26.04.1924
Efri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1002 í C-deild Alþingistíðinda. (2506)

34. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Jónas Jónsson:

Þetta mál virðist vera nokkuð loðið fyrir augum þeirra manna, sem stóðu að samningunum 1918 og átt hafa mestan þátt í meðferð þess síðan.

Hv. 1. landsk. (SE) heldur því fram, að það sje nauðsynlegt að hafa sendiherra í Kaupmannahöfn, og hann heldur því fram, að orsökin til þess, að bæði neðri deild Alþingis og mestallur landslýður vill leggja embættið niður, sje sú, að einn eða tveir menn hafa skrifað um, að embættið væri ónauðsynlegt. En jeg vil benda hv. þm. (SE) á, að það þyrfti meira en menska hæfileika til þess að koma slíkri sannfæringu inn hjá þjóðinni, ef um rangt mál væri að ræða. Það er alveg ómögulegt, hvorki með blöðum eða öðruvísi, að sannfæra heila þjóð um, að eitt embætti sje óþarft, nema því aðeins, að svo sje í raun og veru. En það eru fáar þjóðir, sem hafa borið gæfu til að búa við samskonar fullveldi og við fengum árið 1918. Þjóðin hefir komist að þeim beiska sannleika, að vjer afhentum annari þjóð utanríkismál vor árið 1918 og getum því ekki farið með þau sjálfir um ákveðinn tíma, og það er ástæðan til þess, að mönnum finst þýðingarlaust, að vjer sjeum að burðast með sendiherra, sem er í raun og veru ekki sendiherra í eiginlegum skilningi. Og í því sambandi duga engar hártoganir, eins og hv. þm. Seyðf. kom með, er hann hjelt því fram, að jeg kynni ekki að gera mun á umboði og aðild. Það getur verið gott að tala um slíkt við þá lögfræðisskussa, sem hafa aðeins lágmark heilbrigðrar skynsemi. En við menn, sem hafa óbrjálaða greind, er þýðingarlaust slíkt glamur.

Besta sönnunin fyrir því, hve lítið vald við höfum í utanríkismálunum, er ágreiningur sá, sem kom upp milli Dana og Íslendinga um sendimanninn til Genúa. Og í því máli gafst stjórnin upp og treysti sjer ekki til að framfylgja sinni kröfu, og hv. þm. Seyðf. gafst upp. (JóhJóh: Það var þingið, sem gafst upp. SE: Þingið gafst upp!) Og af hverju gafst þingið upp? (SE: Af sparsemi.) Eftir þessu hefir stjórn og þing 1921 afsalað sjer fullveldinu, um leið og stjórnin gafst upp í Genúamálinu. Fögur lýsing á varðliði föðurlandsins!

Stjórnina brast vald til þess að koma sínu fram, og þessvegna gafst hún upp. Það var veitt fje til sendimanns til Genúa, með því skilyrði, að hann væri íslensk-danskur embættismaður, og það hefir verið játað af bæði hæstv. forsrh. (JM) og hv. 1. landsk. (SE: En svo kom upp ágreiningur milli Íslendinga og Dana um það, hvort hann skyldi teljast íslenskur eða danskur embættismaður.) Já, og sá ágreiningur endaði með því, að íslenska stjórnin og þingið beygði sig fyrir hinum dönsku valdhöfum, af því þeir höfðu sterkari grundvöll í samningnum 1918.

Gamla Kópavogssagan endurtók sig árið 1918, þegar vjer með samningunum við Dani fengum þeim í hendur utanríkismál vor. Það er sorgleg sjón að sjá, hvernig hið fullvalda íslenska ríki hefir komið sínum utanríkismálum fyrir. Það eru ekki íslenskir, heldur danskir sendiherrar, sem fyrir vora hönd hafa undirritað samninga vora við erlend ríki, t. d. Spán, Noreg o. s. frv. Það er von til, að þeir menn, sem stóðu að samningagerðinni 1918, hafi vonda samvisku. Hv. 1. landsk. (SE) spyr, af hverju vjer ættum ekki að hafa sendiherra erlendis eins og aðrar þjóðir. Hvaða fullvalda þjóð, aðra en Íslendinga, þekkir hann, sem hefir afhent annari þjóð fult umboð til þess að fara með utanríkismál sín?

Nú vil jeg beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh. (JM), hvort hann, ef að frv. verður felt, ætli að skipa annan mann í sendiherraembættið.