28.03.1924
Neðri deild: 35. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í C-deild Alþingistíðinda. (2076)

91. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Frsm. minnihl. (Bernharð Stefánsson):

Því hefir verið haldið fram, sjerstaklega af hv. þm. V.-Ísf., að ef frv. þetta yrði samþ., þá myndi öll kensla í landinu falla niður. En fyrir það ætti þó að vera girt, ef brtt. minnihlutans verða samþ., og hygg jeg, að þá myndi fræðslukerfið engan skaða líða, þó frv. yrði að lögum. Hjer er aðeins verið að flýta fyrir því, sem á að verða, að ríkissjóður annarsvegar og bæjar- og sveitarsjóðir hinsvegar greiði sinn helming kostnaðarins hvorir.

Jeg hafði tekið það fram, að það, sem orsakaði mitt fylgi við frv., var það, að í því væri rjett hugsun. En hv. 1. þm. N.-M. (HStef) telur aftur á móti, að hugsunin, sem liggur á bak við það, sje röng, og hann byggir þá skoðun sína á þeim rökum, að fyrst ríkið hafi bundið þennan bagga, þá sje rjett, að ríkissjóður beri byrðarnar af honum. En er þetta rjett athugað? Fyrst er á það að líta, að áður en fræðslulögn gengu í gildi, þá kostuðu bæði bæir og sveit víða opinber barnakenslu, og frá 1907–1919 borguðu þau algerlega kostnaðinn af kenslunni, nema hvað þau fengu nokkurn styrk til hennar alment úr ríkissjóði. Jeg get því ekki sjeð, að þessi rök hv þm. (HStef) sjeu veigamikil.

Þá hefir mátt á sumum skilja, að þeir teldi eitthvað hulið liggja að baki þessu frv., og ætti sumum að ganga það til að leggja niður barnafræðsluna, en fyrir okkur sveitamönnunum ætti það að vaka, að velta kostnaðinum yfir á bæina. Kvað hv. 4. þm. Reykv. (MJ), að hv. þm. Str. hefði nú varpað af sjer grímunni í þessu efni. Jeg kannast nú ekki við þetta, og kannast heldur ekki við, að jeg hafi neinni grímu að kasta í þessu máli. Held jeg líka, að það hafi ekki verið tilgangur neins að leggja hlutfallslega meiri byrðar á kaupstaðina en sveitirnar. En hitt er augljóst, að nú sem stendur verða sveitirnar fyrir rangleitni, þar sem þær bera einar alla dýrtíðaruppbót á launum kennaranna að svo miklu leyti sem þau greiðast í öðru en peningum.

Jeg get ekki skilið það, hvernig nokkur fer að kalla það, að verið sje að velta byrði yfir á bæina, þó sveitirnar krefjist jafnrjettis við þá. Hinsvegar hafa sveitirnar borgað tiltölulega meira.

Hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) var að tala um, að reiptog ætti sjer stað í þessu máli sem öðrum, milli bæja og sveita. Hann var að segja, að ríkissjóður fengi meira fje frá bæjunum. Í því sambandi má minnast á það, hvaða tekjur bæirnir hafa af sveitunum. Hvernig er það með verslunina? Þó búðirnar sjeu í bæjunum, koma margar vörur utan af landi, og mikið fje rennur þaðan inn fyrir aðkeyptar vörur. Þetta verður líka að athugast, þegar rætt er um tekjur ríkissjóðs frá bæjum og sveitum.