26.02.1924
Neðri deild: 8. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 943 í C-deild Alþingistíðinda. (2465)

34. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Magnús Torfason:

Jeg ætla mjer ekki að skemta mönnum. Þar sem þetta frv. er fram komið, býst jeg við, að því verði sýndur sá sómi að vísa því til nefndar, og tel jeg þá eðlilegt, að alt þetta sendimannamál verði athugað vel.

Í fyrsta lagi vildi jeg biðja væntanlega nefnd að athuga, hvort sendiherra vor sje viðurkendur af dönsku stjórninni. Af hirðskrá og embættismannaskrá Dana verður ekki sjeð, að hann sje viðurkendur á borð við sendiherra annara þjóða. Hann er ekki talinn með þeim, heldur settur einn sjer úti í horni og kallaður fulltrúi Íslands. Að því sem mjer er best kunnugt, hefir sendiherra vor ekki að öllu verið settur jafnfætis öðrum sendiherrum.

Eftir því sem hæstv. forsrh. (SE) sagði, hefir Sveinn Björnsson sendiherra verið sendur til þess að semja við Norðmenn, og ef jeg man rjett, einnig við Englendinga. Mjer kemur til hugar út af þessu, hvort ekki væri rjett að stækka verksvið sendiherrans, ef vjer eigum að halda því embætti við, og láta hann þá, ef unt er, vera fyrir öll Norðurlönd og Bretland. Hann situr þá óneitanlega vel í Kaupmannahöfn.

Það munu vera skiftar skoðanir um það, hvaða gagn vjer höfum af því fje, sem til þessa er veitt. Jeg vil því skjóta því til væntanlegrar nefndar, hvort hún vill ekki fá skýrslu um störf sendiherrans og árangur þeirra.

Svo sem bent hefir verið á, höfum vjer haft aðra sendimenn, sem kostað hafa margfalt meira fje en þessi. En mjer er ekki kunnugt um, að vjer höfum síðan í ófriðnum haft eyrisgagn af þeim, nema síður sje. Jeg vil því leyfa mjer að æskja þess, að væntanleg nefnd afli sjer vitneskju um störf þessara sendimanna og árangur þeirra.

Það var sagt áðan, að vjer yrðum að fórna miklu til þess að fá góða menn til að standa fyrir málum vorum í útlöndum. Þetta er að vísu satt. En ekki er þó alt fengið með því að fórna fje. Jeg minnist að hafa heyrt, að á ófriðartímunum beiddist stjórnarforseti í ríki einu, sem var í bandalagi við Frakka, þess af frönsku stjórninni, að hún sendi sjer duglegan og greindan mann sem sendiherra. Clemenceau svaraði þegar, að það gæti hann ekki, því að hann hefði ekki nema 2 slíkum mönnum á að skipa, sem ekki væru fábjánar. Þetta sýnir, að það er ekki einhlítt að ausa út fje til þess að fá góða fulltrúa.

Jeg vil leyfa mjer að óska, að þá er þetta mál kemur aftur til umræðu, liggi það þannig fyrir, að þjóðin geti myndað sjer skoðun á gagnsemi þessara sendimanna, sem kostað hafa blóðugt fje.