11.04.1924
Neðri deild: 48. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í C-deild Alþingistíðinda. (2350)

54. mál, vinnutími í skrifstofum ríkisins

Forsætisráðherra (JM):

Jeg verð að gera dálitla athugasemd út af orðum hv. 2. þm. Rang. (KlJ). Þessi hv. þm. talaði fyrst aðeins um þá sjóði, sem hann hefði haft endurgjaldslaust sem landritari, en nú væri goldið aukalega fyrir. En svo játaði hann, að í hans landritaratíð hefði verið borgað sjerstaklega fyrir aðra sjóði. Hvað er þá um að tala? Jeg er ekki að lasta þetta. En það sýnir, að árás hv. þm. Str. (TrÞ) á mig er öldungis ástæðulaus. Svona hefir það verið bæði fyr og síðar. Jeg var ekkert að lasta það, þó hv. 2. þm. Rang. (KlJ) bætti laun þessa umgetna starfsmanns. Það var samt engin sjerstök ástæða til þess, og það var misrjetti gagnvart öðrum starfsmönnum í stjórnarráðinu. Engin nauðsyn vegna þýðinga. Í stjórnarráðinu er löggiltur og prófaður skjalþýðari annar. Að það hafi þótt misrjetti, fjekk jeg sönnun fyrir í morgun. Jeg fjekk þannig brjef í morgun frá manni, sem sagðist ekki geta lifað af launum sínum og verði að fara, eða fá launin hækkuð, og „citerar“ þetta dæmi. Þessi maður hefir miklu lægri laun en hinn. — Það er annars ekki vert að vera að pexa um einstök dæmi. Því þar sem hv. þm. Str. (TrÞ) kemur með eitt, skal jeg koma með þrjú.