28.04.1924
Efri deild: 56. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1230 í C-deild Alþingistíðinda. (2695)

121. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. (Jónas Jónsson):

Jeg þarf ekki að taka til mín ásakanir til Íhaldsflokksins fyrir breytingagirni. En jeg vildi benda á það, að okkar aðstaða hjer á landi er svo sjerstæð, og hinsvegar, að við erum ung þjóð og höfum margt að læra. Jeg geri ekki ráð fyrir, að við sjeum enn búnir að finna hin heppilegustu tök í stjórnarfari voru. Vil jeg minna á það — þó það mál liggi ekki fyrir nú — að það er búið að leita að sameiginlegum kjördegi fyrir þjóðina með logandi ljósi í mörg ár, reynt vor, sumar og haust og vetur. Endanlega lausnin verður líklega sú, að hafa tvo kjördaga, sumar og vetur, laga sig eftir staðháttum. Það væri óverjandi að vilja nú ekki hliðra til með kjördaginn, en álíta það spjöll að breyta uppteknum sið og útiloka fjölmarga kjósendur frá að njóta rjettar síns. Alveg eins verðum við að þreifa okkur áfram með fyrirkomulag þingsins á ýmsan hátt. Við höfum alt of lítið lært af Englandi, móður parlamentanna. Við höfum fengið okkar fyrirkomulag frá París, gegnum Berlín og Kaupmannahöfn. En við hefðum gert rjettast í því að sníða okkar þing eftir enska þinginu. Eins og flestum mun kunnugt er þar nær því ómögulegt að koma fram þingmannafrv. Enginn einstakur maður getur haft áhrif á fjármálin, nema gegnum sinn eigin flokk. En stjórnin, með meirihluta þingsins á bak við, ræður öllum fjármálum og löggjöf. Við höfum fengið okkar þing, án þess það væri mótað verulega eftir fyrirmynd þinganna. Erum við vissir um, að engu þurfi að breyta? Er ekki óráð að vilja ekki athuga það? Í þessu efni veit maður aldrei, hvenær maður hefir náð fylsta stigi námsins.

Hv. 1. þm. Rang. (EP) vil jeg svara því, að því fer fjarri, ef við lítum til reynslu Englendinga, að þessi tilhögun með fjvn. mundi verða til skaða, heldur mundi það auka íhaldið. Fjvn. mundi ekki vera eins undir áhrifum flokksmanna sinna, sem reyna að hafa peninga út úr fjárhirslunni.

Við skulum athuga ástæður eins og þær eru nú. Hv. 1. þm. Rang. (EP) er stuðningsmaður hæstv. stjórnar. Í sjálfu sjer er rangt, eins og alment er álitið, að Jón Jónsson og Pjetur Pálsson sjeu í nefndinni. Það eru flokkarnir, sem eru í nefndinni. Meira að segja er hv. 1. þm. Rang. (EP) í meirihl. fjvn. Nd., af því hann er í stjórnarflokknum. Þannig er með fastri flokkaskipun hverjum þm. trygður rjettur eins og hann kæmi sjálfur til skjalanna. Mjer fanst hv. þm. miða við gamaldags skipun eða að engir flokkar sjeu til í þinginu. En þar sem flokkaskifting hefir verið lengi í þingum, hverfa einstaklingarnir inn í hópinn. Þetta á því betur við sem flokkarnir mótast betur í sinni aðstöðu til málanna í heild.