10.03.1924
Neðri deild: 19. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í C-deild Alþingistíðinda. (2377)

68. mál, aðflutningsbann á ýmsum vörum

Magnús Guðmundsson:

Jeg vil nota það tækifæri, sem hjer býðst, til að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. stjórnar, og þá sjerstaklega hæstv. fjrh. (KlJ), hvort hann hafi ekki, eins og venja er til, beðið hagstofuna að safna skýrslum um skuldir landsmanna erlendis og inneign þeirra þar, og ef svo er, hvenær slíkra skýrslna sje von. Ennfremur vildi jeg spyrja hann, hvort hagstofan hafi ekki með höndum bráðabirgðayfirlit yfir verðmæti inn- og útfluttra vara árið 1923, því að jeg tel mjög mikilsvert fyrir Alþingi að fá það yfirlit, einmitt vegna þessa máls, sem hjer er til umræðu.

Yfirlit þetta er viðskiftareikningur hinnar íslensku þjóðar við útlönd, og það hlýtur að vera öllum, sem um þetta mál fjalla, hin mesta nauðsyn að fá þann reikning, og einnig öllum landsmönnum, sem nokkuð hugsa um þessi mál. Það mundi ekki vera talinn hygginn bóndi, sem ekkert hugsaði um að athuga viðskiftareikning sinn við kaupfjelag eða kaupmann. Og það mundi þykja misvitur atvinnurekandi, sem ekkert hugsaði um að athuga, hver niðurstaðan væri eftir árið. En ef þetta er svo um einstaklinga, hví mundi það þá eigi einnig gilda um þjóðina í heild? Og alveg sjerstaklega hlýtur þetta að varða okkur, sem hjer eigum sæti. Jeg hlýt því að ganga út frá því sem gefnu, að hæstv. stjórn hafi sjeð svo fyrir, að vjer fáum þessar skýrslur sem allra fyrst.

Jeg tók það fram, að jeg liti á skýrslur um inn- og útfluttar vörur sem viðskiftareikning vorn við erlendar þjóðir. Úttektin er hinar innfluttu vörur, en innleggið er hinar útfluttu vörur. Það þarf nú ekki að skýra það, að eftir því sem hinn fyrnefndi liður er lægri og hinn síðarnefndi hærri, er reikningurinn hagstæðari, en nægilega hagstæður er hann ekki nema útfluttar afurðir nemi meira verðmæti en innfluttar, og verður þar að minsta kosti að muna því, sem vjer verðum að borga í vöxtu og afborganir af erlendum skuldum.

Undanfarin ár hefir þessi reikningur vor við útlönd verið óhagstæður. Það vitum vjer. Þó verð jeg að taka það fram, að um síðastliðið ár get jeg ekki fullyrt þetta, en hinsvegar þykir mjer mjög líklegt, að svo hafi verið, og álykta jeg það af hinu sífallandi og hraðfallandi gengi hinnar íslensku krónu, því að jeg er í engum efa um, að einn meginþátturinn, er veldur gengisfalli hinnar ísl. krónu, er óhagstæður verslunarjöfnuður gagnvart útlöndum. Þetta virðist mjer í rauninni auðsætt, jafnauðsætt og það, að bóndi, sem tekur meira út í verslunarreikning sinn en hann leggur inn, safnar skuldum og missir að lokum álit sitt.

Ef þetta er rjett, og um það vona jeg, að flestir verði sammála, er það ekki að undra, þótt hins áðurnefnda verslunarreiknings við útlönd sje beðið með óþreyju ár hvert. Og sje svo, að vjer í þeim viðskiftum höfum tekið meira út en vjer höfum lagt inn, er óhjákvæmilegt, sjerstaklega ef svo er ár eftir ár, að taka í taumana og jafna reikninginn, og í raun og veru er það aðeins hægt með því að draga úr innflutningnum, því að verðmæti hins útflutta er erfitt að auka í skjótu bragði.

Að þannig vöxnu máli er jeg meðmæltur meginstefnu þessa frv., er hjer liggur fyrir, en um einstök ákvæði þess vil jeg ekki ræða nú við þessa umr. Þó vil jeg taka það fram, að mig uggir, að töluverðra breytinga muni þurfa á ýmsum ákvæðum þess, ef vel á að fara, og nefnd sú, sem málið fær til meðferðar, verður að taka til álita og rannsóknar þá hliðina, sem að ríkissjóði snýr, og að minni vitund er ekki útilokað, að nauðsynlegt verði að bæta ríkissjóði hallann með auknum tollum.

Jeg vjek að því áðan, að verslunarjöfnuður vor gagnvart útlöndum hefði verið óhagstæður hin síðari árin, þannig, að vjer höfum flutt að verðmæti meira inn en út. Og eins og jeg hefi sýnt fram á er þetta háskalegt hvaða þjóð sem er. En þrátt fyrir það hefir hæstvirt landsstjórn ekkert gert til þess að reyna að jafna þennan halla, og má sennilega álykta af því, að hún telji ekki rjetting málanna í þessu fólgna. Hæstv. fjrh. mintist að sönnu á þetta atriði við 1. umr. fjárlagafrv. fyrir næsta ár, en lagði engan dóm á sjálfur, hvort hann teldi viðskiftahöft nauðsynleg, og virtist í því efni vilja beygja sig undir vilja þingsins.

Hinsvegar gat hann þess, sem rjett er, að til eru lög frá 1920, er heimila stjórninni að takmarka eða banna innflutning á óþörfum varningi, og jafnframt er stjórninni í þeim lögum heimilað að ákveða, hver varningur sje þarfur og hver óþarfur.

Þessi lög hefir landsstjórnin sama og ekkert eða mjög lítið notað, og þó hefði, að mínu áliti, verið unt að spara miljónir fyrir þjóðina með því. Jeg verð því að álíta, að hæstv. stjórn hafi með þessu drýgt mikla synd og sýnt mikið tómlæti um það að gæta almenningsheilla, því að jeg tel, að hjer sje falin ein ástæðan til gengisfallsins. Hæstv. fjrh. sagði í nefndri ræðu sinni, að hann hefði eigi notað lögin frá 1920 vegna þess, að meirihluti þings hefði verið því andvígur, en hvaðan honum kemur sú vitneskja, er mjer hulin ráðgáta. Ef hann hefir haft eða hefir allan sinn flokk að baki sjer í þessu máli, sje jeg ekki, að hann þurfi eða hafi þurft neitt að óttast. Til aðgerða þingsins 1922 getur hæstv. ráðherra ekki vísað sínu máli til stuðnings, því að þótt andstaða væri gegn frv. í þessa átt, er þá kom fram, var það vegna annara ákvæða, er í því voru, en alls ekki vegna ákvæða þess um innflutningshöftin.

Annars verð jeg að segja það, að hæstv. fjrh. er sannleikselskari en blað hans, því að það hefir haldið því fram, að aðflutningshaftaheimildin hafi verið afnumin 1921, en hann kannast aftur á móti við, að lögin um þetta efni frá 1920 sjeu enn í gildi, og nú er tekinn af lífi mjög hreinlega þessi „Tíma“-sannleiki, því að í frv. því, sem hjer liggur fyrir til umræðu, er gert ráð fyrir að fella burtu lög þessi, og það mundi varla teljast nauðsynlegt, ef þau væru þegar úr gildi fallin. Það mundi vera álitamál, sem jeg hirði ekki um að fara nánar út í við þessa umr., hvort hægt er að komast lengra áleiðis í takmörkun innflutnings með frv. því, sem hjer liggur fyrir, ef að lögum verður, en með lögunum frá 1920. Má vera, að jeg víki nánar að því atriði, þegar jeg sje, hvernig frv. verður, þegar nefnd hefir rannsakað það.

En um liðna tímann er það að segja, að það er mikið böl og aumt til þess að vita, að hæstv. stjórn skuli hafa haldið að sjer höndum og ekki notfært sjer lagaheimildina frá 1920, þótt hún sæi, að gengi hinnar ísl. krónu fjelli svo að segja daglega, og þótt hún hefði átt að geta sagt sjer sjálf, að það, sem oss reið mest á, var að spara erlend kaup. Þessi aðferð stjórnarinnar minnir á manninn, sem ekki nenti að taka hendurnar upp úr vösunum til þess að reka frá sjer eiturflugurnar, heldur beið, þar til þær stungu hann til bana.

Út af því, sem háttv. aðalflm. þessa máls sagði, skal jeg geta þess, að þótt svo sje, að nú sjeu margir, og sennilega meirihl., fylgjandi innflutningshöftum, verðum vjer að gera oss ljóst, að líklegt er, að ýmsir muni snúast á móti þeim, er þau koma í framkvæmd, því að það er óhjákvæmilegt, að framkvæmdin komi óþægilega við ýmsa, en þá ríður á, að þeir, sem fyrir þessum málum standa, haldi fast á og láti ekki undan síga, þótt straumurinn verði þungur.

Háttv. aðalflm. gat þess, að bankarnir fylgdu þessu máli fast, og las upp kafla úr brjefum frá þeim til landsstjórnarinnar því til stuðnings. En einmitt þetta sýnir, að því minni afsökun hefir landsstjórnin í því, að hafa ekki beitt frekar en hún gerði innflutningshaftaheimildinni frá 1920.

Hv. flm. (HStef) sagði, að hið eina, sem vjer hefðum gert til þess að stöðva eða laga gengi vort, væru lántökur. En þetta er ekki rjett. Hann verður að minnast innflutningshaftanna 1920 og 1921, og um enska lánið er það að segja, að það var tekið til þess að greiða áfallnar skuldir, sem ómögulegt var að greiða á annan hátt. Gengisráðstöfun var það aftur á móti ekki, og ef háttv. þm. hefir kynt sjer það, sem jeg hefi áður haldið fram í þessu efni, veit hann, að jeg hefi jafnan ráðið frá að taka lán í þessu skyni.

Jeg tek undir tilmæli háttv. aðalflm. (HStef) um að nauðsyn sje á, að stjórnin hlutist til um, að ekki verði dyngt vörum inn í landið meðan verið er að athuga þetta mál í þinginu.

Í tilefni af niðurlagsorðum hv. flm. verð jeg að segja, að það er engin hætta á, að málið gjaldi framsögu hans, því að hún var bæði skýr og skipuleg.