18.03.1924
Efri deild: 22. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í C-deild Alþingistíðinda. (2207)

80. mál, selaskot á Breiðafirði

Flm. (Halldór Steinsson):

Jafnvel þótt greinargerðin fyrir þessu frv. sje ekki löng, get jeg þó látið nægja að mestu að vísa til hennar. 1. gr. 1. nr. 32, 16. des. 1885, sem jeg ætla að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta, hljóðar svo:

„Öll skot á sel skulu hjer eftir bönnuð á Breiðafirði fyrir innan línu, sem hugsast dregin frá Klofningshyrnu í Dalasýslu, mitt á milli Gassaskerja og Stagleyjar, hálfa mílu suður af Oddbjarnarskeri nyrðra í Bjargtanga í Barðastrandarsýslu.“

Þetta er aðalinnihald þessara laga. Með þeim er selur friðaður á öllum vesturhluta Breiðafjarðar, og þar með í öllum vestureyjunum. Lög þessi hafa líka haft þær góðu afleiðingar fyrir hinar vestlægari eyjar, að selveiði hefir aukist þar mikið.

En öðru máli er að gegna með suðureyjarnar. Þær hafa verið berskjaldaðar fyrir seladrápi Og þótt lögum samkvæmt megi ekki skjóta sel í lögnum, þá eru þau lög þráfaldlega brotin, og er það ekkert óeðlilegt hjá þjóð, sem er jafnólöghlýðin og Íslendingar eru yfirleitt. Selalagnir liggja svo fjarri bústöðum manna, að eigendurnir vita ekki hvað þar gerist, og lögbrjótarnir geta þá verið ugglausir fyrir því, að brot þeirra verði ekki uppvís.

Það er líka svo komið með selveiði í suðureyjum, að hún hefir minkað mjög mikið, og ef þannig heldur áfram, má búast við, að hún leggist alveg niður eftir nokkur ár, ef ekkert er að gert.

Sumir kunna að álíta, að það tjón, sem ábúendur á selveiðajörðum verða fyrir, vinnist upp af þeim hagnaði, er selaskytturnar hafa af veiði sinni. En svo er ekki. Menn munu yfirleitt ekki hafa tekjur af að skjóta selinn, því fjöldinn allur af þeim skotum, sem skotið er, fara til ónýtis, og fjarska oft fer svo, að skotnir selir nást ekki upp. Það er því mjög lítið gagn, sem selaskyttur hafa af því starfi sínu, gott ef þeir hafa fyrir skotfærunum, enda munu menn meira gera sjer það til gamans en til gagns.

Þegar þess er gætt, að með þessu fyrirkomulagi er gengið á rjett ýmsra bænda þar vestra, og tekjur þeirra rýrðar að miklum mun að því er selveiðina snertir, og ennfremur styggja skot æðarfugl í varplöndum, þá virðist það vera mjög rjettmæt krafa, að lögunum verði breytt þannig, að selur sje einnig friðaður á syðri hluta Breiðafjarðar. Sjerstaklega virðist það rjettmætt, þegar þess er gætt, að það kemur ekki í bága við neinar aðrar atvinnugreinir. Þarna eru t. d. engar laxár eða silungsár á þessum slóðum, og því eigi um það að ræða, að selur spilli veiði.

Jeg skal einnig geta þess, þótt eigi sje ástæða til að það ráði úrslitum, að ein af mestu selveiðajörðum við sunnanverðan Breiðafjörð er ríkiseign, sem sje Staðarfell, og er selveiðin þar aðalhlunnindin, og verðgildi þeirrar eignar yrði því mjög rýrt, ef selveiði legðist niður.

Jeg veit, að það eru ekki allir sammála um þetta þar vestra. Nokkrir menn hafa sent áskorun til þingsins, þess efnis, að selurinn verði ekki friðaður. Tvær ástæður færa þeir fyrir því. Önnur er sú, að selurinn spilli lax og silungsveiði, en hin er sú, að hann spilli fyrir lúðuveiði. Þetta eru einu ástæðurnar, sem þessir menn hafa fram að færa. Jeg verð að telja þessar ástæður mjög lítils virði, einkum þegar þess er gætt, að þeir, sem að áskorun þessari standa, eru eingöngu menn í Stykkishólmi og þar í grend, sem ekki geta haft nein not af laxi eða silungi, enda eru engar laxár eða silungsár á þessum slóðum. Og nákunnugir menn að vestanverðunni segja enga rýrnun hafa orðið í lúðuveiði, þótt selurinn hafi verið þar friðaður í 40 ár. Jeg get því ekki gert neitt úr þessum ástæðum. Jeg vil nú samt, að málið verði athugað vandlega í nefnd, og þar vegin þau rök, sem eru með og móti, og legg jeg til, að málinu verði vísað til allshn.