28.04.1924
Neðri deild: 57. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í C-deild Alþingistíðinda. (2726)

83. mál, fátækralög

Frsm. meirihl. (Jón Kjartansson):

Eins og þskj. bera með sjer, þá hefir allshn. ekki getað orðið á eitt sátt um málið. Leggur meirihl. til., að frv. nái ekki fram að ganga.

Eins og hv. þm. sjá, gerir frv. ráð fyrir svo stórfeldum breytingum á fátækralögunum, að varla getur talist verjandi að leggja þann kostnað, sem sú breyting myndi hafa í för með sjer, á sveitarfjelögin, og síst, ef ekkert væri fundið í staðinn til að ljetta undir með þeim. Það er enginn vafi á því, að miklu fleiri myndu leita á náðir sveitarinnar en nú gera, ef fátækrastyrkur hefði engan rjettindamissi í för með sjer. Sjerstaklega myndu margir komast undir c-lið frv. Og þó kanske mætti finna ráð til að hjálpa sveitarfjelögunum til að bera byrðarnar af þessu, svo sem með víðtækum tryggingum, þá er það svo stórt mál og vandasamt, að engin tiltök eru til að afgreiða það, nema eftir mikinn og ítarlegan undirbúning.

Jeg skal játa, að tveir liðir brtt., b og d, eru þannig, að jeg hefði mikla tilhneigingu til að fallast á þá. En þar sem búast má við, að innan skamms tíma verði öll fátækralöggjöfin tekin til endurskoðunar, þá er í sjálfu sjer ástæðulaust að fara að gera þær breytingar nú. Finst meirihl. nefndarinnar rjett að láta þær því bíða.

Það er vitaskuld, að rjettindamissir fyrir þeginn sveitarstyrk kemur oft og tíðum ósanngjarnlega niður á sumum mönnum. En svo er um alla löggjöf, sem almenning snertir, að hún kemur misjafnlega niður á mönnum, og verður ekki fyrir það sneitt. Hjer verður að líta á málið frá sjónarmiði heildarinnar, og því verður þetta misrjetti ekki bætt, nema eitthvað það ráð sje fundið, sem bæti úr því ranglæti og þeim þyngslum, sem sveitarfjelögin bíða við breytinguna. Þetta vil jeg biðja háttv. deild að athuga, áður en hún ræður það af að gera stórfeldar breytingar á fátækralögunum.

Út í einstakar greinar frv. virðist ekki vera ástæða til að fara frekar, þar sem meirihl. nefndarinnar, eins og jeg tók fram í upphafi, leggur til, að frv. verði felt alt.