29.03.1924
Efri deild: 32. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í D-deild Alþingistíðinda. (2885)

110. mál, sparnaður við starfrækslu ríkisrekstrarins

Jónas Jónsson:

Jeg get ekki sagt, að jeg hafi sannfærst um af ræðu hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), að nefndin, og hann sem formaður, hafi sýnt sjerstakan dugnað í þessu máli. Mjer dettur í hug það, sem Jón Ólafsson sagði eitt sinn um póstmeistarann, sem afhenti póstinn einn sunnudag út um eldhúsdyrnar, að hann hefði gert hreint fyrir sínum eldhúsdyrum en ekki pósthúsdyrum.

Afsökun hv. form. fjvn. (JóhJóh) var sú, að till. hefði ekki komið fyr en 4 vikur voru liðnar af þingi, og þess vegna hefir víst verið rjett að draga í 3 vikur að koma henni á framfæri. Þetta geta þeir einir tekið sem góða og gilda vörn, sem sætta sig við lítið. Er ekki hægt annað en skilja þetta sem tilraun Íhaldsflokksins til að eyða málinu, enda höfðu ýmsir búist við því.

Það á vel við að rifja upp í dag, hvernig hinum hv. meirihl. fórst í Nd., er rætt var um það, hvort takmarka skuli vöruflutning til landsins eða tolla vörurnar. Auðskilið, að kaupmenn vilji heldur tollstefnu, jafnvel þó að landið fari á hausinn. Í Íhaldsflokknum er alt að helmingur embættismenn og hinn helmingurinn kaupmenn, og ekki að búast við, að kaupmenn eða embættismenn taki það vel upp, ef komið er við stjettarhagsmuni þeirra. Verð jeg að taka þetta sem fyrirboða þess, að nefndin muni ekkert gera í þessu máli og því verði eytt.

Það er ekki satt hjá hv. form. fjvn. (JóhJóh), að jeg hafi vanrækt mín störf í þeirri nefnd í fyrra. Jeg mætti reglulega á fundum og með meiri kostgæfni en hann.

Svör hæstv. forsrh. (JM) eru loðin. Hann virðist álíta, að ein nefnd myndi nægja. Hann svaraði ekki neinu því, sem jeg benti honum á, að hann hefði átt sæti í afardýrri nefnd fyrir nokkrum árum, sem fjallaði um þessi mál, en lítið sást eftir. Jeg er líka sannfærður um, að lítið lið verður að einni nefnd nú, allra helst ólaunaðri.

Hæstv. forsrh. (JM) hjelt því fram, að enginn flokkur hefði til 5 menn í þessar nefndir. Jeg veit, að í Framsóknarflokknum eru þeir til, og ætti þá ekki að standa á mönnum úr Íhaldsflokknum, sem þykist vera svo mannsterkur.

Jeg játa, að það er ekki heppilegt að hafa 5 nefndir, ef þær störfuðu eingöngu hver fyrir sig. Gæti verið samvinna milli þeirra, þannig, að formenn nefndanna ynnu saman að einhverju leyti. Er óhjákvæmilegt, að lagður yrði sameiginlegur grundvöllur, svo að ekki yrði árekstur. Hitt get jeg ekki gengið inn á, að ein nefnd geti leyst þetta starf af hendi svo að vel sje og að gagni mætti verða.

Jeg get verið þakklátur fyrir skýringuna á launum póstmeistarans, það sem hún nær. Þetta er gamalt hneykslismál. Menn eru að tala um að leggja niður embætti, spara á þessum og þessum lið, en ekki er minst á það, þó að menn með hæstu launakjörum fái stórar launabætur utan við landslögin. Sum árin hefir póstmeistari fengið alt að 10 þús. kr. í „sportslur“. Það var lagt sjerstakt gjald á póstávísanir — með lögum eða ólögum — sem póstmeistari hirti svo. Mjer er ekki kunnugt um, að líkt eigi sjer stað neinstaðar annarsstaðar í heiminum.

Þetta var átalið í blöðum. Voru þá sjerstakir samningar gerðir við póstmeistara, að hann gerði sig ánægðan með 4 þús. kr. í staðinn. Má vera, að hægt sje að finna svona pytti í ýmsum greinum embættisstarfrækslu hjer á landi, þar sem forstöðumenn hafa holað sjer niður í hæga sæng.

Ef til vill mundi hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) álíta það þess vert að eyða nokkrum klukkustundum til að athuga launakjör starfsmanna, sem beint og óbeint hafa 25–40 þús. kr., eins og sumir hafa gefið upp til skatts, t. d. hv. þm. Seyðf. (JóhJóh).

Jeg hefi notað þennan útúrdúr til þess að vekja athygli hæstv. stjórnar á því, að nóg eru verkefnin á þessu sviði. Jeg vil gefa hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) tækifæri til að greiða atkvæði með eða móti sparnaðarfrv., þar sem sparnaðurinn nemur mörgum þús. kr. Jeg tók það saman á fáum mínútum í gærkvöldi; efast jeg ekki um, að hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) myndi fá miklu ríflegri uppskeru, ef hann legði krafta sína fram, þar sem hann hefir mjög góða þekkingu á embættisrekstri ríkisins.

Jeg er að mestu leyti sammála hv. 1. landsk. þm. (SE) í því, sem hann sagði um sýslumennina, aðeins vil jeg ganga lengra en hann. Er það vel, að þar hefi jeg fyrir mjer „autoritet“ þess manns, sem hæstv. forsrh. er. Það er því mjög fínn fjelagsskapur, sem jeg hefi í þessu máli, og vona jeg, að dragi til góðs.

Hv. 1. landsk. þm. (SE) benti á það, hve erfitt væri að koma sparnaðarmálum í gegn. Það er bending um það, að það verður að byggja þessa fyrirhuguðu nefnd upp af öllum flokkum. Oft hefir verið valið í nefndir af hreinni tilviljun, eins og t. d. mentamálanefndina 1920. Það voru að vísu góðir menn, en höfðu ekki tiltrú allra, máske ekki neinna flokka í þinginu, til að ráða þeim málum heppilega til lykta. Það er engin leið önnur til að koma sparnaðarmálum í gegn en sú, að flokkarnir komi sjer saman. Þess vegna er það eitt frumskilyrði fyrir nokkurn ávöxt, að nefndin sje bygð úr öllum flokkum.