22.03.1924
Neðri deild: 30. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í D-deild Alþingistíðinda. (2872)

86. mál, bann gegn innflutningi útlendinga

Flm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Tillaga þessi er borin fram vegna þess, að töluvert hefir á því borið á síðustu árum, að útlendingar hafi komið hingað í atvinnuleit. Jeg hefi sjeð skýrslu, sem stjórnarráðið hefir látið gera um útlendinga, sem dvalið hafa í Reykjavík síðastliðinn vetur. Af henni má sjá, að útlendingar hafa einkum flutt til bæjarins 2 síðustu árin til ýmissa starfa, sem innlendir menn gætu alveg eins unnið. Til dæmis hafa verið ráðnir hingað útlendir hljóðfæraleikarar, og tekin vinna af innlendum mönnum, sem þingið hefir leitast við að styðja eftir megni. En nýjungagirni manna heimtar útlendinga, svo að innlendir menn standa ver að vígi í samkepninni.

Þá mætti nefna farfugla, er koma hingað í atvinnuleit, söngmenn og söngkonur, sem flutt hafa með sjer stórfje úr landinu. Það er að vísu hart að þurfa að setja höft á listina, sem ætti að hafa sama rjett um allan heim, en hinsvegar virðist ekki síður ástæða til að setja ákvæði, er komi í veg fyrir, að erlendir listamenn flytji stórfje úr landinu, heldur en um margt annað, sem gert er til að bæta gengi íslensku krónunnar.

Jeg tók eftir því í þessari skýrslu stjórnarráðsins, að það hefir jafnvel komið fyrir, að útlendingar, er hingað hafa komið í atvinnuleit, hafa dregið marga aðra á eftir sjer, svo þó að byrjað hafi á því, að t. d. einn járnsmiður hafi komið hingað, hafa 5–6 verið komnir á eftir áður en varði. Mjer er kunnugt um það, að í Danmörku er sjerfræðingum heimilt að starfa í sinni grein, þótt útlendir sjeu, en þó með því einu skilyrði, að þeir kenni innan eins árs, eða á þeim skemsta tíma, sem við verður komið, einhverjum innlendum manni sína atvinnugrein, og hverfi að því búnu heim aftur. Svo ströng ákvæði eru þar um útlendinga.

Mest hefir þó kveðið að þessum innflutningi útlendinga á Norðurlandi á síðastliðnu sumri. Svo sem kunnugt er, hefir verið síldarbræðslustöð á Krossanesi í Glæsibæjarhreppi. Hún var reist fyrir um 10 árum með vinnu innlendra manna, og hafa Íslendingar jafnan síðan starfað við hana, þangað til síðastliðið sumar. En þá brá svo við, að helmingur verkafólksins, um 60–70 manns, var flutt frá útlöndum til þess að vinna við verksmiðjuna á starfstíma hennar, sem er 4 mánuðir. Á undanförum árum hefir myndast þorp í kringum verksmiðjuna, um 40–50 býli, sem að miklu leyti hafa sótt atvinnu sína þangað, og ennfremur hefir fólk sótt til verksmiðjunnar frá Akureyri og víðar. En nú, þegar atvinnuleysi kreppir mest að landsmönnum sjálfum, er tekið upp á því að flytja þangað erlent verkafólk, allskonar lýð, sem hvorki er þarfur atvinnuvegum þjóðarinnar nje siðferði hennar og heilbrigði. Svipaðar sögur eru sagðar úr öðrum verstöðvum við Eyjafjörð og Siglufjörð, að þar sem Íslendingar hafi áður verið einir að verki, hafi útlendingar verið fluttir inn síðastliðin sumur og tekið vinnuna frá landsmönnum.

Því mætti halda fram, að jafnvel þótt næg atvinna væri í landinu handa öllum börnum þess, væri engin ástæða til að hleypa erlendum verkalýð inn í landið, því að þjóðin hafi enga þörf fyrir það, að atvinnuvegirnir aukist meir en nemur eðlilegri fjölgun fólks í landinu. En hvað sem því líður, geta ekki verið skiftar skoðanir um það, að þegar svo mikið atvinnuleysi er í landinu, að ástæða er til að vernda handa landsmönnum þá litlu atvinnu, sem til er, þá er alveg óverjandi að hafa allar gáttir opnar.

Þá er þessu öðruvísi háttað í Englandi og Þýskalandi en hjá oss. Á Englandi þarf hver vinnustúlka að gefa upplýsingar um það, að hún fái engin laun fyrir starfa sinn, áður en hún fær vistleyfi. Á Þýskalandi er strangleikinn jafnvel svo mikill í þessu efni, að menn mega ekki flytja milli ríkja í atvinnuskyni án sjerstaks leyfis.

Hjer er nú farið fram á, að stjórnin setji reglugerð um bann gegn innflutningi þeirra útlendinga, sem hingað koma til að leita sjer atvinnu. Sjálfsagt tel jeg það, að undanþága verði veitt fyrir sjerfræðinga þá, sem geta unnið atvinnuvegum vorum gagn, og eins fyrir útlenda atvinnurekendur, sem veita aukna atvinnu í landinu. Hið sama yrði líka um útlenda námsmenn í þeim fræðigreinum, sem verða ekki annarsstaðar stundaðar en hjer á landi. Hinsvegar verðum vjer að sýna fullan strangleika gagnvart þeim mönnum, sem leita þeirrar atvinnu, sem vjer höfum sjálfir nóg fólk til að gegna.

Það er satt, að vjer Íslendingar höfum fengið orð fyrir að vera gestrisnir, og færi betur, að vjer hjeldum þeim kosti sem lengst. En það er engin ógestrisni, þótt amast sje við, að gestirnir setjist upp og stjaki við heimafólkinu eins og gauksungar í hreiðri.