14.04.1924
Neðri deild: 50. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í C-deild Alþingistíðinda. (2366)

54. mál, vinnutími í skrifstofum ríkisins

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg ljet þess getið við 2. umr., að mjer lægi í ljettu rúmi, hvort samþykt yrði, frv. eða dagskrá allshn. En eftir þeim umr., sem hjer hafa farið fram, má vera, að jeg muni þar fullmikið hafa um mælt. Jeg álít því, að langheppilegast hefði verið að samþ. dagskrá okkar, en ekki þetta frv., og benda þessar umr. ótvírætt í þá átt. Jeg gæti trúað, að ef þingið færi nú að setja lög um þetta, gæti það orðið forspil til annars meira, sem þm. mundu sjá eftir að hafa komið af stað. Jeg fyrir mitt leyti að minsta kosti vil ekki vera með í því. Að því er dagskrá nefndarinnar snertir, vil jeg í engu hopa frá því orðalagi hennar, að það væri í fullu trausti til stjórnarinnar, að hún taki þetta mál til athugunar, og telst jeg þó ekki til stuðningsmanna stjórnarinnar. Jeg mun því greiða atkvæði með tillögu þeirri, sem nú er hjer fram komin, um að vísa málinu til stjórnarinnar, og vona jeg, að háttv. deild samþ. hana.