12.03.1924
Neðri deild: 21. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í C-deild Alþingistíðinda. (2392)

68. mál, aðflutningsbann á ýmsum vörum

Þorleifur Jónsson:

Að undanförnu hafa umræðurnar um þetta mál að miklu leyti snúist um það, hvað gert hefir verið í málinu áður og hver afstaða þm. hafi þá verið til þess. Jeg vil aðallega snúa mjer að því, hvað nú sje ráðlegast að gera, enda tel jeg það varða alla mestu.

Jeg veit með vissu, að það hafa sjaldan komið fram svo einróma raddir um það hjá þjóðinni, að stemma beri stigu fyrir innflutningi óþarfavöru, eins og nú. Þær raddir koma fram í svo að segja hverri einustu þingmálafundargerð, sem þinginu hefir borist, og allsstaðar ríkir þessi skoðun, að krónan muni hækka, ef hagfeldur verslunarjöfnuður náist. Menn finna, hve þungbært það er, þegar krónan fellur stöðugt, og ekki gott að segja, hvar staðar muni nema, ef ekki er að gert.

Það hefir verið deilt á hæstv. stjórn fyrir það, að hún hafi ekki notað heimildarlögin frá 1920 eins og skyldi. En jeg skal játa það, að þar er henni nokkur vorkunn. Því eftir því sem hugir manna voru á þinginu 1921, þá var varla von, að stjórnin yrði stórstíg í þeim efnum. Þá komu fram háværar raddir um það, sjerstaklega frá kaupmönnum hingað og þangað af landinu, að ljetta af innflutningshöftunum, og varð þingið að nokkru leyti við þeirri ósk með því að afnema innflutningsnefndina. Þá var því haldið fram mjög kröftuglega, að það stafaði bara bölvun frá höftunum, og að alt mundi lagast af sjálfu sjer, er þau yrðu afnumin. Lít jeg svo á, að það hafi í raun og veru verið gott, að stjórnin hafi svo lítið gert í því efni, því fyrir bragðið hafa menn nú fengið þá reynslu, að ekki hefir ástandið neitt batnað, þótt viðskiftin yrðu frjáls. Ástandið hefir þvert á móti versnað, krónan lækkað og skuldir farið vaxandi. Og hver vill nú ábyrgjast, að gjaldmiðill okkar falli ekki niður úr öllu valdi, ef ekkert er gert? Jeg hefi heyrt hjer í ræðum einstakra hv. þm., að þeir hafa ekki trú á innflutningshöftum og telja þeir, að krónan muni ekki hækka fyrir það. Jeg skal játa, að lággengi hennar mun stafa af fleiru en einni orsök. En hinu verð jeg þó að halda fram, að ekki mun til lengdar falla gjaldmiðill þess lands, sem ekkert skuldar erlendis frá ári til árs. Það, sem hjer er nú um að gera, er þetta, að spara. Hitt getur verið álitamál, hvar ætti helst að spara. Það er nú svo um þorra manna út um sveitir landsins, að þeir verða að spara, og hafa líka allan vilja á því, og jafnvel hafa sumstaðar verið gerð samtök um það. En það, sem hamlar, er þetta, að samtökin eru ekki almenn. Til þess að ná almennum, samtaka sparnaði, verður þingið að taka málið í sínar hendur, og það er þetta, sem frv. fer einmitt fram á. Ef þetta frv. yrði að lögum, og við það sparaðist 8 miljónir króna, þá er öllum það auðsætt, að talsvert mundi um það muna.

Einstöku þm. hafa andmælt þessu frv. Mest hefir hv. 3. þm. Reykv. (JakM) haft á móti því. Kveður hann það myndi auka mjög dýrtíðina í landinu. Það getur verið, að vörur, sem lítið er af, kynnu að hækka í verði. En þá er ekki annað en setja á þær hámarksverð. Þessi hv. þm. benti á þá leið, sem jeg tel verst gegna, að taka lán til að bæta gengið. Jeg hjelt annars, að menn væru nú loksins komnir að þeirri niðurstöðu, að við værum búnir að taka nóg lán. Það hefir best sýnt sig hjá Dönum, hve óholl þessi aðferð er. Lán það, sem þeir tóku hjá Englendingum, virðist hafa haft mjög öfug áhrif á gengið við það, sem búist var við. Að minsta kosti hefir króna þeirra lækkað stórum síðan. — Nei, til þess að komast úr þessari kreppu, verðum við að spara, allir að spara. Jeg veit, að vísu, að aukin framleiðsla hefir mikið að segja, en framleiðslan getur ekki aukist í einum rykk, og því verður að grípa til sparnaðarins, í bili að minsta kosti.

Hv. 1. þm. G.-K. (ÁF) andmælti líka þeirri leið, sem hjer er farin. Hann vildi fremur fara þá leið að setja háa tolla á þessar vörur. Um þetta má náttúrlega lengi deila, en jeg óttast, að með því lagi verði auðveldara að smeygja sjer hjá lögunum og tollsvíkja þessar vörur. Hann kvað, að ekki yrði af komist án sumra þeirra vara, sem í frv. væri, svo sem fataefna og skófatnaðar. Það er rjett, að það verður að sjá um það, að ekki verði skortur á klæðnaði, en jeg hygg, að talsvert sje til í landinu af þessum vörum, og svo geta landsmenn sjálfir framleitt meira af þeim en nú er gert.

Hv. þm. (ÁF) gerði mikið úr því, hve óviðfeldin þessi leið væri. Hann kvað það sama sem að fara um 100 ár aftur í tímann. Jeg held, að við myndum trauðla færast svo mörg ár aftur í tímann, þótt nokkur skortur yrði á þessum vörum um tveggja til þriggja ára bil.

Hjer er nú á ferðinni það mál, sem jeg verð að telja merkilegast þeirra mála, sem fram hafa komið á þessu þingi. Vona jeg, að hv. þm. sjái, að nauðsynlegt er að aðhafast eitthvað verulegt í þessu efni. En það þarf að vinda bráðan bug að því. En þar sem ekki verður hjá því komist, að nokkur tími fari í það að ræða það, þá tel jeg æskilegt, að hæstv. stjórn gefi út bráðabirgðareglugerð, sem banni að flytja inn þær vörur, sem taldar eru upp í frv. En til þess verður hæstv. stjórn auðvitað að hafa ljósan þingvilja að baki sjer.