25.04.1924
Neðri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í C-deild Alþingistíðinda. (2187)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Jón Baldvinsson:

Eins og jeg gerði ráð fyrir við 2. umr., hefi jeg nú flutt brtt. við þetta frv. á þskj. 429. Jeg hefi litið svo á, að rjett væri að gera greinarmun á brotunum, eftir því, hve mikið tjón yrði að þeim, en hafa ekki alstaðar sömu refsiákvæðin. Jeg hefi því komið fram með þessa brtt., þar sem farið er fram á það, að þessar hörðu refsingar nái aðeins til þeirra, sem fiska í landhelgi á svæðinu frá Reykjanesi að Horni.

Á þessu svæði munu róðrarbáta- og mótorbátaveiðar vera meiri en nokkursstaðar annarsstaðar á landinu. Einkum eru þar miklar veiðar á opnum bátum. Hefir mjög verið kvartað undan því, að botnvörpungar spiltu þar veiði og veiðarfærum.

Hinsvegar játa jeg það, að þörfin á góðum vörnum er brýn annarsstaðar, en mjer hefir sjerstaklega fundist, að þarna krepti skórinn mest að. Seinni part sumars og að haustinu er ágangur togara með öllu óþolandi fyrir Vestfjörðum. Virðist svo sem þar sjeu sjaldan tekin botnvörpuskip, enda gæslan þar, í öllum þeim fjörðum og vikum, erfiðari en þar, sem er aðeins mílnalöng strandlengja, eins og fyrir söndunum hjer við Suðurland. Við suðurströndina eru og að vetrinum fleiri eða færri skip, þar sem bæði er danska varðskipið og svo „Þór“. Auk þess er hjer á suðurströndinni ekki eins alment róið, og síst á opnum bátum. Aftur á móti játa jeg það fyllilega, að togararnir gera hjer fyrir Suðurlandinu verstu spell, bæði með því að raska sjávargróðrinum og með hinu, að drepa ungviðið.

Eg held, að þessi till. sje ekki svo flókin, að jeg þurfi að tala meira um hana. Þetta, sem hún fer fram á, er algert annarsstaðar, og vænti jeg þess, að hv. þm. geti á hana fallist.