22.04.1924
Efri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í C-deild Alþingistíðinda. (2250)

112. mál, niðurfall nokkurra embætta

Frsm. meirihl. (Eggert Pálsson):

Hv. frsm. minnihl. (JJ) byrjaði ræðu sína á því að núa mjer um nasir, að jeg hafi greitt atkv. á móti því að leggja niður grískudósentinn og prófessorinn í hagnýtri sálarfræði, þó að jeg hafi talað fyrir því austur í kjördæmi mínu s. l. haust. Þetta kom mjer ekki á óvart, því að hann hefir þegar látið blað sitt flytja þennan boðskap um land alt. En jeg veit, hvaða áhrif það hefir, þegar hv. þm. (JJ) talar um mig við Rangæinga. Þá talar hann fyrir lokuðum eyrum; þá trúir honum enginn.

Það er rjett, að jeg greiddi atkvæði á móti frv. hans um niðurlagning grískudósentsembættisins. En af hverju? Af því að það var í alla staði óframbærilegt.

Fyrst og fremst var það að efni bæði frv. og þál.

Það var efni frv. að leggja niður embættið, en aftur á móti efni þál. að færa mann þann, sem gegnir því, í kennaraembætti við mentaskólann.

Þá var þess að gæta, að þetta kennaraembætti, sem flytja átti dósentinn í, er ekki til, og hefði því um leið þurft að stofna það, en engar till. lágu fyrir frá hv. þm. (JJ) um það efni, sem ekki var von. Forsjálnin var ekki svo mikil.

Hjer við bætist, að annað frv. um niðurlagning embættisins lá fyrir hv. Nd., og er það vafalaust á móti þingsköpum, að tvö frv. um sama efni sjeu til meðferðar samtímis í báðum deildum þingsins, enda er hætt við, að slíkt leiði einungis til þess, að deildirnar sitji á frv. hvor fyrir annari. Þegar jeg því greiddi atkv. á móti frv., vissi jeg ekki, og þá vissi það enginn þm., að hv. Nd. sæti samt sem áður á frv. því, sem fyrir hana var lagt um sama mál, eins og raun hefir á orðið. Sú hv. deild verður að bera ábyrgð sinna gerða. Þar fáum við, þm. þessarar deildar, engu um þokað. Annars get jeg hugsað mjer, að hv. Nd. hafi lagst á frv. með fram vegna þess, að grískudósentinn, sem á sæti í deildinni, lagðist veikur um það leyti, er frv. fór til nefndar, og hefir starfsbræðrum hans í hv. Nd. þótt hart að vega þannig að honum í rúminu.

Frv. hv. 5. landsk. (JJ) um að fella niður prófessorsembættið í hagnýtri sálarfræði var sömuleiðis óframbærilegt af svipuðum ástæðum. Annað frv. sama efnis lá einnig fyrir hv. Nd. Þetta frv. hv. þm. (JJ) var einnig fjötrað við þál.-form, þar sem ákveðið var að flytja skyldi prófessorinn að landsbókasafninu.

Það þýðir því ekkert fyrir hv. 5. landsk. (JJ) að halda áfram að rægja mig við Rangæinga. Þeir þekkja mig frá gamalli tíð, en þeir þekkja hv. þm. (JJ) lítið — og að engu góðu — og munu því eiga bágt með að trúa honum, þegar jeg er annarsvegar.

Hv. minnihl. (JJ) sagði, að við værum í mótsögn við sjálfa okkur að vilja ekki samþ. þetta frv., þar sem við hefðum samþ. að fækka dómendum í hæstarjetti, án sjerstakrar rannsóknar.

Þess ber nú að gæta, að þá var ekki búið að samþ. till. um að skora á stjórnina að skipa sparnaðarnefnd. Er ekki ósennilegt, að ef að sú till. hefði verið búin að ná samþ., þegar frv. um breytingu á hæstarjettarl. var til umr. hjer í deildinni, þá hefði það frv. farið sömu leið og við nú leggjum til að þetta frv. gangi. Annars var það einmitt hv. 5. landsk. (JJ), sem átti frumkvæðið að skipun sparnaðarnefndarinnar, og má hann því sjálfum sjer um kenna, að þeirri nefnd verður falið eitthvað að gera.

Að því er snertir aðstoðarlækninn á Ísafirði, þá er jeg ekki kominn hjer til að halda neina varnarræðu fyrir hann. Jeg þekki manninn ekki neitt. En hitt vil jeg taka fram, að það er sýnt, að þingið vill halda verndarhendi yfir þessum manni og ekki kasta honum út á klakann. Ef þingið vildi ekki sýna honum neina vernd, þá myndi það ekki veita honum meiri laun en honum stranglega ber skv. lögunum frá 1907, sem sje 800 kr. með dýrtíðaruppbót, sem yrði þá samtals ekki meira en 1200 kr. En þingið vill veita honum meira, svo sem komið hefir í ljós, og þá má ganga að því vísu, að þó að embættið verði lagt niður, þá fær læknirinn eigi að síður laun sín á fjárlögum, og hvar verður þá sparnaðurinn?

Hv. minnihl. (JJ) sagði, að svo liti út sem við hjeldum, að ekki mætti leggja niður embætti meðan sá, er gegndi því, vildi sitja í því. Þessi ummæli eru nú vitanlega algerlega ástæðulaus, eða a. m. k. hefi hvorki jeg nje nál. okkar gefið hið minsta tilefni til þeirra. En hitt er rjett, að meirihl. vill láta athuga það nákvæmlega í hvert sinn, hvort rjett sje að leggja niður embætti, áður en hrapað er að því. Sá er munurinn á meiri- og minnihl. nefndarinnar.

Frv. þetta fer t. d. fram á að leggja skilyrðislaust niður starf beggja aðstoðarmanna vega- og vitamálastjóra. Jeg get ekki sjeð, að skynsamlegt sje að hrapa að þessu, að lítt rannsökuðu máli. Jeg veit ekki nema til mála gæti komið, að hafður yrði einn aðstm. fyrir báða þessa embættismenn, svo að við mætti una. En ef að þeir verða báðir skornir niður, þá er þetta ekki hægt. Annars vildi hv. minnihl. (JJ) líkja þessum aðstoðarmönnum við varalækna eða varapresta. En allir sjá, hversu mikil fjarstæða slíkt er. Fyrst og fremst eru til t. d. varaprestar, þar sem eru nágrannaprestar, sem þjóna prestakallinu, þegar sóknarpresturinn hefir öðrum störfum að sinna eða fellur frá. En hvaða varavitamálastjóri er til? Enginn, nema aðstoðarmaðurinn. Ef að hann verður nú skorinn niður, þá gætu hæglega orðið stórvandræði, ef að vitamálastjóri fjelli frá. Það gæti verið stórvarhugavert að fela allsendis ókunnugum manni yfirstjórn vitamálanna. Það eru nú til 44 vitar á landinu, og ef að einhver vitavörður fjelli frá, er bráðnauðsynlegt að hafa mann til taks, sem kann að fara með vitana og gæti ráðstafað þeim. Annars gæti svo farið, að það sloknaði á vita, og allir skilja, hvílíkt tjón getur af því hlotist. Þetta er því mjög athugunarvert atriði í brjefi vitamálastjóra.

En þar sem hv. minnihl. (JJ) var að blanda prestsembættunum inn í umr., þá sýnir það einungis, hversu ókunnugur hann er íslensku kirkjunni og hennar málefnum.

Að því er það snertir, að núverandi skógræktarstjóri sje ekki heppilegur maður til að gegna þeirri stöðu, þá kannast jeg við að hafa heyrt raddir í þá átt. En jeg held, að þessar raddir sjeu nú orðið úreltar. Það mun rjett vera, að honum hafi ekki þótt hepnast skógræktin sem best fyrst í stað, en þetta hefir eðlilega lagast, eftir því sem maðurinn hefir betur kynst þjóðinni og öllum aðstæðum hjer á landi.

Jeg hefi í seinni tíð heyrt raddir, og þær fara vaxandi, sem álíta, að honum hafi hepnast starfið furðu vel, þegar litið er til þess, hvernig hefir verið í hendur hans búið, því að ekki hefir hann haft miklu fje úr að spila. Hvernig búnaðarmálastjóra myndi lánast forysta skógræktarinnar, er ekki gott að segja. Á það hefir ekki reynt, a. m. k. ekki hjer á Suðurlandi. En hitt ber ekki að dylja, að ekki orkar síður tvímælis, hvernig honum hefir farist sem búnaðarmálastjóra, heldur en hvernig stjórn skógræktarinnar hefir farið núverandi skógræktarstjóra úr hendi. Gæti því farið svo, að við skiftin ynnum við það eitt, að ganga úr öskunni í eldinn. En um þetta atriði þýðir ekki að deila.

Það er aðalatriðið í öllu þessu máli, hvort við þurfum á þessum mönnum, sem hjer ræðir um, að halda í framtíðinni. En því atriði hefir hv. minnihl. nefndarinnar algerlega gengið fram hjá.

Ef svo væri, að ekkert væri hægt að gera í náinni framtíð, eða enginn vildi láta gera neitt, þá væri náttúrlega mjög auðvelt að komast af án þessara manna, en mjer virðist það vera alveg gagnstætt því, sem hv. 5. landsk. hefir haldið fram í sínum „Komandi árum“. Þar virðist því einmitt hafa verið haldið fram, að mikið ætti að gera í náinni framtíð. En sem sagt, ef ekkert ætti að gera, þá væri sjálfsagt að koma í framkvæmd einhverjum sparnaði á þessu svæði, t. d. færa saman þessi tvö aðstoðarmannaembætti. En ef það er meiningin að eitthvað eigi að gera í framtíðinni, þá er spursmál, hvort nokkuð er unnið við það að kasta þessum mönnum út á klakann nú, því þá þyrfti máske að flýja á þeirra náðir mjög bráðlega aftur, og vel má vera, að þeir yrðu þá dýrari og verra við þá að eiga, eftir að slíkri aðferð hefði verið beitt gagnvart þeim.

Jeg hefi svo ekki, að svo komnu máli, ástæðu til að fara frekar út í þetta mál, en vonast eftir því, að hv. deild verði okkur meirihl. nefndarinnar sammála og samþ. þá rökst. dagskrá, sem við berum hjer fram.