11.03.1924
Neðri deild: 20. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í C-deild Alþingistíðinda. (2388)

68. mál, aðflutningsbann á ýmsum vörum

Magnús Guðmundsson:

Jeg get ekki orðið mjög stuttorður, því margir hafa veist að mjer og gefið tilefni til andmæla. Jeg skal þá byrja á háttv. 3. þm. Reykv. (JakM). Hann talaði margt um hina sögulegu hlið þessa máls, einkum meðferð þess á þingi 1921. Hann sagði, að það hefði verið yfirlýstur þingvilji þá, að fella úr gildi öll höft. En jeg vil segja, að það hafi ekki verið þingvilji að láta lögin frá 1920 falla úr gildi. Og jeg held, að tilraun hans (JakM) til þess þá, að fá lögin numin úr gildi, hafi í rauninni verið tilraun til þess að fella stjórnina. Slóttuglega útbúin tilraun, af því hann vissi, að stjórnin hafði gert málið að fráfararatriði, en á hinn bóginn gátu nokkrir fylgismenn stjórnarinnar ekki annað en greitt frv. hans atkv. En þeir skutu þm. (JakM) þar ref fyrir rass með því að svæfa málið í nefnd. Þetta er rjett frá skýrt um gang málsins. Háttv. þm. (JakM) læst vorkenna mjer; en víst er það, að ekki bar á neinni meðaumkun hjá honum á þinginu 1921. Þá var hann á móti flestu eða öllu, sem jeg flutti þar. En jeg fjekk nú samt mestu af því framgengt, eitthvað um 30 frv., að mig minnir. Hvað það snertir, að enginn greinilegur þingvilji hafi komið fram í þessu efni 1921, þá er það náttúrlega rjett, að hann kemur ekki neinstaðar fram í lögum. En á þingi 1922 kom fram frv., sem snerti þetta mál, og þá var þingið greinilega með höftum, hvernig sem var 1921. Jeg vil benda hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) á það, að það var hans synd og hans flokks, að frv. komst ekki fram. Þá fluttu fjórir menn utan Framsóknarflokksins tillögur um að nema úr frv. annað en það, sem snerti innflutningshöftin. Það er nóg til að sýna, að þeir voru með höftum. Svo ef Framsóknarflokksmenn hefðu þá staðið saman, þá hefðu þeir verið vissir með að koma frv. í gegnum þessa deild þingsins að minsta kosti. En þeir voru ekki sammála þá, hvað sem nú er.

Þá sagði hæstv. atvrh. (KlJ), að um leið og jeg álasaði núverandi stjórn, þá álasaði jeg þeirri fyrverandi. Jeg hjelt, að hæstv. ráðh. hefði ekki það álit á fyrv. stjórn, að hann gæti sætt sig við að vera tekinn til jafns við hana. (Atvrh., KlJ: Jú, einstaka menn úr henni.) Minsta kosti ekki mig. Jeg get þó sagt hæstv. atvrh. (KlJ), að það er mikill munur á framkvæmd fyrv. stjórnar á innflutningshöftunum eða síðan hefir verið. (Atvrh., KlJ: Ekki segir skrifstofustjórinn.) Þegar jeg gekk í stjórnina, var þetta mitt aðalmál, þótt það lenti ekki undir þá deild, sem jeg stjórnaði. Einhver spurði, hversvegna nefnd hefði verið skipuð. Það yrði of langt mál að rekja það, en jeg get nefnt þann mann, sem ekki átti hvað minstan þátt í því. Það var Hallgrímur heitinn Kristinsson. (TrÞ: Framsóknarmaður!) Hann áleit, að ekki yrði hægt að hafa hönd í bagga með innflutningnum, nema með nefnd. Já, sumir voru nefndinni hlyntir, en aðrir ekki. Engin slík nefnd eða maður, sem beitir sjer fyrir því að bera slíkt fram til sigurs, getur vænst þess, að hljóta almannalof. Með úrslitunum á þingi 1921 var það beinlínis lagt á vald stjórnarinnar, hvernig hún notaði lögin frá 1920. Rökstudd dagskrá um málið frá hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) var tekin aftur, og önnur rökstudd dagskrá frá háttv. þm. Ísaf. (JAJ) kom ekki til atkvæða. Því verður að líta svo á, að stjórnin hafi haft frjálsar hendur.

Hæstv. atvrh. (KlJ) gerði mikið úr því, að hann hefði ekki álitið rjett að gera frekari framkvæmd í málinu, eftir því, sem komið hafði í ljós í fyrra. En þess ber að gæta, að afstaðan hefir breyst mikið síðan, og sterk hvöt fyrir stjórnina að taka þjettar í taumana, þar sem var hið sífallandi gengi íslensku krónunnar. Þá taldi hæstv. atvrh. (KlJ) upp ýmsar vörutegundir, sem hann hefði bannað, flugelda og slíkt. En jeg held hann hefði mátt banna fleira, t. d. jólatrje, sem svo mikið var flutt inn af, að sjálfsagt nægir til næstu jóla, það sem liggur óselt hjá kaupmönnum. Hvað harmóníkurnar snertir, sem hann leyfði kaup á til Sauðárkróks, þá mun jeg ekki spila á þær, þó jeg komi þangað.