22.04.1924
Neðri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í C-deild Alþingistíðinda. (2184)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Pjetur Ottesen:

Jeg vil aðeins geta þess út af ræðu hv. 3. þm. Reykv., að eg er því algerlega mótfallinn, að málið sje tekið út af dagskrá. Skal jeg ekki fara neitt frekar út í ræðu hv. 3. þm. Reykv. að öðru leyti en því, að jeg vil enn einu sinni mótmæla þeirri staðleysu hjá honum, að með þessu frv. sje verið að fara inn á nýja braut, sem óþekt sje annarsstaðar, og því sje ótækt að samþ. frv. Jeg hefi margsýnt fram á það, og það getur hann alls ekki hrakið, að hliðstæð ákvæði gilda nú bæði í Englandi og Þýskalandi, og eru í framkvæmdinni eins og þessi ákvæði mundu verða hjer, þannig, að þau ná aðeins til þeirra skipstjóra, sem skrásettir eru á skip þess lands. Það er því alveg sama, þó trollaraskipstjórarnir hjer í Reykjavík reki fast á eftir hv. 3. þm. Reykv. um að þefa uppi ástæður gegn frv., að þessi ástæða er einskis nýt. Það er annars sýnilegt, að það er ekkert nema yfirdrepsskapur, þegar hv. þm. (JakM), er að tala um að breyta frv., hann er sýnilega í þeirri klemmu hjer, að honum líðst aldrei annað en vera á móti málinu. Skipstjórarnir hrópa hátt: Okkar eigin lögbrot mega ekki bitna á okkur sjálfum, sjá, við erum upp yfir það hafnir! — Það sýna úrslit þessa máls, hversu mikinn stuðning þessi krafa þeirra á sjer á Alþingi.

Jeg er sannfærður um, að hjer er um þjóðþrifamál að ræða, og er fullviss um það, að þetta er hin mesta rjettarbót öllum þeim, er veiðar stunda á smábátum, tryggir þeim aflabrögð, verndar veiðarfæri þeirra — og síðast en ekki síst veitir það ungviðinu vernd og tryggir þar með fiskiveiðarnar í framtíðinni.