31.03.1924
Neðri deild: 38. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í C-deild Alþingistíðinda. (2025)

87. mál, einkasala á tóbaki

Flm. (Jakob Möller):

Það er altaf gaman að heyra menn vitna. Og jeg veit, að fleiri en jeg hafa haft gaman af því, að heyra þá vitna, hvern af öðrum, þessa nýbökuðu einokunarpostula. En má jeg spyrja hv. þm. Ak. (BL), hvort hann hafi talað svona á þingmálafundunum á Akureyri. (BL: Þetta frv. var alls ekki til umræðu þar.) Voru þá engar samþyktir gerðar í þessu máli á þingmálafundunum á Akureyri? (BL: Jú, að vísu, en jeg lagði til, að ekki yrði hrapað að neinu í þessu máli.) (Forseti: Það er ekki vert að hafa samtalið lengra.)

Hæstv. atrh. (MG) sagði, að kaupmönnum út um land væri ekki veitt lán. Hvers eiga þeir að gjalda? Eru skuldir manna út um land ver trygðar en kaupmanna hjer í bænum. Mjer finst það óskiljanlegt, og reyndar óviðeigandi, að taka upp þá reglu að veita engum kaupmönnum úti á landi lán, en lána stjettarbræðrum þeirra í Reykjavík. Það er líka bersýnilegt, að þetta hlýtur að draga úr sölunni og auka undanbrögð. Sæmilega stæðir kaupmenn fá líka alstaðar annarsstaðar lán um nokkurra mánaða tíma. Jeg skal ekki fullyrða, hve stórir landshlutar eru tóbakslausir af þessum ástæðum, hitt er mjer ljóst, hver áhrif þetta hefir á tolltekjurnar. Jeg skal ekki fara frekar út í áætlunarskekkjur frsm. nefndarinnar 1921. Jeg hefi leitt rök að því, að áætlunin hlaut að hækka frá því, sem stjórnin áætlaði og sem nam 200 þús. Hlýtur því hjer að vera um prentvillu eða skrifvillu að ræða í Þingtíðindunum. Hinsvegar ber nál. með sjer aukna álagningu í því skyni að auka tekjurnar frá því, sem stjórnin hafði ætlast til.

Jeg er samþykkur hv. 1. þm. G.-K. (ÁF) um að manni ber að hafa vaðið fyrir neðan sig um það, að ekki verði skaði á sölu birgðanna. En hinsvegar geri jeg ráð fyrir, að kaupmenn og kaupfjelög verði fús til að kaupa birgðirnar. Er einn möguleiki ennþá, og geri jeg ráð fyrir, að með þessu nýja bandalagi, sem er að myndast í þinginu, verði ofurauðvelt að koma fram banni á ýmislegri óþarfavöru. Geri jeg þá ekki ráð fyrir, að hæstv. atvrh. (MG) verði skotaskuld úr því að heimfæra tóbakið undir óþarfa. Ætti þá að reynast auðvelt að tryggja söluna, jafnvel þótt eitthvað sje hæft í því, sem sagt er manna á milli, að nokkuð bresti á, að varan sje fyrsta flokks.