02.04.1924
Neðri deild: 40. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í B-deild Alþingistíðinda. (192)

1. mál, fjárlög 1925

Jakob Möller:

Mjer dettur í hug alkunn saga um kennara einn, sem var við lærða skólann fyrir löngu. Þegar hann hafði eytt mestum hluta kenslustundarinnar í gamanræður, hrökk karl við, þegar svo sem fjórðungur stundar var eftir, og sagði: „Vill nú ekki einhver tafsa?“ Og svo var tafsað það sem eftir var af tímanum. Jeg heyri, að það er vilji ýmsra deildarmanna, að þeir tafsi, sem eiga eftir að taka til máls.

Háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) sagði um brtt. við talsímann, að þess væri engin þörf að hækka laun talsímakvenna, af þeirri ástæðu, að eftirsóknin væri þar nægileg. Fyrir mjer hefir það ekkert að segja í þessu sambandi. Það, sem jeg lít á, eru kjör þessara starfsmanna, að þau eru með öllu óviðunandi. Það má vera, að hægt sje að fá einhverjar stúlkur fyrir þessi sultarlaun, stúlkur, sem búa hjá aðstandendum sínum og hugsa sjer bara að hafa þau í vasapeninga. En það væri mjög ranglátt að láta hinar gjalda þess, sem verða að fæða sig og klæða af þessu fje. Hv. frsm. (ÞórJ) sagði, að nefndin hefði ekki viljað hrófla neitt við launalögunum fyr en tími gæfist til að endurskoða þau í heild; að öðru leyti kveður hann nefndina vera hlynta launabótinni og telja hana rjettmæta. Úr því að nefndin lítur svo á, þá tel jeg hitt ekki nein i ástæðu til frestunar. Háttv. fjvn. hefir farið það aftur síðan í fyrra, að nú vill hún öll draga málið á langinn, en í fyrra var hún þó ekki óskift í því.

Mjer þótti vænt um að heyra, hve vel háttv. frsm. tók í brtt. mína viðvíkjandi iðnskólanum. Það er viðurkent, að sá skóli hefir hið mesta þarfaverk að vinna, enda er lagt mjög ríflega til hans af iðnrekendum hjer í bænum. Skólann sækja um 100 nemendur og er 70 kr. skólagjald lagt á hvern nemanda, og er það greitt af húsbændum þeirra, sem skólann sækja. Veit jeg til þess, að einn atvinnurekandi hjer í bæ hefir þannig greitt 1200 kr. í skólagjald fyrir starfsmenn sína. Það er því naumast hægt að segja annað en að ríflega sje lagt fram á móti styrknum af hálfu þess opinbera. — Já, nú er ekki lengur fundarfært, eða hvað virðist hæstv. forseta?