28.04.1924
Neðri deild: 57. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1146 í C-deild Alþingistíðinda. (2599)

42. mál, einkasala á áfengi

Frsm. 3. hl. (Jakob Möller):

Það er ekki rjett að engin áhersla hafi verið lögð á það, hvernig verslunin væri rekin. Jeg gerði það einmitt í ræðu minni áðan. En einmitt við sameininguna fær stjórnin ástæðu til að athuga þetta og rannsaka, hvernig þeir menn, sem nú eru við þennan verslunarrekstur, eru til þess fallnir að hafa hann á hendi. Og jeg legg áherslu á það, að stjórnin er vitanlega ekkert bundin við það, að halda núverandi forstjóra landsverslunarinnar. Stjórninni er skylt að fela þá forstöðu einhverjum manni, sem hún treystir fullkomlega, því að gagnvart þinginu er það vitanlega ríkisstjórnin, sem ábyrgðina ber á þessum verslunarrekstri. Henni er innan handar að skifta um menn, ef henni virðist þess vera þörf. Geri hún það ekki, tekur hún auðvitað um leið á sig ábyrgðina á þeim mönnum, sem nú eru þar.