28.03.1924
Neðri deild: 35. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í C-deild Alþingistíðinda. (2068)

91. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Jakob Möller:

Mjer brá dálítið í brún, þegar hæstv. fjrh. tók til máls áðan. Fjvn. hefir ámint hann kröftuglega um víðsýni. Það er líka víðsýni yfir þessu frv. hv. nefndar, svo að það er von, að hún krefjist víðsýni af hæstv. fjrh. Og nú hefir hann smitast af víðsýni frv. Hann virðist hafa sjeð að sjer og vill nú vera góða barnið. En jeg verð að segja það, að mjer finst viðsýni frv. eitthvað í ætt við manninn, sem batt poka á bakið á sjer, settist á hest sinn og mælti: „Hesturinn ber ekki það, sem jeg ber.“ Sumir hv. þm. hafa tekið það fram, að í frv. sje aðeins verið að velta byrðum ríkissjóðs yfir á sveitarsjóðina. En jeg vil ganga feti lengra og taka undir með hv. 4. þm. Reykv. (MJ) og segja, að þarna sje verið að velta byrðinni af sjer í fyrsta skurðinn, sem á leiðinni verður, því að jeg lít svo á, að sveitirnar sjeu ekki færar um að auka við sig byrðum. Er þá hreinlegra að segja eins og hv. þm. Borgf. (PO), að menn vilji blátt áfram fresta fræðslulögunum eða afnema þau. En ef til vill halda menn, að slík till. sje ekki heillavænleg til fylgis. Eða er verið að fara þarna kringum hv. kjósendur — eða samviskuna — eða er það máske dómur sögunnar, sem þarna á að smeygja sjer hjá?

Jeg heyrði talað um það í efri deild, að hún væri höfuð þingsins. Mjer fanst þetta óþarfa mikillæti og geðjaðist frekar illa að. En jeg vildi nú samt óska þess, að hv. efri deild láti það nú sjást, að hún vildi vera höfuð þingsins, og slæi höfuðið af þessu frv., ef það gengur í gegnum þessa deild.

Hæstv. fjrh. (JÞ) las upp alveg nýlærða lexíu um það, að ósanngjarnt væri, að öll dýrtíðaruppbótin hvíldi á ríkissjóði. Hann er alveg nýkominn á þessa skoðun, því að hann hefir greinilega látið í ljós, að sveitar- og bæjarsjóðir hefðu meir en nógar byrðar. Og hvernig fer svo, þegar á að fara að afla bæjar- og sveitarsjóðum nýrra tekjustofna? Það þarf víst ekki annað en benda á bæjarlagafrv. Reykjavíkur, sem vísað var frá í fyrra og nú hefir legið langa hríð í nefnd, og líklegt er, að rísi ekki úr dvalanum á þessu þingi.

Jeg held, að það sje varhugaverð braut að varpa á óvenjulegum tímum, sem skapa óvenjuleg útgjöld, byrðum ríkissjóðs yfir á herðar bæja og sveita, því að tekjustofnar þeirra eru ekki miðaðir við óvenjulega tíma og óvenjuleg útgjöld. Ríkið hefir aftur á móti vald og aðstöðu til að afla sjer óvenjulegra tekjustofna, og þá er eðlilegast, að einmitt það beri hinar óvenjulegu byrðar.

Nú er einmitt svo ástatt, að á öðru sviði er stritast við að koma útgjöldunum af sveitunum yfir á ríkið. Á jeg þar við það, að menn vilja koma viðhaldi vega yfir á ríkissjóð. Undarlegt er þó, ef sömu menn vilja varpa byrðum þeim, sem fræðslulögin skapa, af ríkissjóði og yfir á sveitir og bæi. En þetta er þó alt saman skiljanlegt. Til þess á aldrei að koma. Fyrir því verður sjeð með ákvæðinu um, að hægt sje að losna við óþarfa kennara. Um vegina er öðru máli að gegna. Þar vilja sveitirnar losna við sínar byrðar, en láta bæina eftir sem áður bera sínar. En þá er þó fulllangt gengið, þegar þingmenn bæjanna hlaupa í skörðin fyrir sveitarbúa. Og mjer finst hæstv. fjrh. (JÞ) hættur að vera 1. þm. Reykv.