28.04.1924
Efri deild: 56. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1223 í C-deild Alþingistíðinda. (2691)

121. mál, þingsköp Alþingis

Eggert Pálsson:

Eins og háttv. frsm. (JJ) gat um, þá erum við samdóma um það, að teljast megi til bóta að nota sjerstakan ræðustól fyrir þingmenn í hvorri deild. Þær umbætur hafa tvær hliðar. Önnur er sú, að menn standa síður upp að óþörfu til þess að tala, ef þeir þurfa að fara upp í ræðustólinn til þess. Hin hliðin er sú, að liggi mönnum eitthvað á hjarta, þá fer betur á því, að ræðumenn hafi góða aðstöðu við flutning ræðanna, því það fer óneitanlega ekki vel um þá, eins og nú er, þar sem þeir verða að standa við þessi lágu borð og halda á blöðum sínum. Því ef þeir leggja þau frá sjer, þá geta þeir engin not haft af þeim. Sje ræðustóll notaður, þá eru blöðin það nærri, þó menn leggi þau frá sjer, að auðvelt er að hafa not af þeim. Að því er síðustu breytinguna snertir, að takmarka ræðutímann, þá er hún einnig tvímælalaust til mikilla bóta. Það sýnir sig oft, að hinar löngu ræður, sem haldnar eru í þinginu, eru til þess eins að eyða að óþörfu tíma þingsins. Menn verða að játa það, að þegar haldnar eru klukkutímaræður, þá eru allir orðnir þreyttir á að hlusta á þær, nema ræðumaður sjálfur. Má sjá þess ljós merki í hv. Nd., þar sem eigi er ótítt, að borð og bekkir sjeu að mestu leyti tómir undir löngum ræðum. Enda ætti mönnum ekki að verða skotaskuld úr því að koma vel fyrir máli sínu á ½ kl.stund. Og sjerstaklega munu menn, er þeir vita, að ræðutíminn er takmarkaður, vanda meira ræður sínar bæði að hugsun og framsetningu.

Aftur á móti er jeg ekki sammála hv. frsm. (JJ) um 1. gr. Hann gat þess í ræðu sinni, að jeg áliti, að með þessari breytingu skapaðist nokkurskonar yfirþing, og er það rjett, að jeg lít svo á. Held jeg, að þm. þeir, sem í þessar nefndir verða kosnir, verði í augum almennings að einskonar æðri verum. Og þar sem þeir með þessu sitja í raun og veru lengur á þingi en aðrir þm., þá er þar með myndaður einskonar þrepstigi í þingmenskunni. Tel jeg það mjög óheppilegt. Álít jeg, að allir þm. eigi að vera jafnir í þessu efni.

Ennfremur yrði þessi breyting mjög óhentug í framkvæmdinni, aðallega af tveimur ástæðum. Önnur er sú, að ef kjósa á fjvn. á þinginu áður, þá verður því tæplega við komið, sakir stærðar landsins og strjálbygðar, að ná nefndarmönnunum hingað suður í tæka tíð, sjerstaklega ef í nefndunum sætu einhverjir þeir menn, er heima eiga á útkjálkum landsins. Mundi þetta leiða til þess, að meira yrði litið á það við valið, að nefndarmenn væru búsettir í Reykjavík eða nágrenni hennar, heldur en á það, hverjir hæfastir væru. Er augsýnilegt, að skipagöngur verða ekki svo tíðar í nánustu framtíð, að hægt verði að flytja alla fjvn.menn til Reykjavíkur 14 dögum áður en þing kemur saman. Þeir nefndarmenn, sem ekki kæmust nægilega snemma sjóleiðis, yrðu því að leggja það á sig að fara landveg, ef til vill langa og erfiða leið.

Hin ástæðan á móti breytingunni er sú, að með henni er útilokað, að þingmenn geti haft áhrif á nefndina um málefni sín, þar eð hún á að hafa lokið störfum sínum áður en þing kemur saman. Og hvað það snertir, að hafa áhrif á nefndirnar, þá er það mjög óviðeigandi að útiloka þm. frá því, úr því aðrir geta átt óhindrað tal við þær. Finst mjer, að það ætti þá algerlega að banna alt viðtal við þær. En væri sú regla tekin upp, þá þyrfti ekki að breyta lögum og þingsköpum til þess að vinna tíma, því jeg hygg, að mestur tími fjárveitinganefndanna fari í samtal við menn.

Svo kem jeg að höfuðgalla þessarar till., en hann er sá, að það er ekki hægt að framkvæma hana altaf á sama hátt. Þegar nýjar kosningar eru í vændum, yrðu menn að búa við alt annað fyrirkomulag en hin árin, og er það mjög óviðfeldið og viðrinislegt.

Jeg hefi svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál, en skal taka það fram, að þó að brtt. þessi verði ekki samþ., þá tel jeg hinar tvær til mikilla bóta. Mun jeg því fylgja frv., ef 1. gr. þess er feld.