15.04.1924
Neðri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í C-deild Alþingistíðinda. (2140)

70. mál, ritsíma og talsímakerfi

Jón Kjartansson:

Jeg vil undirstrika þá till. meirihl. samgmn., að málinu verði vísað til stjórnarinnar. Jeg kann illa við það, að verið sje á hverju þingi að samþykkja nýjar og nýjar aukalínur út á andnes og inn í afdali, meðan ekki er búið að ná því aðalmarkmiði að tengja saman höfuðlínurnar, sem eiga að ná í kringum alt land. Hjer má engin hreppapólitík komast að. Jeg get sagt það fyrir hönd minna kjósenda, Skaftfellinga, að þeir hafa að undanförnu látið sjer það lynda, vegna hins örðuga fjárhags, þó dragist að tengja saman aðallínuna sunnanlands. En ef haldið verður svona áfram að heimta hina og aðra smásíma, þá munu þeir áreiðanlega krefjast þess, að aðaltakmarki símalagninganna hjer á landi verði náð sem fyrst, áður en lengra er farið í því að byggja aukalínur. Og eins og nú standa sakir, tel jeg að sjálfsögðu rjettast að vísa þessu frv. til hæstv. stjórnar. Það er alveg þýðingarlaust að vera að samþykkja línur, sem vitanlega verða ekki lagðar fyr en seint og síðar. Því sjálfsagt er, að það gangi fyrir slíkum smálínum að ná aðaltakmarkinu: heildarsambandi símakerfisins hjer á landi.