08.03.1924
Efri deild: 14. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í C-deild Alþingistíðinda. (1890)

65. mál, Alþingistíðindi, niðurfelling umræðuparts

Flm. (Jón Magnússon):

Jeg geri ráð fyrir, að hv. 5. landsk. þm. (JJ) geti lítið dæmt um minni mitt eða minnisleysi, en það ætla jeg að standa við, að það, sem fram kom í baráttunni milli Sjálfstæðis- og Heimastjórnarmanna, hafi verið ólíkt drengilegra en sú gerist af hálfu Tímans.

Háttv. þm. (JJ) er, eins og vanalega, altaf að bendla mig við ýms blöð, en hann veit ósköp vel, að jeg var ekkert riðinn við Lögrjettu á þeim tíma, sem hann nefndi. Því eins og jeg hefi áður sagt, þá slepti jeg öllum afskiftum af blaðamensku, er jeg varð bæjarfógeti í Reykjavík, áleit rjett að bendla mig ekkert við þau þá. Jeg veit svo sem, að háttv. þm. trúir ekki þessu; þeir, sem eru ósannsöglir sjálfir, halda altaf, að aðrir segi ósatt. En ekkert átti jeg í Lögrjettu frá 1. jan. 1909. Jeg man ekki, hvort hv. þm. „citeraði“ rjett það, sem hann hafði eftir ritsjóra Lögrjettu um Björn Jónsson. En þann vitnisburð hygg jeg að sá ritstjóri (Þ. G.) fái hjá þjóðinni, að hann komi ekki ósæmilega fram í blaðamálum. Getur varla óhlutdrægari ritstjóra, enda hefir sumum fundist hann jafnvel of sanngjarn við mótstöðumennina. Enda hygg jeg, að hann standi jafnrjettur fyrir svigurmælum hv. þm. (JJ).

Jeg sagði, að skrif hv. þm. (JJ) um Einar Arnórsson hefðu verið ógeðsleg. Minnist jeg þess ekki, að leitað hafi verið að skemdarsögum um þm. frá æsku- eða stúdentsárum þeirra, fyr en í þeirri sögu.

Annars var það, sem hv. þm. (JJ) sagði, svo ómerkilegt, að jeg get varla svarað því orði til orðs. En vel get jeg talað um Björn heitinn Jónsson og get vel dæmt um hann, því jeg átti daglega samvinnu við hann allan þann tíma, sem stjórnmálabaráttan stóð sem hæst. Var hann ekki altaf sanngjarn við mótstöðumenn sína og skýrði oft rangt frá málum þeirra, en það er jeg viss um, að hann sagði aldrei annað en það, sem hann trúði sjálfur. Er það meira en hægt er að segja um hv. þm. (JJ).

Ekki er það rjett, að jeg hafi stolið hæstarjettarfrv. frá hv. þm. (JJ), heldur kom það fram hjá sparnaðarmönnum 1922, þó með öðru móti, því að þá var hæstarjetti blandað saman við lagadeildina. Það hefi jeg forðast.

Háttv. þm. var enn að stagast á Austanfara og að jeg hafi lagt í hann, sem jeg hefi hvað eftir annað borið á móti.

En háttv. þm. trúir því ekki, að neinn geti verið svo heiðarlegur, að hann segi altaf satt, hann skilur ekki í því, að nokkur vilji ekki vinna til að segja ósatt jafnvel í smámáli. Er það skapgalli hv. þm. En hann veit, að jeg átti ekkert í blaðinu og var ekki vitundarögn við það riðinn. Enda gat jeg það ómögulega, því ritstjóri þess blaðs hafði áður farið þeim orðum um mig, að jeg hefði hlotið að skoða það skerðing á virðingu minni, ef jeg hefði nokkuð við hann átt.

Að Heimastjórnarmenn hafi ekki altaf talað vel um Björn Jónsson er að vísu rjett; hrukku auðvitað ýms orð á báða vegu, og kipti enginn sjer upp við. Það snertir mig ekki heldur, hvað háttv. þm. segir um mig — jeg sakna þess meira að segja, þegar jeg er ekki skammaður í Tímanum. En að það hafi verið Heimastjórnarmönnum að kenna, að Björn Jónsson misti heilsuna, hefi jeg aldrei heyrt fyr. En það skapast nú svo margt í heila háttv. þm., sem engum hefir dottið í hug. Auðvitað bilaði heilsa Björns Jónssonar af því, að hann hafði unnið svo ákaft og ákaflega — það er það einfalda í því efni. Um ofsóknir ætla jeg ekki að tala, hygg jeg að þær hafi verið svipaðar á báða bóga og flestum fundist sem Björn Jónsson hafi getað svarað fyrir sig.

Hv. þm. (JJ) var enn að tala um þessa 600 000 kr. eyðslu. Jeg hirði ekki um að taka upp það, sem jeg hefi um hana sagt. Háttv. þm. má tyggja upp ósannindin, en þau verða ekkert sannari fyrir það, en hann trúir nú svo mikið á endurtekningarnar. Fylgir þeim að vísu stundum kraftur, en oft geta þær slegið sinn eigin herra.

Háttv. þm. sagði, að jeg hefði mælt, að það gerði ekkert til, hverjir kæmu eyðslunni á og ástandinu. Það gerir til, þegar verið er að leggja dóm á það, sem skeð hefir, en ekki, þegar verið er að ræða um, hvernig eigi að ráða bót á því vandræði, sem er. Jeg veit ekki, hvort háttv. þm. skilur það — allir aðrir gera það. En skynsemi háttv. þm. er svo götótt, hann er svo óskýr á mörgum sviðum, að hann kann ekki að greina á milli hlutanna. En það er þó fyrsti prófsteinn á mentun manns að kunna að greina sundur óskild efni. En það heyrist í öllum ræðum hv. þm. (JJ), að hann er ekki fær um það. Er það ilt um kennara, en jeg heyri svo sagt, að þeir hæfileikar slitni ekki mikið, því þeir sjeu lítið notaðir. (JJ: Meira en grískudósentsins.) Rjett svo.

Hv. þm. (JJ) var að veifa 600 000 kr. eyðslunni, en jeg gæti mint hann á 800 000kr. eða 600 000, sem hann í fyrra vildi kasta til aukagjalda á hverju ári. Nei, það þýðir ekki fyrir háttv. þm. að tala svona meðal hv. þm. Þeir meta allir orð hans að verðleikum, og er jeg fullviss um, að flokksmenn hans kunna ekki síður en aðrir að virða þetta hjal.

Svo var hv. þm. (JJ) að tala um enska lánið. Jeg fer ekki mikið út í það mál, býst við að hæstv. forseti fari nú að þreytast á, að hv. þm. (JJ) dragi inn í hverja umræðu fjarskyld efni, fari úr einu í annað og um alla heima og geima. En ekki var enska lánið verra en það, að bankarnir tóku við því og notfærðu sjer. Og sjálf hæstv. stjórn hv. þm. (JJ) tók meira lán en fv. fjármálaráðherra hafði ætlast til.

Og ekki hefir enska lánið veikt meira lánstraust vort en það, að greiðlega mátti fá þar meira fje og á fleiri stöðum í vetur en á þurfti að halda. Ef eitthvað væri satt í því, sem háttv. þm. segir um sparnað minn, ætti hann nú að gleðjast yfir, að jeg er farinn að sjá að mjer. En alt tal hans um eyðslu mína er ósatt. Jeg hefi aldrei sem ráðherra eða stjórnmálamaður verið ósparsamur. Er ekki tími til að fara út í það mál hjer, en kemur ef til vill síðar.

Svo kemur hv. þm. (JJ) enn með það, að jeg hafi ráðið bankastjóra fyrir 40 000 kr. Háttv. þm. veit, að jeg rjeð hann aðeins fyrir 20000 kr. fast, og er ánægjulegt að heyra, að í þessu efni bætir hann aðeins helming við. (JJ: En dýrtíðaruppbótin?) Það er undir bankaráðinu komið, hvert ár, hvort bankastjórinn fær meira en 20 000 kr. Þetta veit háttv. þm. Annars ætti hann ekki að tala um há laun, hann hefir sjálfur greitt atkvæði með, að laun þriggja bankastjóra væru hækkuð meir en nauðsynlegt var. Skal jeg ekki metast við hann um sparnað, en trúi ekki öðru en er til lengdar lætur muni jeg verða talinn meiri sparnaðarmaður en háttv. þm. (JJ).

Það er óskaplega leiðinlegt að þurfa að taka í svona ræður í hv. deild. En í þetta skifti hefi jeg þóst til neyddur að svara háttv. þm. móti vilja mínum. En lofa mun jeg því að reyna að láta vera að svara, þó að hv. þm. (JJ) fari aftur svona út fyrir málið. Er það ósæmilegt fyrir þessa hv. deild að standa í svona erjum, og hefir ekki komið fyrir, áður en hv. þm. (JJ) kom hingað.