06.03.1924
Neðri deild: 16. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 980 í C-deild Alþingistíðinda. (2492)

34. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Forsætisráðherra (SE):

Jeg átti við þann óþarfakostnað, sem leiddi af umræðum um mál, sem sjálft þingið er ár eftir ár búið að reka sig á, að eru óframkvæmanleg; því þá er það aðeins aukinn kostnaður að bera fram þessháttar frv. Nú ber, t. d., háttv. 1. þm. Reykv. (JÞ) fram frv., um breytingu á skipulagi háskólans. Í því frv. er gert ráð fyrir, að grískudósentinn haldi sínum embættislaunum þangað til hann hafi fengið annað embætti. Þetta bendir á, að allur gauragangurinn um þetta dósentsembætti lendir á þinginu, til þess að það fái tækifæri til að tala um sparnað, sem aldrei verður framkvæmdur. Það var því þessi áminning, sem jeg vildi gefa þinginu, — að vera ekki að vekja upp gamla drauga, sem illfært er að kveða niður aftur, því að það verður aðeins til þess að auka óþarfan kostnað. (PO: Hefir ekki stjórnin sjálf vakið upp þessháttar drauga, sameining þjóðskjalavarðarembættisins við landsbókasafnið?) Jeg tel víst, að þetta frv. verði samþ., en hin frv. frá síðasta ári, sem jeg bar fram og veit, að voru öll mjög heppileg, hefi jeg ekki borið fram, af því að jeg sje, að þingið er þannig skipað, að engar líkur eru til að þau gengi fram.