15.04.1924
Neðri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í C-deild Alþingistíðinda. (2144)

70. mál, ritsíma og talsímakerfi

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg hefi skilið þingið svo, að tilætlun þess sje sú, að ekki verði bygðar neinar nýjar símalínur næsta ár. Og jeg held, að jeg hafi skilið það rjett. Hv. þm. V.-Ísf. hefir því enga ástæðu til þess að búast við því, að þessi lína verði tekin út úr, þó hún verði ekki dýrari en svo, þar sem, eins og hv. þm. (ÁÁ) veit, margar línur bíða enn óbygðar, sem þó hafa verið ákveðnar og samþyktar fyrir mörgum árum. Hv. 1. þm. S.-M. talaði um það, að stundum hefði verið klipið af ákveðnum lið á fjárlögunum til líkra þarfa. Jeg skal ekki neita því, að það hafi verið gert. En jeg ætla ekki að láta slíkt koma fyrir, því það er brot á tilætlun þingsins með fjárlögunum. Hv. þm. V.-Ísf. mintist á Staðarfellssímann, að hann hefði verið lagður án heimildar þingsins. Jeg mun ekki ljá mitt samþykki til þess, að slíkt verði endurtekið. Þá talaði einhver um það, að byggja ætti síma í sumar. Mjer er ókunnugt um það, og það hefir ekki verið ákveðið síðan jeg tók við stjórn, en hv. 2. þm. Rang. (KlJ) getur ef til vill upplýst um þetta. (KlJ: Mjer er ekki kunnugt um það.) Fyrst hvorki jeg eða hv. 2. þm. Rang. (KlJ) vitum um þessar nýbyggingar símalína, getur þetta ekki verið nema Gróusaga.