06.03.1924
Neðri deild: 16. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 957 í C-deild Alþingistíðinda. (2473)

34. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Forsætisráðherra (SE):

Jeg vil leyfa mjer að benda á, að þegar sambandslögin voru samþykt, var búist við því, að vjer mundum reyna að hafa eins mikinn íhlutunarrjett um utanríkismál og unt væri, og taka þau algerlega í vorar hendur, þegar tímar liðu. Eitt aðalatriðið í þessu var stofnun sendiherraembættisins í Kaupmannahöfn. Með því að leggja niður þetta embætti, virðist slakað allmjög til í þessum efnum. Nú þykir ef til vill ekki skifta svo miklu máli, að hugsað sje um sjálfstæðismál vort. Tímarnir breytast og mennirnir með. En þó varir mig, að rísa muni sú alda, er segir, að ekki dugi að leggja niður afskifti vor af þessum málum. En þau afskifti munu ekki verða oss í hag, ef vjer erum sviftir möguleikanum til þess að kynna oss þessi mál sem best. Sje þetta embætti skorið niður, þykir mjer sem skorinn sje einn aðalþáttur sjálfstæðis vors. En vera má, að þá vakni sú viðkvæmni í ýmsum brjóstum, sem veldur því, að oftar verður ekki skorið.

Jeg viðurkenni fúslega, að mjer er þetta tilfinningamál. Mjer finst sem verið sje að ganga óafvitandi á rjett þjóðarinnar, að hún sje að minka við þetta mál. Jeg sje þær sýnir úr þessu sæti — og þetta mun að líkindum verða ein af síðustu ræðunum, sem jeg held úr því — að gangi þjóðin þessa leið hröðum skrefum, mun hún minka, en ekki vaxa.

Jeg vil nú leyfa mjer að beina einni spurningu til hv. frsm. (JÞ). Mjer skilst, að hv. nefnd ætlist til, að sá maður, sem nú gegnir störfum sendisveitarritara, veiti hinni nýju sendisveitarskrifstofu forstöðu. En hvernig verður þá aðstaða sendisveitarinnar til utanríkisráðuneytisins danska? Æðsti maður sendisveitarinnar verður að gera ýmsa samninga við utanríkisráðuneytið, og er þá undarlegt, ef þessi sami maður getur rekið erindi íslensku stjórnarinnar og verið um leið embættismaður í danska utanríkisráðuneytinu. Jeg verð að krefjast þess, að hv. nefnd athugi vel, hvort þetta tvent geti farið saman, að embættismaður í danska utanríkisráðuneytinu geti verið æðsti maður í sendisveit vorri í Kaupmannahöfn. Jeg fæ ekki sjeð, hvernig það getur samrýmst.

Hv. frsm. (JÞ) kvaðst hafa átt tal við þá menn, sem voru þessum málum kunnugastir, og hafi þeir sagt, að vel mætti leggja þetta embætti niður. Jeg veit ekki, hverjir þessir menn eru, og get því ekki sagt um það, hve mikið er leggjandi upp úr orðum þeirra. Jeg hefi átt tal um þetta við núverandi sendiherra, og álítur hann, að ekki megi með neinu móti leggja embættið niður. Eftir þeirri þekkingu, sem hann hefir aflað sjer á þessum störfum, telur hann, að það taki engu tali. Sendisveitarritarinn er alveg á sama máli. Jeg get rólegur skírskotað til þessara manna, því að jeg veit, að þeim kemur ekki til hugar að andæfa þessu. Jeg veit, að þeim muni kært, að jeg noti það traust, sem Alþingi ber til þeirra, til þess að skýra hjer frá skoðunum þeirra í þessu máli.

Jeg hygg, að ýmsir menn hafi misskilið þetta mál og talið það smámál. Það er alveg rangt. Þetta er stórmál, sem varðar mjög stjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.

2