16.04.1924
Efri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í B-deild Alþingistíðinda. (234)

1. mál, fjárlög 1925

Frsm. (Jóhannes Jóhannesson):

Það er nú orðið nokkuð áliðið og skal jeg ekki tefja tímann lengi. Jeg tek undir það með háttv. þm. A.-Húnv., er hann kvað leiðinlegt að hlusta á þessar umræður. En jeg tel ástæðu til að þakka hæstv. stjórn og svo þingmönnum, hvernig tekið hefir verið undir till. nefndarinnar. Hún hefir fengið talsvert lof, en lítið verið fundið að till. hennar. Sjálfsagt er það eðlilegt, að sumar till. hafa sætt nokkrum andmælum, en það dregur ekki úr gleði nefndarinnar yfir því, hvernig þeim er yfirleitt tekið.

Hæstv. fjrh. benti á það, að ekki væri jöfnuður enn fenginn á fjárlagafrv. og að dýrtíðaruppbótin væri of lágt reiknuð í frv. Því miður er þetta rjett. Ennfremur er síðasti liður í 22. gr., ef hann verður samþyktur, kominn útgjaldamegin í fjárlög. Jeg ber kvíðboga fyrir því, að svo kunni að fara, að upphæðin verði greidd, úr því heimild er til. í fjárlagafrv. er ekkert tillit tekið til verðtolls, sem þingið hefir nýlega samþykt lög um. Fjvn. mun við 3. umr. taka þennan tekjuauka til yfirvegunar og mun bera sig saman við hæstv. fjrh. (JÞ) um, að hve miklu leyti sje ástæða til að taka tollaukann til greina í fjárlagafrv.

Þá vil jeg minnast nokkrum orðum á þær till. nefndarinnar, sem andmælum hafa sætt. Skal jeg ekki endurtaka það, sem jeg hefi sjálfur sagt eða aðrir; álít nóg, að það komi á einum stað í Þingtíðindunum. Vil jeg stuttlega skýra frá afstöðu fjvn. Ein till. nefndarinnar er um að lækka laun aðstoðarlæknisins á Ísafirði. Vildi jeg einungis benda á það, að launalögin minnast ekki einu orði á þennan mann. Upphæðin — 1500 kr. — er nærri tvöföld við það, sem hefði átt að gilda fyrir hann, jafnvel þó fylsta dýrtíðaruppbót væri reiknuð.

Hæstv. dómsmálaráðherra (JM) efaðist um, að nefndin hefði valið rjetta leið með því að ákveða sjúkraskýlastyrkinn til vissra hjeraða. Í því efni skírskota jeg til þess, sem jeg hefi áður sagt, sömuleiðis hv. 5. landsk. þm. (JJ).

Um hækkun á fjárveitingu til flutningabrauta get jeg upplýst það, að með þessari upphæð, sem í frv. stendur, væri ekki hægt að halda við þeim flutningabrautum, sem koma undir ríkissjóð með nýju vegalögunum. En Holtaveginn þarf að bæta og sömuleiðis veginn hjeðan og austur.

Út af ummælum hæstv. forsrh. um það, hvernig skilja bæri styrkinn til námskvenna, er því að svara, að nefndin gekk út frá lögákveðnum styrk til ljósmæðraefna og reiknaði sömu dýrtíðaruppbót sem annarsstaðar, 45 kr. á hverja námsmey og 50% dýrtíðaruppbót. Upphæðina miðaði nefndin við það, að í skólanum yrðu ekki fleiri en 12 námsmeyjar, sbr. frv. um það efni, sem er á ferð gegnum þingið.

Hvað snertir styrkinn til Jóhannesar L. L. Jóhannssonar til samningar orðabókar, skírskota jeg til ræðu minnar. Háttv. 5. landsk. þm. vildi halda því fram, að maðurinn væri með öllu óhæfur til starfsins og það í sjálfu sjer einskis nýtt. Þessu mótmæli jeg eindregið og skoða þessi ummæli háttv. þm. sem hvern annan órökstuddan sleggjudóm.

Jeg skal upplýsa út af ummælum háttv. 2. þm. S.-M. (IP), að forstöðumaður löggildingarstofunnar tjáði fjvn., að landskjálftamælirinn væri eign þýsks fjelags; hefði það haft á orði að taka hann burt vegna þess, að engin athugun hefði verið gerð. Þá er veðurathuganastyrkurinn. Fjvn. Nd. hefir búist við, að 35 þús. kr. myndu ekki nægja. Við álítum, að halda megi í horfinu, án þess að slíta samböndum við útlendar stöðvar, með því að hækka upphæðina nokkuð.

Till. um styrk til hjónanna í Hítardal hefir ekki sætt andmælum nema úr einni átt. Þessi hjón hafa átt 10 sonu á 13 árum. Fordæmið gildir því ekki annarsstaðar en þar, sem eins er ástatt.

Að því er snertir aths. við styrkinn til Árna Th. Pjeturssonar, sem allmikið hefir verið rifist um og andmælt hefir verið af hv. 1. landsk. þm. (SE) og hv. 2. þm. G.-K. (BK), þá vil jeg taka það fram, að mjer virðist þeir hafa misskilið hana, því að þar er tekið fram, að styrkurinn sje aðeins þangað til stjórnin veiti honum aftur starf hans eða annað álíka, sem liggur beinast við eftir athugasemdinni, að eigi að gerast á næsta ári, en úr því að það hefir ekki verið gert, getur tæplega komið til mála að láta styrk þennan standa lengur.

Síðustu brtt. nefndarinnar á þskj. 376 tekur hún aftur til 3. umr., eftir tilmælum hæstv. atvrh.

Þá hefir fjvn. gert skriflega brtt. við XIII. brtt. á þskj. 394, frá hv. 5. landsk. þm. (JJ), og vænti jeg, að hæstv. forseti leyfi henni að komast að, þó að hún sje seint komin fram, því að hún er beint skilyrði fyrir því, að nefndin geti fallist á tillöguna.

Þá skal jeg snúa mjer að brtt. einstakra háttv. þm. á þskj. 394, og er það um þá fyrstu (I 1) að segja, að nefndin sjer sjer ekki annað fært en að vera á móti henni, ekki fyrir þá sök, að hún telji það ekki gott og blessað, að læknar fari utan og afli sjer nýrrar læknisþekkingar, heldur vegna fjárhagsörðugleika ríkissjóðs. Um 2. lið hennar hafa nefndarmenn óbundin atkvæði, og sömuleiðis um 3. lið hennar, um styrkinn til íslenskra hjúkrunarkvenna.

Um till. hv. 1. þm. Rang. (EP) undir tölulið II,1 hefir nefndin einnig óbundnar hendur. Samræmisins vegna gat meiri hl. nefndarinnar ekki fylgt till. þessari sem er um að veita Guðmundi Guðfinnssyni 1500 kr. styrk til augnlækninganáms erlendis, því að svo stendur á, að í síðustu fjárlögum fjekk annar ungur og efnilegur læknir styrk til framhaldsnáms í annari grein læknisvísindanna, sem er engu þýðingarminni, og sækir og um framhaldsstyrk, er nefndin hefir fjárhagsörðugleikanna vegna ekki sjeð sjer fært að taka upp. Einnig leit meiri hl. nefndarinnar svo á, að maður, sem búinn væri að sitja alllengi í embætti, hlyti að eiga hægara um vik en fátækur kandidat. Enda mun G. G. ljúka námi hvort sem hann fær styrk þennan eða ekki, eða að minsta kosti var ekki hægt að fá annað út úr brjefi því, er hv. flm. till. las upp.

Að því er snertir brtt. undir III. tölulið, þá er nefndin á móti þeim öllum, því að hún telur ekki hægt að finna betri lausn á því máli en hv. Nd. komst að.

Þá hefir nefndin óbundnar hendur um brtt. IV,1, um aukinn styrk til Flensborgarskólans. En hún þykist hafa bætt skólanum upp það, sem hv. Nd. kleip af fjárveitingunni til hans, þar sem í skólanum mun vera um 60 manns, og er óhætt að gera ráð fyrir, að 20 greiði skólagjald, sem er 150 kr. af hverjum. 20 X 150 = 3000, sem renna eiga í skólasjóð.

Um skólann í Bergstaðastræti (IV,2) hefi jeg aldrei heyrt annað en að hann væri mjög góður og þarfur, og mun jeg greiða atkv. mitt með fjárveitingunni til hans, en annars hafa allir nefndarmenn þar óbundin atkvæði.

Hið sama er að segja um V. brtt. Nefndin viðurkennir, að stúlka þessi hafi unnið gott starf og hefði gjarnan viljað láta hana fá styrk þennan áfram, en þar sem í síðustu fjárlögum var veittur styrkur til leikfimiskenslu fyrir utanbæjarpilta og sá hinn sami maður, sem hafði kenslu þá á hendi, sótti einnig um styrk þennan nú og nefndin sá sjer ekki fært að veita hann, finnur hún ekki frekar ástæðu til að veita stúlku þessari styrk til leikfimiskenslu fyrir utanbæjarstúlkur. Enda ekki rjett að gera upp á milli karla og kvenna í því efni.

Um VI. brtt. hefir nefndin óbundnar hendur.

Um VIII. brtt. hefir nefndin sömuleiðis óbundnar hendur, því að hún hefir ekki getað orðið þar sammála. Nokkur hluti hennar leit svo á, að þær tekjur, sem með tímanum myndu aukast við sendingu frjettaskeytanna út um land, mundi vega á móti þessum styrk. En hinsvegar verður því ekki neitað, að slík frjettaskeyti eru bæði til skemtunar og fróðleiks fyrir þjóðina. Telja því nokkrir nefndarmenn, að rjett sje að veita þennan styrk.

Aftur á móti mælir öll nefndin með 2. lið þessarar brtt.

Með VIII. brtt. getur nefndin ekki mælt, og liggja þar til að mestu hinar sömu ástæður og hv. þm. Snæf. (HSteins) tók fram.

Um IX. breytingartillöguna hefir nefndin óbundnar hendur, en vill geta þess, að þessi liður er kominn inn í frv. eftir tillögum sjávarútvegsnefndar Nd., og skilur fjvn. ekki, hvernig á því stendur, að þessir fiskiyfirmatsmenn hafa ekki einnig verið teknir með, en telur þó líklegt, að sjútvn. hafi eitthvað haft fyrir sjer.

Þá hefir nefndin óbundnar hendur um X. brtt. og sömuleiðis um varatillöguna.

Sömuleiðis mælir nefndin með 1. lið XI. brtt., en hefir óbundnar hendur um hinn síðari.

Þá er nefndin á móti tillögunni um styrk til júbil-ljósmóður Þórdísar Símonardóttur. Henni dettur ekki í hug að bera brigður á það, að þessi heiðurskona sje styrksins fyllilega makleg. En hún óttast, að slík styrkveiting myndi draga marga dilka á eftir sjer. Aftur á móti lítur nefndin svo á, að þau sveitarfjelög og sýslufjelög, sem notið hafa starfskrafta þessarar ágætu konu, ættu að veita henni á gamalsaldri dálítinn lífeyri, og vil jeg því leyfa mjer að skjóta því til flm. tillögunnar að fá hv. 1. þm. Árn. (MT) til þess að útvega konu þessari styrk þennan frá sýslufjelögunum fyrir austan.

Um XIII. brtt. hefir verið talað áður, og eins og tekið hefir verið fram, kom nefndin ekki með tillögu um að veita eftirgjöf á vöxtum, og leggur því til, að það sje felt úr tillögunni.

Sem að líkindum ræður hefir nefndin óbundnar hendur um síðustu brtt. á þskj. 394, þar sem flm. er einn af nefndarmönnunum. Nefndinni þótti leiðinlegt, að geta ekki borið hana fram sem sína, en hún treystist ekki til þess, af ótta við, að svo margar slíkar tillögur myndu koma á eftir.

Læt jeg svo máli mínu lokið.