þús. kr. til vatnsleiðslu á Húsavík. Ætti það engu minna að vera vert að ljetta undir með því, að innlendur iðnaður geti komist á fót, sem þó er af allflestum talið vera eitt af skilyrðunum fyrir aukinni velmegun þjóðarinnar. Jeg mun svo ekki tala frekar fyrir þessu, en ef háttv. deild hefir ánægju af því að drepa þessa till. öðru sinni, er henni hjer með gefið tækifæri til þess.

Þá kem jeg að þeirri brtt. minni, um að hækka tillag til samvinnuskólans úr 3 þús. kr. upp í 5 þús. kr. Það hefir komið fram samskonar till. um iðnskólann. Legg jeg þessa skóla að jöfnu. Þrátt fyrir það, að báðir þessir skólar eiga að heita sjerskólar, eru þeir aðallega almennir unglingaskólar,

Brtt. mín og hv. 2. þm. Reykv. (JBald) um 2000 kr. til málverkakaupa má að vissu leyti skoða sem styrk til ísl. listamanna. Það verður ekki um það deilt, að besti styrkurinn, sem þeim verður veittur, er sá, að málverk þeirra sjeu keypt. Má og að ýmsu leyti telja málverk meðal verklegra framkvæmda, þar sem sumir eru nú svo sinnaðir, að þeir vilja engu fylgja, nema því verði gefið þetta nafn, og ætti það því ekki að vera frágangssök fyrir þá að samþykkja þetta. Íslensk list er ennþá ung og hefir ekki verið sýndur sá sómi, sem skyldi. Vjer eigum hjer málverkasafn, sem er eign þjóðarinnar, og þó að listamennina muni þetta ekki miklu, kemur það þó safninu að meiri notum. Á þennan hátt yrði safninu kleift að eignast óslitið safn íslenskra málverka frá upphafi, og má sá þráður ekki slitna, til þess að það geti orðið fullkomið sýnishorn íslenskrar listar. Safnið ætti að fá að njóta þess, að við þingmenn þjóðarinnar dveljum hjer í húsum þess og njótum ánægjunnar af listafjársjóðum safnsins. Það væri ekki fagur vottur um smekkvísi þm., sem hjer dvelja daglega í þessum sölum, skreyttum listaverkum þessa safns, ef þeir vildu ekki veita þessa litlu upphæð, sem þó hefir verið lækkuð um helming frá því, sem fyrst var áætlað í frv. stjórnarinnar. Þó að hv. fjvn. vildi ekki veita þessar 2000 kr. til málverkakaupa, hefir það þó orðið ofan á í hugum nefndarinnar að veita 25 þús. kr. til fjárkláðalækninga, þótt sannanlegt sje, að þetta fje kemur að engum notum í þessu skyni. Handa kláðanum var nóg fje til í sjóði nefndarinnar, en þegar beðið er um 2000 kr. til málverkakaupa, fæst ekki grænn eyrir. Þetta minnir mig á söguna um karlinn, sem átti tvær ponturnar; var önnur pontan ávalt tóm, og bauð hann kunningjum sínum jafnan í nefið úr henni. Hina pontuna hafði hann fyrir sjálfan sig og vildustu vini sína, því hann skorti ekki tóbak. Í þessu sambandi mætti geta þess, er aðrar þjóðir gera fyrir sína list og listamenn. Þannig veit jeg til þess, að Svíar hafa nýlega varið 1½ milj. kr. til málverkakaupa handa listaverkasöfnum sínum, og hafa með því styrkt margan listamanninn, sem báglega var staddur. Þessi upphæð, 2000 kr., munar ríkissjóð ekki miklu, en hún sýnir þó góðan vilja háttv. þm., ef samþykt verður, og getur auk þess komið einhverjum fátækum listamönnum vel.

Þá á jeg næst tvær brtt., sem báðar miða í sparnaðaráttina og auk þess til betri úrlausnar þeim málum, er þar ræðir um. Fyrri till. fer fram á að lækka kostnaðinn við Þjóðskjalasafnið úr 13 þús. kr. niður í 6750 kr., en hin er um lækkun á styrk Hannesar Þorsteinssonar niður í 1000 kr. Á bak við báðar þessar till. liggur hin sama hugsun, að fella niður aðstoðarmannsembættið við Þjóðskjalasafnið, en skipa núverandi aðstoðarmann í forstöðumannsembættið, sem nú er óskipað í. Frv. um sameiningu Þjóðskjalasafnsins við Landsbókasafnið liggur ennþá í nefnd, og hefir það mætt allmikilli mótspyrnu lærðra manna, bæði utan þings og innan. Liggur því beinast við að samþykkja nú þetta í fjárlögunum, þegar auðsætt er, að af þessu verður jafnmikill sparnaður og af sameiningu safnanna. Enda er og sjálfsagt að taka nokkurt tillit til þessarar mótstöðu, sem sameining safnanna hefir mætt, ekki síst þegar auðvelt er að ná sama sparnaði við þessi söfn án þess að til sameiningarinnar komi. Þetta ætti að vera því auðveldara, sem það hefir komið til mála að gera forstöðumenn safnanna að aukakennurum í íslenskum fræðum við háskólann, og kæmi þessi sparnaður allur að betri notum, ef aðstoðarmannsembættið við Þjóðskjalasafnið væri lagt niður.

46. brtt. á þskj. 261 berum við tveir fram, háttv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) og jeg. Lýsi jeg þakklæti mínu til hans fyrir þau orð, sem hann ljet um mælt með þessari till. okkar. Þessi styrkur til ekkju Jóhanns Sigurjónssonar var feldur hjer við síðustu umræðu, og má þá vel vera, að það hafi haft áhrif á hv. þm., að þeim hafi þótt upphæðin of há, en nú hefir styrkurinn verið lækkaður úr 1800 kr. niður í 1000 kr., svo það ætti engan að fæla lengur. Og ef það hafa engar aðrar ástæður ráðið því, að styrkurinn var feldur um daginn, bið jeg háttv. þm. nú að muna það, að það var þessi kona, sem ljet Jóhanni í tje allar eigur sínar og vakti hug hans og örvaði hann til ritstarfa. Íslendingar eru fljótir að gleyma, ef þeir muna nú ekki, en svifta ekkjuna þessum litla styrk. Konan er nú í bágindum stödd, og er það ilt frásagna, ef Alþingi lætur þvaðursögur erlendra blaðasnápa hafa áhrif á gerðir sínar. Það ætti að hvetja menn, en ekki að letja, að vita, að konan er í kröggum. Þó eitthvað hafi verið satt í þessum áburði erlendra blaða á þessa konu, kom það ekki styrk hennar við. Jeg vil og benda á það, að það er Alþingi, sem hjer er að úthluta styrk, en ekki einhver óvalin sóknarnefnd að verðlauna óspiltar piparmeyjar. Þetta er ekki stórt mál frá fjárhagslegu sjónarmiði, en undir slíkum smáatriðum sem þessum getur heiður Alþingis og þjóðarinnar verið kominn. Jeg ætla svo ekki að vanvirða háttv. þingdeild með því að brýna hana lengur á þessu, enda veit jeg, að hv. þdm. hafa bæði skilning og góðvild til að samþykkja till. okkar háttv. 2. þm. N.-M.

Um tillögu háttv. fjvn. undir rómv. XXVIII,1, um lækkun á styrk til Þórbergs Þórðarsonar, verð jeg að segja, að jeg er hissa á því, hvernig nefndin leggur þennan þarfa og merkilega mann í einelti. Háttv. þingdeild hafði þegar kveðið upp sinn dóm yfir honum, og er því miður sæmilegt af nefndinni að ætlast til, að þingdeildin taki aftur það, sem nýbúið er að samþykkja. Hefði hv. fjvn. aftur á móti viljað lækka þetta á móts við hlutfallslegar lækkanir á öðrum greiðslum, hefði hún átt að færa þessa upphæð niður í 1200 kr., en 500 kr. ná engri átt. Þessi till. hv. fjvn. ætti því ekki að eiga hingað erindi, enda mun hv. deild halda við þann skilning á starfi þessa manns, sem hún lýsti með samþykt sinni við 2. umr.

Jeg get tekið undir orð háttv. 2. þm. Reykv. (JBald), sem hann mælti út af till. hæstv. fjrh. (JÞ) um landhelgissjóðinn, að það er hart að skerða hann um meira en það, sem vöxtunum nemur. Sjútvn. hefir að vísu gefið í skyn, að rjett væri að taka eitthvað af vöxtum sjóðsins til þess að bæta við tillag ríkissjóðs til landhelgisvarna. Ríkissjóði hafði verið talið fært að leggja 100 þús. kr. til þessa, og jeg veit, að sjútvn. leggur fast á móti því að skerða landhelgissjóðinn til annars en að auka á þessar 100 þús. kr. frá ríkinu.

Það hafa komið fram ýmsar sparnaðartillögur í þá átt að draga úr kostnaðinum við þinghaldið, og hafa sumar þeirra þegar verið feldar, t. d. um að halda þing aðeins annarhvert ár, fella niður prentun á umræðuparti Alþt., lækkun á þingfararkaupi og ýmsar fleiri. Frv. um að fella niður prentun Alþt. hefir nýlega verið felt, og stjórnarskrárbreytingunni, sem þjóðin þó hafði óskað eftir og kosningarnar síðustu snerust að nokkru leyti um, hefir einnig verið stútað í háttv. Ed. af Íhaldsflokknum. Því kemur þessi tillaga hæstv. fjrh., um að þingforsetar skuli hafa vald til að fella niður prentun á Alþingistíðindunum, sparnaðar vegna, undarlega fyrir. Nú hefir því verið lýst yfir, að altaf verði þó að vjelrita um 4 eint. af umræðunum, og auk þess yrðu öll nál. umfangsmeiri, ef prentuninni yrði hætt, og verður þá sparnaðurinn af þessu harla lítill, varla meiri en 6–8 þús. kr. á ári. Það væri því að gleypa úlfaldann, en sía mýfluguna að vera að burðast með þennan hjegómasparnað, þegar búið er að fella fækkun þinga. Hefði hitt aftur á móti orðið úr, að samþykkja frv. beggja flokka í Ed. um að halda þing ekki nema annaðhvert ár, þá hefði af því leitt, að sparast hefðu tvö heil þing, þingin 1926 og 1928. Þarna hefði því mátt spara um 400 þús. kr., miðað við núverandi kostnað við alþingishald. Það er ekki mitt að dæma um það, hvort þessi till. hæstv. fjrh. er formleg eða ekki, en hvað sem því líður, mun það vera á valdi hæstv. forseta Ed., hvort frv. það til stjórnarskrárbreytingar, sem ennþá situr þar í nefnd, kemur nokkurn tíma undir atkv. á þessu þingi. Eru það lítil heilindi, ef vilji tveggja stórra þingflokka í Ed. nær ekki að ganga fram. Kæmi mjer ekki undarlega fyrir, þótt kjósendum úti um land brygði í brún, er þeir frjetta, hvernig vilji þeirra er virtur í þinginu, ef þeir eru sviftir Þingtíðindunum í stað fækkunar þinga, er allir hafa gert ráð fyrir að væri framkvæmd á þessu þingi.