23.04.1924
Efri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 828 í B-deild Alþingistíðinda. (243)

1. mál, fjárlög 1925

Ingvar Pálmason:

Jeg á aðeins eina brtt. á þskj. 417. En jeg skal taka það fram, að þó jeg kæmi ekki með brtt. við stimpilgjaldið, þá var það ekki af því, að jeg teldi þann lið ekki alt of lágt áætlaðan; síður en svo. Jeg er viss um, að hann er alt of lágt áætlaður, verði ekki beitt hinum ströngustu innflutningshöftum til þess að draga úr innflutningnum. En í því trausti, að stjórnin setji slík höft og beiti þeim kröftuglega, hefi jeg látið hjá líða að koma með brtt. við þennan lið.

Þá vil jeg lítið eitt minnast á VIII. brtt. á þskj. 417. Jeg gat ekki sannfærst af ræðu hv. 2. þm. G.-K. (BK), að hjer væri um nokkurskonar verslunarsamning að ræða, og því bæri nauðsyn til að borga manni þessum eins og um hefði verið samið. Hvort svo er, að hjer sje um samning að ræða, veit jeg ekki og óska eftir fræðslu í því efni frá hv. þm. Ef nú svo er, að hjer sje um samning að ræða, þá vantar upplýsingar um það, hvort báðir aðiljar hafi haldið hann, því að það er sjálfsagður hlutur, að því aðeins er samningurinn í fullu gildi, að báðir aðiljar hafi við hann staðið. Um það atriði vildi jeg mega vænta upplýsinga frá hv. 2. þm. G.-K. Annars skal jeg játa, að jeg lít annan veg & þetta mál en þessi hv. þm. Jeg tel, að hjer geti ekki verið um neinn verslunarsamning að ræða, heldur hafi þingið, þegar starf þetta var stofnað, ákveðið að verja fje til undirbúnings íslenskrar orðabókar, en hve mikið það yrði, færi eftir því, hvað þingið sæi sjer fært í það og það skiftið.

Hvernig sá undirbúningur hefir verið af hendi leystur, sem þegar er búið að verja fje til, veit jeg ekki með vissu, en ýmislegt virðist benda á, að hann sje ekki sem best úr garði gerður; að minsta kosti sagði hv. 5. landsk. þm. (JJ) við 2. umr. fjárlaganna, að sá kafli, sem búinn væri, yrði að teljast mjög ófullkominn. Þetta vildi háttv. 2. þm. G.-K. (BK) fóðra með því, að byrjun sú, sem komin er, væri aðeins sýnishorn. En úr því að þetta er aðeins sýnishorn, sem búið er að vinna af þessu verki, sem þegar hefir verið varið til fleiri tugum þúsunda, virðist ekki úr vegi að fara að athuga, hvort verkið alt muni, eftir því að dæma, ekki verða svo dýrt, að ókleift verði að leggja frekar út í það að sinni. Jeg hefi enga löngun til að ganga á rjett sjera Jóhannesar, og jeg er meira að segja fús til að veita honum sæmileg eftirlaun, en að veita honum meira fje til að vinna að orðabók þessari, með ekki meiri árangri, tel jeg vafasamt að rjett sje.

Viðvíkjandi því, að maður þessi hafi verið tekinn úr prestsembætti, er það að segja, að jeg veit ekki betur en að hann hafi með fúsum vilja sótt um starfa þennan.

Þá skal jeg snúa mjer að brtt. háttv. þm. Vestm. (JJós) um 10 þús. króna fjárveitingu til erindrekstrar í Miðjarðarhafslöndum, gegn tvöföldu framlagi annarsstaðar frá. Jeg mun ekki leggjast á móti brtt. þessari, þótt jeg telji vafasamt, að hún sje til annars en að sýnast, því að jeg býst við, að 20 þús. krónur annarsstaðar frá verði hvergi fáanlegar. Mjer dylst þó ekki, að af þessu gæti orðið mikið gagn, ef hægt yrði að koma því í framkvæmd þannig, að uppfylt yrði skilyrði það um 20 þús. króna framlag annarsstaðar frá. En þar sem feld var við 2. umr. fjárlagafrv. tillaga frá mjer um 10 þús. kr. hækkun á styrknum til Fiskifjelagsins, er fyllilega ljóst, að frá því fjelagi er ekki hægt að vænta styrks í þessu skyni, þar sem líka fjárveitingin til þess er mjög skorin við neglur. Sje jeg því ekki, hvaðan hægt er að fá þessar 20 þús. krónur, nema ef ske kynni þá helst frá bönkunum, en fyrir því er engin vissa. Jeg er því í vafa um, hvort jeg geti fylgt þessari tillögu, ef ekki koma þá því skýrari upplýsingar um, að fje þetta, sem til vantar, sje fáanlegt, því að jeg lít svo á, að kák í þessum efnum sje þýðingarlaust.

Þá á jeg eina brtt. á þskj. 417; er það áframhald af tilraun til þess að reyna að fá hækkaðan styrkinn til Stefáns Stefánssonar póstafgreiðslumanns. Kringumstæðum þessa manns lýsti jeg við 2. umr. fjárlaganna, eftir því, sem mjer var frekast unt. Vona jeg því, að háttv. deild samþykki þessa hækkun, því að það ætti öllum að vera ljóst, hve lítils virði einar 300 krónur eru fyrir tvö gamalmenni til að lifa af. Þyrfti slíkur styrkur, ef hann ætti að nægja, að vera ekki minni en 3000 krónur, og nægir þar um að benda til VIII. brtt. á þskj. 417.

Þá er XVI. brtt. á þskj. 417, frá hæstv. fjrh. (JÞ), um 168 þús. króna fjárveitingu vegna væntanlegrar hækkunar á dýrtíðaruppbót starfsmanna ríkisins. Eftir því, sem mjer skildist af ræðu háttv. frsm. fjárveitinganefndar, hjelt jeg, að háttv. fjvn. hefði tekið tillit til þessarar verðstuðulshækkunar í tillögu sinni á þskj. 417, XVII. II, og jeg mun því greiða atkv. á móti till. hæstv. fjrh., en aftur á móti fylgja till. fjárveitinganefndar, af því að jeg hygg, að hún sje á rökum bygð. Aðstöðu mína til hinna annara brtt. mun jeg sýna með atkvæði mínu.