03.03.1924
Neðri deild: 13. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í C-deild Alþingistíðinda. (1793)

9. mál, hjúalög

Magnús Torfason:

Jeg vil geta þess, að í mínu kjördæmi hefir einmitt verið lögð áhersla á það, að hjúalögunum yrði breytt. Sjerstaklega er það eindregin ósk bænda, að þeim yrði breytt þannig, að settir yrðu 2 hjúaskildagar, í staðinn fyrir einn. Er það mjög eðlilegt eins og nú er komið atvinnuháttum og vistum. Sum hjú hafa mikla atvinnu í sveit á sumrum, en í kaupstöðum á vetrum, og hafa margir bændur litið svo á, að hjúum til sveita mundi fjölga, ef hjúaskildagar væru tveir, eins og virðist eðlilegt. Gætu hjú þá ráðið sig á sumrum í sveitum, en í kaupstöðum á vetrum. Auk þess er enginn vafi á því, að vistarákvæðum hjúalaganna yrði betur hlýtt ef skildagar væru tveir. Lögreglustjórar og hreppstjórar kinoka sjer eðlilega við því að framfylgja þessum ákvæðum eins og þau nú eru í hjúatilskipuninni.

Jeg skal líka geta þess, að jeg hygg að það sje litið talsvert öðruvísi á þetta mál í sveitum en kaupstöðum. Það er ekki að marka, þó það hafi ekki komið mjög alment í ljós. Það er eins og gengur og gerist um mál eins og þetta, ef það er ekki borið sjerstaklega undir sýslu- eða hreppsnefndir, þá getur varla myndast hugur fyrir því í fásinninu í sveitunum; til þess er það of smátt. En annars kann jeg ekki við það að mál eins og þetta, sem komið er fram eftir tillögu frá þinginu, sje hreint og beint drepið. Jeg hefði heldur kosið, að frv. væri eitthvað breytt og látið ganga í gegn. En þar sem mjer virðist að það muni ekki verða, þá finst mjer þó sæmilegra, að málinu sje vísað til stjórnarinnar, og leyfi jeg mjer því að afhenda forseta svohljóðandi rökstudda dagskrá:

Í trausti þess, að stjórnin leiti umsagnar bæjarstjórna og sýslunefnda um frumvarp það til hjúalaga, sem nú er til umræðu, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.

Jeg vil taka það skýrt fram, að að mínu áliti mundi málið græða mikið á því, ef þessi leið yrði farin. Frv. stjórnarinnar mætti þá senda til sýslunefndanna, og sýslumenn gætu leitað aðstoðar og álits manna í sveitunum um einstök atriði frv. En það er áreiðanlega ekki nægilega undirbúið.