26.02.1924
Neðri deild: 8. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1313 í C-deild Alþingistíðinda. (2820)

32. mál, vörutollur

Jón Baldvinsson:

Jeg skal ekki verða langorður um þetta frv. að þessu sinni. Eins og sumir hv. þm. eflaust muna, þá lagði jeg fast á móti frv., er það kom fram í fyrra, og mun eg gera svo ennþá. Ástæðurnar hafa lítið breyst síðan, og vænti jeg þess fastlega, að hið háa Alþingi sjái sóma sinn í því að afgreiða ekki lög sem þessi.

Sumar af þeim vörutegundum, sem eftir frv. þessu á að leggja háan verndartoll á, mega einmitt heita lífsnauðsynjar fyrir fólk í sjávarþorpunum, og eins og ástandið er nú, ætti að fara varlega í það að íþyngja því fólki frekar en orðið er með nýjum álögum og tollum. Og tæplega getur það heldur heitið verndartollur, tollurinn, sem eftir frv. á að leggja á niðursoðna mjólk, þar sem engin framleiðsla á henni er í landinu enn sem komið er og undirbúningi í þá átt víst mjög skamt komið.

Hv. frsm. talaði um kæruleysi okkar í því að vernda atvinnuvegina og líkti oss í því við Englendinga. Jeg vil ekki fara að mótmæla þessu, sem hann sagði um þá, en tæplega held jeg, að Englendingar sjeu kallaðir fyrirhyggjuminni um sína atvinnuvegi en aðrir, og fyrir okkur væri það ekki leiðum að líkjast, og hafa þeir þó aldrei þurft á verndartollum að halda. — Annars virðist nú slík skæðadrífa af tollhækkunum vera í aðsigi, að ekki veiti af að fara varlega.